Vínarbrauð og rúnstykki á föstudögum

Starfsmenn á bílaréttingarverkstæði Jóa  pumpaðir um vinnuna, stjórnmálin og fleira

 

– Eitt sinn kom hingað kona með bílinn í réttinginu. Þegar hún hafði lokið við að skrá hann inn spurði hún: „Hvar er svo verkstæðið?“ Þegar henni var sagt að það væri hér trúði hún því ekki í fyrstu. Hennar hugmynd um bílaverkstæði stöngðust á við það sem hún sá á staðnum. Hún viðurkenndi að í hennar huga væru bílaréttingaverkstæði sóðalegir staðir þar sem allt löðraði í ryki, lyktin væri vond og fyrir utan væri haugur af ryðguðu járnadrasli og gömlum bílhræjum.

Þessa sögu sögðu starfsmenn Réttingaverkstæðis Jóa stoltir þegar tíðindamaður Samiðnarblaðsins drakk með þeim kaffi nýlega.

– Hér er veisluborð á hverjum föstudegi. Þá eru keypt inn rúnstykki og vínarbrauð fyrir utan hið hefðbundna brauð sem hér er á boðstólum hina dagana, segja þeir og eru ófeimnir við að láta í ljós ánægju sína með þetta góðgæti. Ekki laust við að tíðindamaður yrði dálítið svekktur yfir þessu þar sem hann hafði hugsað sér að góma hér menn við prinspólóát og kólaþamb. Annað kom á daginn. Fyrirtækið leggur til þetta holla næringu handa mannskapnum.

Valgeir, Einar, Þórarinn, Jón og Eiríkur eru karlarnir á gólfinu. Einar og Þórarinn sjá um málningarvinnuna en hinir um réttingarnar meðan Jóhann eigandi og Hanna sjá um pappírsvinnuna og móttökuna.

 

Þriggja ára verkstæði

 

Þetta er þriggja ára verkstæði og hér er alltaf nóg að gera. Við vinnum mikið fyrir Heklu en tökum að sjálfsögðu alla bíla, segir Einar.

Þórarinn segir að það heyri sögunni til að menn aki um á beygluðum og skrámuðum bílum. Eftir að þjóðin tók upp á því að fjármagna bílakaup sín með bílalánum neyddist hún líka til að kaskó-tryggja þá. Þannig þurfa menn ekki lengur að aka um á löskuðum bílum því að tryggingarnar borga viðgerðirnar. Jón bætir við að það heyrist varla lengur óskir um að vinna verkið svart. Þessi umskipti hafa orðið á örfáum árum, segir hann.

Þegar talið berst að vinnuverndarmálum segjast þeir gera sér grein fyrir þeirri hættu sem stafar af ýmsum efnum sem þeir vinna með.

– Hér er öll aðstaða eins og hún gerist best í vinnuverndarmálum, segir Valgeir, og nefnir að þeir noti allan þann hlífðarbúnað sem tiltækur er. Einar bendir til dæmis á að sprautuklefinn sé nýr eins og annað á verkstæðinu og að loftið í klefanum sogist niður í stað þess að sogast upp framhjá vitum manna.

Jóhann eigandi verkstæðisins þurfti að sinna viðskiptamanni þegar kaffitíminn hófst en bætist nú í hópinn. Hann segir það metnað sinn að mönnum líði vel á vinnustaðnum og hluti af því sé að hafa vinnuumhverfi sem best. „Það skilar sér.“

Þeir geta verið með fimm til sex bíla inni í einu, og eins og fyrr segir er yfirdrifð nóg að gera, vinnutíminn frá átta á morgnana til sex flesta daga, og „líka á laugardögum svona stundum,“ hvín í einum.

Þetta er of langur vinnutími að mati strákanna og Eiríkur segir að einn kollega þeirra sem vinni á öðru verkstæði vinni aldrei lengur en til fjögur. Er ekki laust við að öfundarbylgja gangi yfir kaffistofuna þegar þetta er nefnt.

– Þessi vinnutími okkar er að sjálfsögðu of langur. Mér finnst krafan almennt vera sú að menn vinni skemur en afkasti meira á meðan þeir eru í vinnunni, segir Halldór. Hinir eru sammála þessu en enginn kemur auga á neina sérstaka lausn á þessu máli. Kollegi þeirra sem lét sér nægja að vinna til fjögur var afgreiddur sem einstakt fyrirbæri.

