Alþýðusamband Íslands hleypir af stað átaksverkefni 1. maí
Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að hefja átak sem beinist gegn undirboðum á íslenskum vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi þar sem erlent verkafólk er misnotað. Átakinu verður hleypt formlega af stokkunum nú í vor á hátíðisdegi verkalýðsin, 1. maí.
Ástæðurnar fyrir því að Alþýðusambandið grípur til þessa átaks eru þrjár: Í fyrsta lagi að verja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði, bæði gagnvart Íslendingum og útlendingum sem hér starfa. Í öðru lagi að koma í veg fyrir félagsleg undirboð með ólöglegri atvinnustarfsemi og undirboðum með erlendu vinnuafli. Í þriðja lagi að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu fyrirtækja sem virða kjarasamninga og lög og þau viðmið sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
Átakið beinist gegn fyrirtækjum og öðrum þeim sem eru með ólöglega starfsemi og/eða brjóta lög og kjarasamninga með notkun á erlendu vinnuafli. Einnig beinist það gegn fyrirtækjum sem misnota erlent vinnuafl og stunda undirboð til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði. Markmiðið er að koma í veg fyrir slíka starfsemi og upplýsa um fyrirtæki sem hana stunda.
Undirbúningur átaksins stendur nú yfir en það verður í umsjón stýrihóps með fulltrúum allra landssambanda ASÍ, Eflingar, VR og Einingar. Auk þess eiga sæti í hópnum lögfræðingur og deildarstjóri félagsmáladeildar á skrifstofu ASÍ en sú deild ber ábyrgð á daglegum rekstri átaksverkefnisins.
Ætlunin er að setja upp sérstakan aðgerðahóp og ráða tvo starfsmenn til að annast daglega framkvæmd átaksins. Verkefni þeirra verða þessi:
– að taka með kerfisbundnum hætti niður ábendingar sem berast um meint undirboð og svarta atvinnustarfsemi með erlendu verkafólki, og bregðast við þeim,
– að veita aðildarfélögum ASÍ aðstoð og leiðbeina þeim og trúnaðarmönnum þeirra á vinnustöðum um hvernig bregðast á við ef grunur vaknar um svarta atvinnustarfsemi eða brot á rétti erlendra starfsmanna,
– að upplýsa atvinnurekendur og erlenda starfsmenn um réttindi þeirra og skyldur,
– að skoða í samráði og samstarfi við aðildarsamtök og félög innan ASÍ fyrirtæki eða starfsemi sem ætla má að brjóti á réttindum erlendra starfsmanna eða ástundi svarta atvinnustarfsemi.
Reynist ástæða til getur athugun starfsmanna leitt til þess að fyrirtæki verði kærð eða ábendingum um þau komið á framfæri við lögreglu, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, skattrannsóknastjóra eða Vinnueftirlit ríkisins. Markmiðið er að efla þekkingu og reynslu aðildarfélaganna og bæta samskipti við stjórnvaldsstofnanir og samtök atvinnurekenda. Þannig geta þau frekar reynt að leysa málin á vettvangi félaganna eða í slíkum samskiptum, sé þess nokkur kostur.
Ætlunin er að búa til kynningarefni vegna átaksins fyrir almenning, fyrirtæki, stéttarfélög, trúnaðarmenn og erlenda starfsmenn um eðli og tilgang átaksins og verður því komið á framfæri í fjölmiðlum, bæklingum og með öðrum hætti. Einnig verða búnir til sérstakir gátlistar og eyðublöð til að skrá á ábendingar sem safnað verður saman í gagnagrunn.
Átaksverkefninu er ætlað að standa út þetta ár. Þá verður árangurinn metinn og verkefnið endurskoðað.