ASÍ um reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga:
Nokkur styr hefur staðið um reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga sem félagsmálaráðherra gaf út 23. mars. Alþýðusamband Íslands gagnrýndi harðlega drög að reglugerðinni en segir að í endanlegu útgáfunni hafi verið komið til móts við sjónarmið sambandsins þótt enn séu töluverðir gallar á reglugerðinni. Þá hafa komið upp deilur milli lækna um þann þátt reglugerðarinnar sem snýr að heilbrigðisvottorðum sem erlendir starfsmenn þurfa að standa skil á.
Í minnisblaði sem miðstjórn ASÍ fjallaði um á fundi sínum 6. apríl segir meðal annars að reglugerðin víki í veigamiklum atriðum frá þeim drögum sem sátt varð um síðastliðið sumar. Hins vegar hefur verið bætt úr ýmsum ágöllum sem ASÍ benti á í drögunum sem kynnt voru í janúar. „Þá hefur ASÍ jafnframt fengið frekari skýringar varðandi efni nokkurra greina reglugerðarinnar sem taka eiga af öll tvímæli um efni þeirra,“ segir í minnisblaðinu.
Komið til móts við sumt
Það voru einkum tvö atriði sem ASÍ gagnrýndi við drögin frá því í janúar. Í fyrsta lagi var það ákvæði í 3. grein þar sem gengið væri „mun lengra en lög og alþjóðaskuldbindingar krefðust varðandi það að heimila fyrirtækjum að flytja hingað til lands þriðja ríkis borgara til að starfa á íslenskum vinnumarkaði“. Í endanlegu útgáfunni var þetta ákvæði fellt niður „og er þar um mikilvæga framför að ræða“.
Hitt atriðið snerist um ákvæði 13. greinar um atvinnuleyfi vegna starfstengdra réttinda. „Bent var á að samkvæmt drögunum væri gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun gæti veitt atvinnuleyfi vegna slíkra starfa, án þess að fyrir liggi að útlendingur hafi réttindi til að vinna slík störf eða sé yfirleitt til þess hæfur,“ sagði í athugasemdum ASÍ. Í endanlegri útgáfu er að vísu „óþarflega óskýrt orðalag í þessum efnum, en þó verður reglugerðin ekki skilin öðruvísi en svo að atvinnurekanda sé óheimilt að láta starfsmenn hefja störf sem krefjast starfstengdra réttinda fyrr en til þess bær stjórnvöld hafi heimilað slíkt“.
Tvö ákvæði sem ASÍ gagnrýndi standa óbreytt í reglugerðinni og segir í minnisblaðinu að nú liggi fyrir að móta verklagsreglur um framkvæmd þeirra. Það felst í að búa til skýrar leiðbeiningar til Vinnumálastofnunar, annars vegar um það hvaða viðmið skuli leggja til grundvallar við veitingu tímabundinna atvinnuleyfa. Hins vegar er um að ræða verklag við veitingu atvinnuleyfa til sérhæfðra starfsmanna.
Ráðherra kom til móts við aðra gagnrýni ASÍ, ýmist með því að breyta þeim ákvæðum sem gagnrýnd voru eða með því að veita ASÍ skýringar sem samtökin töldu góðar og gildar. Meginniðurstaða Alþýðusambandsins um reglugerðina er þessi:
„Það er mat ASÍ að reglugerðin sé gölluð og ekki með þeim hætti sem best hefði verið á kosið. Verkefnið nú er hins vegar að tryggja að þær úrbætur sem reglugerðin felur í sér komist til framkvæmda og að treysta svo sem kostur er framkvæmd laganna um atvinnuréttindi útlendinga.“
Deilt um heilbrigðisvottorð
Eftir að umsögn ASÍ lá fyrir kom í ljós að læknar eru ekki á eitt sáttir um ákvæði reglugerðarinnar um fullnægjandi heilbrigðisvottorð. Þar segir að umsókn um atvinnuleyfi, hvort sem er tímabundið eða til lengri tíma, skuli fylgja heilbrigðisvottorð. Vottorðið má vera útlent en ekki eldra en þriggja mánaða og það þarf að þýða á íslensku eða ensku.
Þorsteinn Njálsson læknir við Kárahnjúka sagði í útvarpsfréttum að hann teldi það mistök að leyfa erlendum starfsmönnum að koma með heilbrigðisvottorð heiman frá sér. Hann segir þetta óheppilegt í ljósi þess að smitsjúkdómavarnir séu í rauninni á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda hér á landi, ekki lækna í fjarlægum heimsálfum. Hann bætti því við að hann heyrði það á starfsmönnum við Kárahnjúka að tiltölulega auðvelt væri að kaupa sér pappíra af öllu tagi.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir svaraði Þorsteini því til að engin ástæða væri til að óttast að ákvæði reglugerðarinnar um heilbrigðisvottorð útlendinga væru of rúmar. Vísaði hann til ákvæðis um að Vinnumálastofnun beri að senda sóttvarnalækni öll vottorð og að hann meti þau með tilliti til sóttvarna.