Talið berst að kjaramálunum. Menn voru ekki tilbúnir að upplýsa hver launin væru en töluðu þeim mun meira um hversu verðmæt störf þeirra væru. – Hingað kom tölvumaður um daginn, segir Einar, með eitt skrúfjárn, hann tók 6.800 krónur á tímann. Við erum að selja hér út vinnu á fullbúnu réttingarverkstæði með verkfæri og tæki sem kosta milljónir króna á 2.800 krónur.

– Það er ekki skrýtið að ungt fólk vilji ekki leggja fyrir sig svona verkstæðisvinnu þegar hún er ekki talin verðmætari en þetta. Það gengur auðvitað ekki að allir gerist tölvusnillingar, segir Jón sem hefur áhyggjur af nýliðuninni í stéttinni.

– Því miður er það svo að í okkar stéttir skortir fólk. Nýliðun er lítil, svo lítil að fyrr en seinna á stétt bílaréttingarmanna og -málara eftir að deyja út. Það er auðvitað eitthvað að þegar menn fást ekki lengur til að fara í iðnnám, segir Jóhann og hefur verulegar áhyggjur. Við verðum auðvitað að fara að vinna í því að gera iðnnám aðlaðandi fyrir ungt fólk.

Þeir eru sammála um að til dæmis þeirra fag sé alls ekki slæmur kostur. Eins og fyrr segir hafa orðið miklar framfarir í vinnuumhverfismálum. – Það liggur við að hér sé fínna en heima hjá mér, segir einn ónefndur og hlær. Það heyri sögunni til að bíliðnaðarmenn séu skítakallar sem aldrei takist að þvo af sér olíublettina eða málningarsletturnar. Þegar menn ganga núna út eftir vinnu gætu þeir allt eins hafa verið að yfirgefa skrifstofuna.

Þennan föstudagsmorgun var bensínverð í hámarki, gengið í lágmarki og í fjarska þóttust sumir sjá efnahagsástandið koma inn til brotlendingar.

– Það þýðir ekkert að rjúka upp til handa og fóta út af þessu, við verðum að sýna ró, ég tek undir með Davíð um það, segir Halldór. Hinir eru honum ekki sammála og leyna því ekki að þeir eru kvíðnir, sérstaklega eru þeir svekktir yfir bensínhækkununum. Valgeir talar þó digurbarkalega um að hann muni bara ganga til vinnu. Hanna sem nýlega er sest til borðs með strákunum er ekki hress með þróun bensínverðsins enda býr hún í Mosfellsbæ, og eins og strákarnir bentu á býr enginn þar nema eiga tvo bíla, og því er ljóst að þessar hækkanir koma verulega við hennar pyngju. Hún var líka sú eina sem lét þróun gengis fara í taugarnar á sér en hún var á leið til útlanda í sumarfrí og sá fram á verulega aukin fjárútlát þess vegna.

Strákarnir ætluðu hins vegar allir að njóta síns sumarleyfis hér á landi.

Þeir sem sátu við hið ríkulega hlaðna kaffiborð þennan morgun á Réttingaverkstæði Jóa voru allir sammála um kosti þess að taka hér upp vetrarfrí. Sumir kvörtuðu undan því að erfitt væri að fara í eins langt sumarleyfi og tíðkast hér á landi.

Klukkan var farin að nálgast tíu þegar fyrstu menn stóðu upp enda kaffitíminn liðinn og fjöldinn allur af bílum, flestir nýir, bíða þess að vera lagfærðir.

Sumir höfðu verið ótrúlega hljóðir þennan kaffitíma og vildu nokkrir meina að það stafaði af heimsókn félaganna á hverfiskrá kvöldið áður. En aldrei fékkst upplýst hverjir fóru eða á hvaða krá var farið.

 

Er hnattvæðingin að ganga af lýðræðinu dauðu?

 

Lýðræði og framtíðin var yfirskrift málþings sem var haldið í upphafi Samiðnarþingsins. Stjórnandi umræðna var Ólafur Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, og þátttakendur voru Páll Þórhallsson, lögfræðingur hjá Evrópuráðinu, Viðar Þorsteinsson, nemi í stjórnmálafræði og heimspeki, og Páll Skúlason háskólarektor. Ýmsir stigu í pontu á eftir og lögðu orð í belg og ljóst er að þótt skoðanir séu skiptar virðast flestir sammála um að á tímum örra umskipta verði að gæta þess að lýðræðið komist ekki í hættu.

Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, setti málþingið og talaði um að lýðræðið stæði á tímamótum. Virkt og milliliðalaust lýðræði þyrfti að geta náð til sem flestra og einnig nýbúanna okkar. Finnbjörn sagði það vandamál hve erfitt væri að fá fólk til að taka þátt í kosningum og nefndi kosninguna um flugvöll í Vatnsmýri sem dæmi en aðeins 37% nýttu atkvæðisrétt sinn þar.

 

Kostir og gallar Netsins

 

Páll Þórhallsson ræddi um netlýðræði í erindi sínu og sagði það spurningu hvort ný upplýsingatækni, Netið, yki lýðræðið. Netið væri lýðræðislegasti miðill sem fram hefur komið og gagnvirkastur þeirra allra. Það hefði valdið byltingu í birtingu opinberra upplýsinga. Páll talaði bæði um kosti og galla miðilsins. Kostirnir eru þeir að ekki á að vera hægt að rekja það hver kýs ef kosning fer fram á Netinu. Hátíðleikinn er þó minni við slíka kosningu en að mæta uppábúinn á kjörstað, standa í biðröð og kjósa. Víxlverkun er í gangi á milli stjórnmálamanna og hins opinbera og almennings hins vegar. Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum eru að drukkna í tölvupósti og líklega einnig þeir íslensku. Vefur Alþingis var mjög góður í upphafi en hefur ekki fylgt tímanum. Nýtt form opinberrar umræðu hefur komið upp á Netinu. Stundum er það þó á lágu plani, án skoðanaskipta eða niðurstöðu.

Þær hættur hafa skapast fyrir lýðræðið að bil milli þeirra menntuðu og hinna sem kunna ekki skil á nýju tækninni fer breikkandi. Í hefðbundnum kosningum eru allir jafnir og enga færni þarf til að kjósa í þeim.

Þegar sameiginlegur vettvangur til umræðna verður stærri og á fleiri stöðum vaknar sú spurning: Hvar fer eiginlega opinber umræða fram?

Páll komst að þeirri niðurstöðu að Netið kollvarpi ekki núgildandi lýðræði.

 

Hreyfanleiki fyrirtækja er hættulegur lýðræðinu

 

Viðar Þorsteinsson flutti erindi um lýðræði og vinnandi fólk. Hann sagði að ungt fólk væri oft sakað um áhugaleysi um stjórnmál. Þróunin hefur verið afar hröð, efnahags- og stjórnarfarslega. Viðar sagði það ekki spurningu að Ísland ætti eftir að ganga í Evrópusambandið en þá yrði lýðræðið þyngra í vöfum.

Hvarvetna eru fyrirtæki að auka hreyfanleika sinn og flytja á milli landa. Þetta hljómar vel en er hættulegt lýðræðinu. Fyrirtækin lúta engum lögum undir einni staðsetningu. Fjölskylduvæn fyrirtæki hæna að sér starfsmenn, þau fara ekki eftir töxtum og launasamningar eru trúnaðarmál. Ef eitthvað kemur upp á milli launþega og vinnuveitanda er ekkert hægt að leita út á við eftir aðstoð. Það hljómar vel að fá GSM-síma frá fyrirtækinu en á móti kemur að fyrirtækið vill þá alltaf geta náð í starfsmanninn. Þetta er hervæðing hugarfarsins og maður er bundinn fyrirtækinu.

Stærri og flóknari mál en flugvallarkosningin munu gera meiri kröfur til okkar um að við séum upplýst. (Sjá erind Viðars bls. 35–37.)

 

Lýðræði tíðkast ekki í fjölskyldum!

 

Hvaða máli skiptir lýðræðið? var yfirskrift erindis Páls Skúlasonar. Hann kvaðst fagna því að samtök á borð við Samiðn brydduðu upp á þessari umræðu um lýðræði. Hann sagði að lýðræði væri mikil hætta búin og vildi vekja fólk til umhugsunar um það. Páll talaði um að lýðræði væri ekki ástand eða hugsjón heldur verk að vinna. Lýðræðinu stafaði ógn frá þeim öflum sem ráða mestu í heiminum, markaðsöflunum og stórfyrirtækjunum sem flytja á milli landa.

Nýi efnahagsveruleikinn ógnar veldi stjórnmálamannanna og hagkerfið stýrir okkur.

Stjórnmálaflokkar safna okkur saman á vissan hátt en hvað safnar okkur saman sem einstaklingum? Hvernig viljum við lifa saman, hverju viljum við deila, hvernig ráðum við ráðum okkar saman sem frjálsar og hugsandi verur um sameiginleg mál okkar?

