Atvinnuleyfi til útlendinga
Mikill skortur er á íslenskum trésmiðum á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Á atvinnuleysisárunum 1989–90 og 1993–97 voru útskrifaðir nemendur um helmingur þess sem eðlilegt er eða um 60 á ári. Þetta kemur nú fram í skorti á fagmenntuðum mönnum í húsasmíði. Það að við menntuðum ekki nægilega marga húsasmiði og svo að verkefni eru í sögulegum toppi gerir það að verkum að fagmenntaða menn vantar víða.
Mörg fyrirtæki standa því uppi með næg verkefni en vantar starfsmenn til að vinna þau. Flest þessara fyrirtækja er þau sem byggðu starfsemi sína á undirverktökum. Þau áttu ekki fastan kjarna launamanna og sitja því uppi mannskapslaus því undirverktakarnir bera engar skyldur til fyrirtækjanna og fara þegar þeim hentar. Því hafa þessi fyrirtæki, svo og önnur sem hafa tekið að sér það mikil verkefni að þeirra starfsmenn anna þeim ekki, leitað út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Fyrst ber að leita innan EES-svæðisins. Ef starfsmenn fást þaðan og þeir hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi, þarf ekki sérstakt atvinnuleyfi fyrir þá, þar sem EES er eitt atvinnusvæði. Leiti fyrirtæki utan EES þarf að koma til sérstakt atvinnuleyfi.
Til að fá atvinnuleyfi þarf viðkomandi stéttarfélag að gefa umsögn á atvinnuleyfisumsóknir. Félög innan Samiðnar hafa samræmt vinnubrögð sín gagnvart umsóknunum. Einnig hefur Vinnumálastofnun gefið út leiðbeiningar til stéttarfélaga og þeirra sem eru að sækjast eftir erlendu vinnuafli. Eru þær leiðbeiningar stofnuninni til mikils sóma, svo og þau vinnubrögð sem vinnumálastofnun hefur tamið sér við veitingu atvinnuleyfa.
Forsendur þess að fyrirtæki fái atvinnuleyfi fyrir útlendinga er að kunnáttumenn verði ekki fengnir innanlands og skortur sé á vinnuafli í viðkomandi starfsgrein.
Stéttarfélögin þurfa að ganga úr skugga um að viðkomandi starfsmaður sé með tilskilin próf til að mega starfa sem iðnaðarmaður hér á landi. Nokkur misbrestur hefur verið á því að innfluttir iðnaðarmenn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fagmenntaðra manna hér á landi. Menntamálaráðuneytið hefur því fengið send þau gögn sem viðkomandi fyrirtæki leggur fyrir félögin til að sanna þekkingu umsækjanda. Ef ráðuneytið getur staðfest að nám viðkomandi manns sé sambærilegt við íslenskt iðnnám fær hann áritun félaganna.
Gera verður ráðningarsamning við sérhvern starfsmann sem kemur til landsins. Þar kemur fram hvaða laun hann fær hér á landi, hver greiðir fæði, húsnæði og ferðir. Samiðnarfélögin krefjast þess að ekki verði greidd lægri laun en markaðslaun á viðkomandi vinnusvæði.
Við þurfum á þessum félögum að halda á meðan við getum ekki mannað þau störf sem þarf í byggingaiðnaðinum með íslensku vinnuafli.
Við eigum við að taka vel á móti þessum nýju félögum okkar. Það er hlutverk okkar að sjá til þess að þeir fái það sem þeim ber samkvæmt ráðningarsamningi. Hafi menn ástæðu til að ætla að brotið sé á þessum mönnum á umsvifalaust að láta viðkomandi stéttarfélög vita.
Nýverið varð fyrirtæki með pólska iðnaðarmenn í vinnu uppvíst að því að svindla stórlega á þeim. Við eftirlit manna frá Trésmiðafélagi Reykjavíkur kom í ljós að fyrirtækið greiddi Pólverjunum laun eins og ráðningarsamningar sögðu til um fyrir 48 tíma en þegar vinnuskýrslur voru skoðaðar unnu þeir að meðaltali 70 tíma á viku. Viðkomandi yfirvöldum, Vinnumálastofnun og Útlendingaeftirliti, var gert viðvart og nú er þetta fyrirtæki ekki með neina útlendinga á launaskrá í byggingaiðnaði. Vonandi er þetta einangrað fyrirbæri en við verðum að vera á varðbergi því mállausir menn á íslenska tungu sem jafnframt koma frá svæðum þar sem atvinnuleysi er mikið eru auðveld bráð þeim sem vilja misnota þá sem ódýrt vinnuafl.