Úr skilaboðaskjóðu formannsins

Óvandaðir aðilar fara á kreik í þenslunni

 

Heil og sæl.

 

Vonandi hafið þið átt gott sumar og ánægjulegt sumarfrí. Reyndar hef ég heyrt að margir hafa verið beðnir um að geyma hluta af sumarfríinu fram á haustið. Munið þá viðbótarregluna, 25% lengingu á ákveðinn hluta frísins.

En það er ekki hægt að kvarta undan veðrinu eða veiðinni í sumar. Það hefur alltaf verið hægt að finna sér stað á landinu með þokkalegu veðri og svo má ylja sér við sögur af þeim stóra sem við misstum í veiðinni.

Og af því að við vorum að tala um að fá ekki sumarfrí – spennan er enn töluverð á byggingamarkaðnum og verður væntanlega til áramóta. Vinnuálagið er mikið um þessar mundir. Langir vinnudagar og helgarvinna. Því miður eru menn ekki enn búnir að átta sig á að þegar vinnudagurinn er lengdur fram yfir 9 tímana til lengdar er verið að dreifa sömu afköstum og einstaklingur nær á þeim tíma yfir lengri tíma. Þetta höfum við margmælt í mælingunni.

 

Mikið er um erlenda starfsmenn og margar furðusögur í gangi um þá. Það sem snýr að okkur er að við eigum að krefjast þess að þeir fái sambærileg laun og við. Við eigum að krefjast þess að þeir séu með sambærilega menntun og við. Því miður virðist sá misskilningur vera víða uppi að sá sem hefur unnið við einhvers konar störf í sínu heimalandi sem flokka má undir iðnaðarmannastörf geti tekið upp störf hér sem fullgildur iðnaðarmaður. Þetta tel ég alrangt. Það eitt að flytjast yfir landamæri gefur engin réttindi. Við vinnum eftir gjörólíkum byggingarreglugerðum, stöðlum, erum með önnur efni, vinnubrögð og vinnuhefðir en víðast í Austur- og Suður-Evrópu.

Það eru ekki bara útlendingar sem eru um þessar mundir að vinna iðnaðarmannastörf án tilskilinna réttinda, fjöldi Íslendinga hefur verið munstraður upp sem iðnaðarmenn. Þetta er algerlega ólíðandi og sýnir ótrúlega skammsýni fyrirtækja sem ætla að lifa af í harðnandi samkeppni. Hér er ekki bara hagsmunamál iðnaðarmanna í húfi. Allur almenningur ætti að láta sig þessi mál varða. Þegar fólk er að kaupa í fyrsta skipti íbúð eða skipta um íbúð er það að leggja allt sem það á í eina eign og gera fjárskuldbindingar til framtíðar. Þá skiptir máli að eignin sé í lagi. Það kemur oftast ekki í ljós fyrr en að einhverjum tíma liðnum hvort rétt hefur verið að verki staðið.

 

Almenningur hefur getað gengið að því sem vísu að mannvirki séu í lagi, þótt undantekningar þekkist. Við getum ekki treyst á eftirlitsmannakerfi eingöngu þegar við erum að ráðstafa aleigu okkar. Byggingarfulltrúar eiga að taka út ákveðna byggingarhluta. Þeir ætlast, eins og við, til þess að það séu fagmenn sem vinna verkin. Við ætlumst til þess að strætó sé í lagi þegar við setjumst upp í hann. Það séu ekki fúskarar sem gera við almenningssamgöngutæki. Við ætlumst til að það sé fagmaður sem klippir okkur þegar við setjumst í stólinn á rakarastofunni og við ætlumst til að fagmenn sjái um viðhald á lyftunum sem við förum í daglega. Svo má lengi telja.

Hér er ekki eingöngu verið að tala um hagsmunamál iðnaðarmanna. Almenningur á heimtingu á að fagmenn vinni störf sem almenningur þarf síðan að reiða sig á og kaupa. Ég geri ekki ráð fyrir að „málarameistarinn“ sem réð pólska skólastrákinn sem bjó í tjaldi í Laugardalnum í vinnu hafi gert þeim sem keyptu vinnu hans grein fyrir því að hér væri hann með réttindalausan mann í vinnu sem hefði ekki atvinnuleyfi. Ég geri heldur ekki ráð fyrir að þeir sem kaupa ákveðin raðhús í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur viti af því að þar voru litháskir verkamenn án atvinnuréttinda að vinna hjá gjaldþrota manni sem sjálfur er þekktur fyrir óvönduð vinnubrögð.

Því miður er ein af hliðarverkunum þenslunnar sú að óvandaðir aðilar komast á kreik. Aðilar sem áður hafa dæmt sjálfa sig úr leik fyrir óheiðarleg vinnubrögð. Aðilar sem vísað hefur verið úr samtökum atvinnurekenda vegna kvartana og óheiðarleika.

Því skiptir verulegu máli að verkkaupar gangi eftir því að þeir sem verið er að kaupa vinnuna af séu réttindamenn og að þeir séu félagsmenn iðnaðarmannafélaga eða meistarafélaga. Þá eiga þeir rétt til endurmenntunar og annarra upplýsinga sem nauðsynlegt er í nútímaþjóðfélagi til að stunda vinnu sína sómasamlega. Almenningur á að ganga eftir því að sú vara sem menn eru að kaupa sé ósvikin.