Ein leiðin til að tryggja lýðræði á Íslandi er að auka vald opinberra stofnana og veita þeim sjálfstæði um innri mál sín. Dæmi um fjölræði er Háskólinn. Yfirvöld geta heldur ekki ráðskast með fjölmiðla. Að lokum talaði Páll um nauðsyn þess að brjótast úr „fjölskyldufjötrum“. Lýðræði tíðkast ekki í fjölskyldum og ef talað væri um Íslendinga sem eina stóra fjölskyldu þá gætum við ekki kallað okkur lýðræðisríki.

 

Fjörugar umræður

 

Nokkrar umræður urðu um lýðræði og sagði stjórnandi málþingsins, Ólafur Stephensson, að kosningar væru misgóður mælikvarði á lýðræði.

Á Netinu væri hægt að skipuleggja fjöldahreyfingar afar hratt. Hann nefndi sem dæmi þegar átti að leggja gjöld á geisladiska. Neytendum tókst að knýja fram breytingar og Birni Bjarnasyni ráðherra var afhentur geisladiskur með nöfnum þúsunda manna sem mótmæltu hækkuninni.

Viðar Þorsteinsson talaði um hve magnað Netið væri, hve upplýsingar færu auðveldlega yfir öll landamæri og ekki þyrftu stjórnmálahreyfingar lengur að búa til plaköt til að safna saman fólki.

Páll Skúlason vildi ekki fella dóm um hvaða möguleika Netið hefði varðandi lýðræði. Netið er fjarlægt og ekki hugsanavænt. Skipst er á upplýsingum í skeytastíl og gamli sendibréfastíllinn, sem var listgrein, væri ekki fyrir hendi. Ótrúlegur tími væri framundan.

Ólafur Stephensen varpaði fram þeirri spurningu hvort stjórnmál væru að hnattvæðast að sama skapi og efnahagsmál og hvernig væri hægt að þróa lýðræðið á þessum alþjóðavettvangi.

Viðar Þorsteinsson sagði að lýðræðið næði á engan hátt utan um viðskiptalífið. Áhrifum alþjóðasamninga á borð við GATT-samninginn hafa ekki verið gerð skil á Íslandi og landsmenn hafa ekki verið upplýstir um hver   stefna stjórnvalda er almennt  í þeim málum. Frjálsi markaðurinn leiðir ekki alltaf til góðs.

Páll Skúlason sagði að hnattvædd öfl hefðu átt þátt í að leysa upp hefðir og venjur. Nýja tæknin væri undirrótin að breytingum í efnahagslífinu. Hún gæti sundrað okkur sem hugsandi verum. Þar sem tiltekin kunnátta væri til staðar væri hún einkamál hvers og eins. Pólitísk siðmenning stæði á veikum grunni um allan heim. Það eina sem við gætum gert væri að rækta okkar eigin pólitísku siðmenningu.

Arnar Guðmundsson talaði um óvissuna um það hvert við værum að stefna og að verkalýðshreyfingin stæði frammi fyrir svipuðum breytingum og lýðræðið.

Viðar Þorsteinsson sagði að hnattvæðingin kæmi verkalýðshreyfingunni mikið við.  Samvinna ætti að vera meiri hjá verkalýðsfélögum.

Bryndís Hlöðversdóttir talaði um nauðsyn þess að berjast gegn neikvæðum áhrifum hnattvæðingar og að við ættum að horfast í augu við þá þörf að taka virkari þátt í alþjóðlegu starfi.

Páll Skúlason sagði að glíma þyrfti við afleiðingar misréttis. Markaðsöflin stuðluðu ekki vísvitandi að því misrétti sem hefur viðgengist og ætti að uppræta og eyða því. Atvinnumál eru grundvallaratriði hjá okkur og Páll sagði það undrunarefni að verkföll gætu ættu sér stað hjá til dæmis framhaldsskólakennurum og kennurum við Háskólann. Það væru stjórnvöld sem legðu til leikreglurnar og eitthvað væri að pólitískri siðmenningu okkar.

