Á undanförnum mánuðum og vikum hafa orðið mikil umskipti í íslensku þjóðlífi. Ástand og horfur í efnahagsmálum eru með allt öðrum hætti en var fyrir minna en hálfu ári. Átak verkalýðshreyfingarinnar gegn verðbólgunni gekk upp. Rauðu strikin héldu. Allt þetta gefur okkur tilefni til að ganga til móts við sumarið með bros á vör.
Man einhver hvernig ástandið var í fyrrasumar og á haustmánuðum? – Kaupmáttarrýrnun og eignaupptaka. Þá tók forysta ASÍ málin í sínar hendur. Lagðar voru fram ítarlegar hugmyndir um aðgerðir. Á þær var ekki hlustað til að byrja með. Eftir að hafa þjappað hreyfingunni saman að baki forystunni voru stjórnvöld og atvinnurekendur knúin til þátttöku í aðgerðunum og samkomulaginu 13. desember.
Þegar verðlagsmælingin fyrir janúar lá fyrir varð aftur á móti ljóst að þessar aðgerðir einar og sér dygðu ekki. Þá greip forystan til óhefðbundinna meðala. Hún heimsótti fyrirtæki og opinbera aðila, ræddi við menn augliti til auglitis og hvatti þá sem hafa áhrif á verðmyndun í landinu til að halda aftur af sér. Ýmsir lýstu megnustu vantrú á þessum aðgerðum – en þær tókust. Það skapaðist stemmning í þjóðfélaginu fyrir að láta þær takast. Við þurfum ekkert að velkjast í vafa um hver er maður ársins í íslensku þjóðlífi.
Það þurfti þor til að fara í þessar aðgerðir. Forystan á mikinn heiður skilinn að hafa leitt þjóðina úr verðbólgufeni – á tiltölulega lygnan sjó. Það má líka hrósa opinberum aðilum, ríkisstjórn og ýmsum sveitarfélögum fyrir að hafa tekið þátt í þessu. Sama gildir um mörg stór fyrirtæki. Og ekki má gleyma almenningi. Hann á hrós skilið fyrir að hafa haldið vöku sinni og stýrt innkaupum til heimilanna með því að beina viðskiptum til þeirra sem tóku þátt í þessu þjóðarátaki. Þessar aðgerðir sýna okkur líka að það er ástæðulaust að sitja og bíða eftir því hvernig markaðnum þóknast að hafa hlutina. Markaðurinn er mannanna verk. Við eigum að nota hann og ef hann sækir í þær áttir sem okkur hugnast ekki – þá eigum við að leiðrétta kúrsinn.
Látum bankana vita
En stríðið er ekki búið. Ég hvet almenning til að fylgjast áfram vel með verðlagi og láta verðlagseftirlit ASÍ eða Neytendasamtökin vita ef það verður vart við hækkanir því það eru engar forsendur til slíks. Það má líka láta bankana vita af því að verðbólgan sé komin niður í 3% og að því er spáð að hún verði það út árið.
Með hækkandi sól eykst bjartsýni fólks að öllu jöfnu. Væntingavísitala Gallups hefur aldrei verið hærri. Rauðu strikin héldu, en það gefur okkur ný tækifæri til sóknar í kjarabaráttunni og allir eiga að vera ánægðir. Atvinnuástandið er að batna og mín sýn er sú að lítið sem ekkert atvinnuleysi verði í sumar hjá félagsmönnum Samiðnar. Ég ætla að leyfa mér það kæruleysi að nefna ekki hvaða sýn ég hef á næsta vetur. Þar togast nefnilega á tvö sjónarmið. Miðað við þá efnahagslægð sem verið hefur gæti þrengt lítillega að. Það gæti líka verið bullandi þensla því það eru kosningar næsta vor. Bullandi þensla sem byggir á kosningaloforðum og vinsældaveiðum er því miður ekki það sem við þurfum þegar við erum að rétta okkur af eftir erfitt tímabil. Við viljum ekki láta stjórnmálamenn taka út ávinninginn af samningum okkar og aðgerðum á atkvæðaveiðunum. Við viljum taka hann út sjálf í næstu samningum.
Við þurfum að halda vöku okkar við að verðbólgan fari ekki af stað. Það hefur almenningur gert. Það verður aumt hlutskipti ef við þurfum að taka ráðamenn þjóðarinnar í vöktun aftur, svo þeir fari ekki að bruðla út óarðbærum og innistæðulausum verkefnum til að vekja á sér athygli. Þá segjum við þeim upp. Við höfum ekki efni á að hafa slíka menn í vinnu hjá okkur. Í því sambandi verður gaman að fylgjast með þróuninni í rifrildi stjórnarformanns Byggðastofnunar og starfsmannanna. Þjóðin á að fylgjast með galopnum augum með því máli. Er hér enn einn sjóðasukkarinn af gamla skólanum að þjóna lund sinni eða er maðurinn að koma skikki á embættismenn sem vilja ráðskast með almannafé? Þarna mega fjölmiðlar ekki klikka. Þjóðin á heimtingu á að vita hvað er á bakvið þetta mál.
Takið nú sumarfrí
Nóg með það. Við ætlum að hafa það gott í sumar. Sum framboð til sveitarstjórna hafa lofað góðu veðri í sumar og þeim loforðum trúum við. Aðrir eru uppteknir við að koma í veg fyrir stórslys og eru lýsingar frambjóðenda þannig í mörgum tilfellum að það hlýtur að fara að vekja athygli höfunda stórslysamynda. Á eftir stórslysamyndinni Titanic kemur næsta mynd – Geldinganesið. Maður nokkur var að velta fyrir sér um daginn hvers vegna Geldinganesið hafi aldrei verið byggt. Menn veltu þessu fyrir sér dágóða stund þangað til einn spekingurinn kom með skýringu. Engey var byggð fólki af Engeyjarætt, Viðey var byggð af fólki af Viðeyjarætt og Geldinganesið var byggt af fóki af Geldingaætt … Eðlileg skýring á því af hverju Geldinganesið fór í eyði!
Ég vona að sumarið verði ykkur ánægjulegt, og takið ykkur nú sumarfrí, elskurnar mínar. Það er ekki nóg að taka langa helgi tvisvar á sumri. Lífið er til að lifa því.
Kveðja,