Forsendur kjarasamninga brostnar

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir þungum áhyggjum af afkomu heimila félagsmanna sinna.  Á sama tíma og mörg fyrirtæki og bankar eru að hagnast um stjarnfræðilegar upphæðir hefur aðeins lítill hluti félagsmanna aðildarfélaga Samiðnar fengið launahækkanir sem halda í við verðbólgu. Þannig liggur fyrir að stærstur hluti félagsmanna hefur orðið fyrir kaupmáttarrýrnun.

Miðstjórn Samiðnar telur að forsendur kjarasamninga séu brostnar miðað við núverandi verðbólgu og ástand efnahagsmála svo og launaþróun annarra hópa. Miðstjórnin telur því allar forsendur til uppsagna á kjarasamningum og hvetur verkalýðshreyfinguna til að vera samstíga í aðgerðum við að rétta hlut launafólks á almennum vinnumarkaði.

Launafólk í ASÍ verður að bregðast við  þeirri launafrystingu sem orðin er með gegndarlausum félagslegum undirboðum sem felst í innflutningi á erlendu vinnuafli sem ekki fá greidd mannsæmandi laun og hafa ekki sömu réttindi og íslenskir starfsmenn. Einnig hefur orðið viðsnúningur til hins verra á öllum vinnuumhverfismálum svo sem öryggiskröfum, aðbúnaði og að iðnmenntaðir menn sinni fagvinnu. Miðstjórnin mun með öllum tiltækum ráðum vinna að bættum réttindum og kjörum þessara erlendu starfsmanna. Miðstjórn krefst þess af stjórnvöldum að settar verði skýrari reglur varðandi starfsmannaleigur og svokallaða þjónustusamninga sem notaðir eru sem skjól við að lækka laun í landinu.

 

Samþykkt á  fundi miðstjórnar Samiðnar í Vestmannaeyjum 8.september 2005