 

Lýðræði og vinnandi fólk

 

Ég var beðinn um að koma hér fram sem fulltrúi ungs fólks og segja eitthvað um lýðræðið. Nú heyrist ungt fólk oft sakað um áhugaleysi fyrir stjórnmálum. Samkvæmt því þá gæti ég, sem áhugamaður um stjórnmál og fulltrúi unga fólksins, viljað halda einhverju fram um hið gagnstæða; það er að segja að ungt fólk sé sannarlega mjög áhugasamt um stjórnmál og svo framvegis. En ég ætla ekki að taka mér slíkt umboð heldur segja einfaldlega hvað ég hugsa sjálfur um þessi mál; og skjóta því kannski inn í í framhjáhlaupi að ég hef engar áhyggjur af því að ég sé einn um þessar hugsanir í hópi jafnaldra minna.

Það þjóðfélag sem ungt fólk stendur nú frammi fyrir að byrja að taka þátt í hefur þróast mjög á undanförnum áratugum. Þær breytingar sem mest eru áberandi í því samhengi eru efnahagslegar og stjórnskipulegar. Við höfum öll heyrt talað um „hnattvæðingu“ og „hið nýja hagkerfi“. Óheft flæði fjármagns í gegnum alþjóðleg fyrirtæki hefur aukist gríðarlega og ýmsar tækniframfarir hafa stuðlað að því að gera samskipti manna í millum yfir þveran hnöttinn auðveldari. Einn daginn munum við Íslendingar ganga í Evrópusambandið og þá gjörbreytist stjórnmálaumhverfi okkar.

 

Meira en leikreglurnar

 

En hvað kemur þetta lýðræði við? Er lýðræðið ekki komið til að vera? Sér lýðræðið ekki um sig sjálft svo lengi sem ekki er framin hallarbylting eða stjórnarskránni breytt?

Ég er ekki þeirrar skoðunar að lýðræðið felist eingöngu í því að visst margir menn gangi til kosninga á visst   margra ára fresti, samkvæmt því sem segir í stjórnarskrá. Ég er þeirrar skoðunar að lýðræðisþjóðfélag sé þjóðfélag sem hefur fjölmörg einkenni umfram þetta. Það má tína ýmislegt annað til; kosningar verða að fjalla um eitthvað sem máli skiptir, svo dæmi sé nefnt, en ekki bara einhvers konar aukaatriði eða sýndarmálefni, að kosningaréttur sé tryggður öllum sjálfráða einstaklingum og almenn mannréttindi virt.

En ég tel margt annað ráða úrslitum, sem ekki snertir endilega ríkisvaldið beint, heldur þær hegðunarreglur sem þegnarnir skapa sín á milli. Þar á ég meðal annars við umburðarlyndi, það að einstaklingar geti verið öðruvísi og skorið sig út úr fjöldanum.

Ákveðinn réttur til þess að „vera látinn í friði“ er afar mikilvægur í þessu sambandi, að athafnir manns séu ekki illa teknar upp hjá þeim sem ekki koma þær beint við, og að friðhelgi einkalífsins sé virt. Hingað til höfum við aðallega séð tilefni til að verja friðhelgi einstaklings og heimilis fyrir ríkisvaldinu, enda verið full ástæða til á tímum sem ólu af sér menn eins og Hitler og Stalín. En eins og ég mun koma að þá stafar þessari friðhelgi nú hætta annars staðar frá.

 

Hin pólitíska siðmenning

 

Það standa mörg spjót á lýðræðinu í þjóðfélagi okkar. Ég geng svo langt að halda því fram að lýðræðið sé í hættu. Ég geng svo langt að halda því fram að fólk á mínu reki, sem er í háskólanámi eða að feta sín fyrstu skref í atvinnulífinu, eigi það verulega á hættu að fá ekki að vera sannir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélaginu. Leyfið mér að skýra mál mitt: Lýðræðinu á Vesturlöndum, nú um stundir, stendur ekki mest ógn af alræðistilburðum einstakra stjórnmálaflokka, heldur af öðru. Það eru ekki stofnanir lýðræðisins eða lagalegir farvegir þess sem eru í hættu akkúrat á þessari   stundu heldur hin pólitíska siðmenning á meðal þegnanna sjálfra, í einkalífi þeirra og á vinnustað.

Ég held að ýmsar breytingar, bæði í formgerð alþjóðaviðskipta og starfsmannastefnu stórra fyrirtækja, eigi eftir að hafa hættulegar afleiðingar fyrir lýðræðið, ef ekki er að gert.

