Íslenskur vinnumarkaður er að breytast. Grípa verður inn í áður en í óefni er komið
Aðgerðir strax!
Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum. Þetta á ekki síst við um verktakaiðnaðinn. Íslenski vinnumarkaðurinn er ekki lengur einangraður heldur hluti af alþjóðlegum útboðsmarkaði þar sem framboð og eftirspurn ráða verði og vali á verktökum.
Þessi breyting birtist okkur með margvíslegum hætti. Hingað koma erlendir verktakar sem hafa tileinkað sér eigin vinnumenningu og eiga erfitt með að laga sig að íslenskum reglum, lögum og kjarasamningum. Þátttaka erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði hefur stóraukist og samhliða því hefur vaxið innflutningur á ólöglegu vinnuafli.
Þessar miklu breytingar kalla á aðlögun íslensks regluverks að nýjum veruleika þannig að tryggt sé að starfsfólk sé ekki misnotað, að fyrirtækin búi við eðlilega samkeppni og að þau séu ekki í réttaróvissu mánuðum saman vegna þess að reglurnar eru óljósar og engin svör fást frá stjórnvöldum. Í þessu sambandi er nærtækt að nefna að beðið hefur verið eftir því nokkur misseri að yfirskattanefnd kveði upp úr um það með hvaða hætti eigi að skattleggja starfsmenn starfsmannaleigna.
Það hefur vakið athygli hvernig lögregluyfirvöld bregðast við ólöglegu vinnuafli; sýslumannsembættið á Selfossi hefur tekið fljótt og vel á þeim málum sem upp hafa komið í því umdæmi, en önnur, svo sem sýslumannsembættið á Seyðisfirði, hefur dregið svo mánuðum skiptir að taka á málum. Sami seinagangurinn er hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og vekur athygli hvað fá mál hafa verið leidd til lykta hjá embættinu þrátt fyrir vitneskju um að hvergi sé jafn mikið um ólöglegt vinnuafl og hér á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir nokkrum vikum var fjallað mikið um þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka pólsku tilboði í viðgerðir á Tý og Ægi þrátt fyrir að tilboð Slippstöðvarinnar hafi verið hliðstætt. Ríkiskaup setti sem skilyrði að Slippstöðin væri með ÍSO-vottun en féll á sama tíma frá kröfunni um 100% verkábyrgð gagnvart pólsku skipasmíðastöðinni.
Árið 2002 stóð iðnaðarráðuneytið að gerð úttektar á samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins og tillögum um úrbætur. Tillögurnar höfðu að markmiði að styrkja stöðu íslenskra skipasmíðastöðva í alþjóðasamkeppni. Nú þrem árum síðar kemur í ljós að engri af þeim tillögum sem samþykktar höfðu verið í ráðuneytinu hefur verið komið í framkvæmd af hálfu ráðuneytisins. Hefði ráðuneytið verið búið að koma þessum tillögum í framkvæmd eru miklar líkur á að viðgerðirnar á varðskipunum hefðu farið fram á Íslandi. Þessi staða endurspeglar metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda fyrir hönd íslensks iðnaðar.
Verkalýðshreyfingin leggst ekki gegn alþjóðavæðingunni en krefst þess af stjórnvöldum að þau standi þannig að málum að ekki sé vegið að lífskjörum launafólks og samkeppnisstöðu íslenskra iðnfyrirtækja. Án öflugra iðnfyrirtækja mun okkur ekki takast að halda uppi þeim lífskjörum sem við búum við með viðunandi atvinnustigi þegar til lengri tíma er lítið. Núverandi hagsveifla byggist á skammtímaframkvæmdum sem lýkur að mestu á næstu tveimur árum.
Finnbjörn A. Hermannsson formaður Samiðnar