Illvígar deilur sem kosta miklar þjáningar
Hilmar Harðarson formaður FIT heimsótti Ísrael og Palestínu um páskana með hópi verkalýðsleiðtoga og stjórnmálamanna: Nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið gripi inn í gang mála
– Það er óhætt að segja að maður sé ekki samur maður eftir þessa för. Það sem bar fyrir augu þarna við botn Miðjarðarhafsins voru ólýsanlegar hörmungar sem verður að linna. Ég gat ekki betur séð en að unnið sé að því hörðum höndum að reisa fangelsi utan um heila þjóð, segir Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina, sem nýlega er kominn úr heimsókn til Ísraels og Palestínu. Þangað fór hann ásamt nokkrum fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og fimm alþingismönnum. Ferðina skipulagði Félagið Ísland-Palestína.
– Þetta var vel skipulögð ferð. Við fórum vítt og breitt um svæðið, bæði Palestínumegin og í Ísrael. Það var mikil dagskrá og verið að frá morgni til kvölds. Við fengum tækifæri til að ræða við ólíkt fólk báðum megin og kynna okkur málin af eigin raun.
Ástandið á þessum slóðum ber allt merki um að þessar tvær þjóðir eiga í illvígum deilum sem erfitt er að leysa. Það er sama hvert farið er, alls staðar verður maður var við afleiðingarnar. Í Ísrael, sem er velmegunarríki að hætti Vesturlanda, er víða fallegt og ekki að sjá annað en að íbúarnir hafi það efnahagslega gott. En maður fer ekki inn í verslunarmiðstöð án þess að á manni sé leitað. Fólk er hætt að versla úti á götu. Fólk er hætt að safnast saman. Herinn er úti um allt, hermenn með hríðskotabyssur eru algeng sjón á götum ísraelskra borga og bæja, segir Hilmar. Hann bætir við að Ísraelar séu viðkunnanlegt fólk og á yfirborðinu sé ekki að sjá annað en að mannlífið sé gott.
Skilur ekki að þetta skuli liðið
– Ástandið handan landamæranna er hins vegar þannig að mig skortir orð til að lýsa þeim hörmungum sem fólk býr við. Yfirgangur nágrannanna er slíkur að maður skilur ekki að þetta skuli vera látið líðast. Hvernig má það vera að alþjóðasamfélagið situr hjá þegar verið er að hneppa heila þjóð í fangelsi í eigin landi? Spyr Hilmar.
– Ísraelsmenn vinna nú hörðum höndum við að reisa umhverfis byggð Palestínumanna 8 til 14 metra háan múr, víða steinsteyptan en annars staðar í líki girðingar einsog þeirrar sem við þekkjum hér á Litla-Hrauni. Með byggingu lokast palestínska þjóðin af inni í sínu eigin landi. Palestínumenn, sem ekki hafa til dæmis yfir flugvelli að ráða, verða algerlega háðir geðþótta Ísraelsmanna þegar þeir þurfa að ferðast frá landi sínu. Múrinn er reistur víðast hvar á landi Palestínumanna og skilur að byggðir þeirra og landið sem þeir hafa nýtt öldum saman. Á múrnum eru hlið sem eru opnuð sumstaðar 3 tíma á dag, klukkutíma í senn, annars staðar í 15 til 20 mínútur í senn. Í gegnum þessi hlið fer aðeins einn í einu og það tekur óratíma því leitað er á öllum sem leið eiga um, segir Hilmar og kveðst sleginn yfir þessu. Ekki batni það við þá staðreynd að víða hafa verið sett upp á múrinn skriðdrekahlið sem gera Ísraelsher kleift að ráðast inn í byggð Palestínumanna þegar þeim sýnist svo.
Sorpi hent út á götu
Hilmar segir að hernámsliðið sem dvelst í Palestínu láti einskis ófreistað til að niðurlægja palestínsku þjóðina. – Við gengum eftir verslunargötu í Hebron á Vesturbakkanum og þar höfðu Palestínumenn strengt net yfir götuna til þess að varna því að sorp Ísraelsmanna sem tekið höfðu tekið sér bólfestu í húsi við götuna lenti á fólki sem þar á leið um. Ísraelsmennirnir sem búa þarna henda sorpinu sínu beint út um gluggann á húsunum sem þeir hafa tekið herskildi. Sorpið rotnar yfir höfði palestínskra vegfarenda og gefur frá sér mikinn fnyk, segir Hilmar, og nefnir fleiri dæmi um yfirganginn:
– Á einum stað þar sem við höfðum viðdvöl sáum við þegar palestínsk börn á leið í skólann þurftu að fara í gegnum hlið á múrnum. Þess gættu þungvopnaðir ísraelskir hermenn sem leituðu í skólatöskum barnana.
– Í miðri Hebron er landnemabyggð Ísraelsmanna. Til að verja þessa byggð hefur herinn tekið sér bólfestu uppi á þökum húsa Palestínumanna í nágrenninu. Börnin sem búa í þessum húsum þurfa að sætta sig við að vera að leik í húsagörðunum innan um gosflöskur fullar af þvagi sem hermennirnir henda ofan af varðskýlunum.
– Þetta eru fáein dæmi um þá niðurlægingu sem palestínska þjóðin þarf að búa við. Ísraelsmenn hafa einnig eyðilagt allt innra skipulag þeirra. Lögreglan er óstarfhæf. Heilbrigðisþjónustan er í molum. En það alvarlegasta er að efnahagslífið er ónýtt, atvinnuleysið mikið og fátækt á svæðinu eykst stöðugt. Áður unnu Palestínumenn í Ísrael en eftir að intífata-uppreisnin hófst hafa Ísraelsmenn meinað palestínskum verkamönnum að sækja þangað vinnu. Þess í stað hafa þeir leitað að vinnuafli annarstaðar frá. Mikið er af farandverkafólki frá Asíu í Ísrael núna og segja má að það búi við svipað ástand þar og við Íslendingar hvað varðar ólöglegt vinnuafl, segir Hilmar, sem er svartsýnn á að þessar deilur leysist án utanaðkomandi aðstoðar. Hann segir að lokum að því fleiri sem geri sér grein fyrir ástandinu í Palestínu, þeim mun meiri von sé til að friður komist á í þessum heimshluta.