Hvarvetna eru fyrirtæki og atvinnurekendur að reyna að halda í við hið „frjálsa flæði fjármagnsins“ og gera það helst með því að auka á hreyfanleika sinn. „Hreyfanleiki“ er orð sem hefur á sér traustvekjandi blæ en merkir í raun ekkert annað en það að viðkomandi fyrirtæki er í stakk búið til að færa starfsemi sína milli landa með tiltölulega litlum fyrirvara og litlum tilkostnaði. Fyrir hið nýja hagkerfi er þetta allt saman af hinu góða, en hvernig snertir þetta lýðræðið?

Ekkert af þessu þarf endilega að vera þjóðfélagslega óhagkvæmt í krónum talið, en það breytir því ekki að lýðræðið er í hættu. Aukinn hreyfanleiki fyrirtækja felur í fyrsta lagi í sér að þau lúta sjálf ekki lögum undir einni lagasetningu, eins og staðan er nú, og verður því ekki komið lögum yfir þau. Stjórnmálamenn koma saman á fundum, eins og í Seattle um árið, og þykjast ákveða framtíð alþjóðahagkerfisins en gleyma því að hagkerfi eitt og sér hegðar sér samkvæmt eigin reglum. Ennþá vantar alþjóðlegar eftirlitsstofnanir til að halda í við þá þróun sem stofnanir eins WTO hafa hrint af stað. Almannavaldið, vöndur lýðræðisins, hefur ekki lengur tök á því að tukta viðskiptalífið til, eins og sagan hefur sýnt að full þörf er á.

 

Hnattvædd hugsun

 

Auk þess er mér það áhyggjuefni hversu lítil umræða er í dag til dæmis hér á landi um þá alþjóðlegu samninga sem Íslendingar eru aðilar að, sem eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á framtíð jarðarbúa. Hnattvæddur efnahagur kallar á hnattvætt lýðræði, og hnattvætt lýðræði kallar á hnattvædda hugsun. Við höfum ekki ennþá áttað okkur fyllilega á því að kosningamál framtíðarinnar munu ekki snúast um staðbundin málefni, til dæmis flugvöll í Vatnsmýrinni, heldur stærri og flóknari mál sem gera meiri kröfur til okkar um þekkingu og innsýn.

Í öðru lagi eru nú gerðar þær kröfur til launþega að þeir séu sífellt reiðubúnir að takast á við þátttöku í samfélaginu á ólíkum forsendum Þetta getur merkt að launþeginn þarf að leita sér að nýrri vinnu þegar fyrirtækið flytur á milli landa, eða að flytja með því og gerast borgari í nýju ríki. Hreyfanleiki fyrirtækisins gerir þannig um leið kröfur til hreyfanleika launþegans. Þessi krafa á hendur launþegum er til þess fallin að koma niður á hæfni þeirra sem lýðræðislega meðvitaðir þegnar, vegna þess að þeir hafa ekki jafn-skýra hugmynd og áður um hvar hagsmunir   þeirra liggja eða hvernig þeir fái best varið réttindi sín.

Engu að síður fara mörg fyrirtæki nú frekar þá leið að gera starfsmenn sína einmitt sérstaklega hænda að sér með ýmiss konar „fjölskylduvænu“ fyrirkomulagi. Einkum á þetta við um stærri fyrirtæki sem ráða menntaða starfsmenn með hærri launakröfur. Þannig gerir fyrirtækið samkomulag við starfsmanninn um að hann fái ýmis fríðindi, svo sem rýmilegt fæðingarorlof og sveigjanlegan vinnutíma, en þurfi á móti að vera reiðubúinn að fórna einhverju þegar fyrirtækið þarfnast krafta hans að fullu. Einungis er þá hægt að semja um laun á einstaklingsgrundvelli, sem víða hefur leitt til þess að launasamningar einstakra starfsmanna eru trúnaðarmál.

 

„Við“ og „þeir“

 

Eitt af einkennum einræðis- og harðstjórnarríkja er að þar á sér stað ákveðin „hervæðing hugarfarsins“, þ.e.a.s. að þegnarnir líta á sjálfa sig sem þátttakendur í stríði allan sólarhringinn og kunna jafnvel sjálfir að fara með vopn. Í Sovétríkjunum voru skólabörn látin læra að setja saman Kalashnikov-riffla og fengu einkunn fyrir. Allir áttu að vera til taks, sífellt reiðubúnir að fórna sér í þágu ríkisins.

Mér barst nýlega til eyrna athyglisverð saga af gömlum kunningja mínum sem vinnur í þjónustudeild hjá Landssímanum, stórfyrirtæki sem starfar á fákeppnismarkaði með einungis einn keppinaut. Hann hefur nú tekið upp þann talsmáta að nota í hversdagslegum samræðum við vini sína orðið „við“ um fyrirtækið sitt, Landssímann, og orðið „þeir“ um hitt fyrirtækið á markaðnum, Tal. Þetta bendir til ákveðinnar sterkrar samsömunar einstaklingsins við fyrirtækið sem annað og meira en vinnustað. Ég er viss um að ein af ástæðum þess hve hændur þessi maður er orðinn að fyrirtækinu sínu er að hann býr við sveigjanlegan starfssamning af því tagi sem ég lýsti áðan. Hann treystir fyrirtækinu sínu og þess vegna er hann reiðubúinn að fórna sér fyrir það. Fyrirtækið er orðið partur af sjálfsmynd hans.

 

Kalashnikov-síminn

 

Þetta þarf nú alls ekki að vera alvont, öðru nær, hér er sennilega bara á ferðinni fyrirtæki með sveigjanlega starfsmannastefnu. Ég held samt að full ástæða sé til þess að hafa varann á þegar einstaklingum er farið að finnast þeir vera bundnir fyrirtækinu sínu á sama hátt og fjölskyldu eða heimili. Þegar fyrirtækið okkar kaupir handa okkur GSM-síma, sem krafa er gerð um að við getum hlaðið og sett saman eins og Kalashnikov-riffil, er það auðvitað til að það sé alltaf hægt að hafa upp á okkur. Við eigum að vera til taks hvenær sem er. Við erum vopnuð atvinnutækjum okkar dag og nótt. Við erum „hervædd“.

 

Launamálin sameina ekki – heldur sundra

 

Launaleynd er annað nýlegt fyrirbæri sem hefur tekið að bera talsvert á. Launþegasamtök eins og Verslunarmannafélag Reykjavíkur hafa gripið til þess ráðs að hvetja félaga sína til að semja við vinnuveitandann á einstaklingsgrundvelli. Þetta er aftur fyrirbæri sem kann að hafa ýmsar hagkvæmar afleiðingar, en þýðir um leið að staða einstaklingsins er ekki eins skýr og áður gagnvart fyrirtækinu. Launþeginn getur ekki leitað út fyrir vinnustaðinn, til verkalýðsfélags eða dómskerfisins, ef honum þykir á sér brotið, því hann kann að hafa samið um trúnað við vinnuveitandann. Um leið eru launamál tekin af dagskrá sem sameiginlegt hagsmunaatriði vinnufélaganna, og getur orðið til þess að vekja upp tortryggni þeirra á milli. Til að halda sjálfstæði sínu og virðingu þurfa launþegar nú að hafa sterkari bein þegar kemur að launasamningum, ef vinnuveitandinn er sá eini í fyrirtækinu sem veit hvað hver fær borgað fyrir hvaða vinnu. Þetta snýr sérstaklega að hópum eins og konum, sem vitað er að eru líklegri en aðrir til að hafa lægri laun án þess að til þess séu réttlætanlegar aðstæður. Auk þess er því oft haldið fram að konur séu ólíklegri en karlar til að sækjast eftir stöðu- eða launahækkunum að eigin frumkvæði. Konur þurfa því ekki síst að hafa sterk bein.

Eitt atriði sem mig langar að endingu að minnast á um samband launþega og vinnuveitenda er nýleg umræða um aðgang vinnuveitanda að ýmsum rafrænum gögnum, sérstaklega umferð á netinu og tölvupósti. Þetta getur þýtt að launþeginn verður að sætta sig við að eiga sér alls ekkert einkalíf þegar í vinnuna er komið og sinna öllum rafrænum samskiptum heima fyrir, eða að þurfa að taka áhættuna á því að vinnuveitandinn hnýsist í gögnin. Hvernig svo sem um þetta er samið á hverjum vinnustað er það skylda launþegans að gæta að því að hvergi sé á sér brotið.

Nú, eins og ég nefndi í upphafi þá eru allar líkur á því að við munum fyrr eða síðar ganga í Evrópusambandið. Þá blasir við enn ein ógnin við lýðræðið. Ekki að Evrópusambandið sé ólýðræðisleg stofnun. En hitt er staðreynd að Evrópusambandið er bandalag margra lýðræðisríkja, og þar með margra kjósenda, og er miklu stærri lýðræðiseining en hin einstöku ríki. Þetta þýðir að lýðræðið er þyngra í vöfum og flóknara í framkvæmd. Það er lengra bil og fleiri milliliðir á milli kjósandans og yfirvaldsins en við höfum áður þekkt. Þátttaka í Evrópusambandinu kallar á að við séum mun betur vakandi yfir heilbrigði lýðræðisins.

Í Bandaríkjunum eru einunigs tveir þriðju ríkisborgaranna á kjörskrá og af þeim kýs oft ekki nema helmingurinn. Þetta þýðir að einungis um þriðjungur þeirra tekur raunverulegan þátt í að kjósa valdhafa. Nú er Evrópusambandið orðið fjölmennara en Bandaríkin; og er það von mín að það verði lýðræðislegra en þau, því ég held að stærð Bandaríkjanna og það hversu langt valdastofnanir þeirra eru komnar frá hinum einstaka kjósanda letji mjög til kosningaþátttöku.

Svo ég taki aðeins saman mál mitt þá tel ég að lýðræðinu stafi aðallega hætta af þessu þrennu: Í fyrsta lagi hnattvæðingunni sem býður fyrirtækjum að teygja anga sína yfir landamæri og búa þar með í löglausu umhverfi án aðhalds lýðræðisins. Þetta hefur einnig í för með sér upplausn á starfsöryggi launþega, sem ella eiga engra kosta völ nema að vera sífellt að flytja milli landa eða skipta um starf. Í öðru lagi stafar lýðræðinu ógn af tilburðum stórfyrirtækja til að gleypa tilveru launþega í sig með húði og hári, með aðstoð ýmiss konar tækjabúnaðar sem og ýmissa nýjunga í starfsmannastefnu, svo sem launaleyndar. Í þriðja lagi eru stækkandi lýðræðiseiningar, sem við munum brátt þurfa að taka þátt í, mögulega til þess fallnar að gera kjósandann firrtan frá stjórnkerfinu og áhugalausan um þau víðfeðmu málefni sem þessi stóra eining þarf að takast á við.

 

Vakandi þegnar

 

Heilbrigt, vakandi lýðræði gerir kröfur um meira en bara sjálft fyrirkomulagið. Lýðræðið gerir kröfur um vakandi, sjálfstæða og meðvitaða þegna sem eru umburðarlyndir og upplýstir. Nú stendur lýðræðinu ekki ógn af öflum sem vilja rífa niður stofnanir þess heldur af öflum sem vilja rífa niður hinn sjálfstæða einstakling. Það eru öfl sem segja að launþeginn eigi að láta hvaðeina yfir sig ganga í nafni hagræðingar, sem segja að óheft flæði fjármagns sé af hinu góða fyrir heildina, eins og það skipti ekki máli hvernig þetta snertir einstaklingana á hverjum stað og tíma, sem segja að lögmál markaðsins leiði alltaf til góðs. Mögulega er það rétt í hagfræðilegum skilningi, en lýðræði snýst einmitt ekki um hagkvæmni; það snýst um umburðarlyndi í samskiptum þegnanna; það snýst um meðvitund og upplýsingu í hugum þeirra; og það snýst um þá meginreglu að örlög einstaklingsins og framtíð þjóðfélagsins séu nokkuð sem eigi af ákvarðast af skynsamlegri samræðu milli manna en ekki tómum lögmálum.

Verkefni framtíðarinnar, verkefni minnar kynslóðar, felst í fyrsta lagi í því að laga stofnanir lýðræðisins heimafyrir að nýjum kröfum efnahagslífsins. Í öðru lagi að sjá til þess að þegnar samfélagsins séu upplýstir og meðvitaðir um réttindi sín. Í þriðja lagi að leitast við að vekja upp vitund um hnattræn málefni og minna stjórnvöld á upplýsingaskyldu sína um afleiðingarnar sem þátttaka okkar í fjölþjóðlegum samningum og bandalögum hefur fyrir okkur sjálf og heiminn í heild.

Þessi verkefni eru stór, en við megum ekki skorast undan þeim. Það er mín skoðun að við horfumst nú í augu við afar stormasama tíma. Lýðræðið er það verðmæti sem ég tel að helst geti orðið okkur að vopni í komandi umbrotum. Lýðræðið sjálft býr ekki í stofnunum þess, það á heima á vinnstaðnum, á heimili okkar og ekki síst innra með okkur sjálfum, ef við gætum að því að halda vöku okkar.

 

(Örlítið stytt – fyrirsagnir eru blaðsins.)