Umgengnin hefur skánað

Elmeri-verkefnið hefur skilað árangri,

segir Tómas Tómasson um þátttöku Héðins í tilraunaverkefni um að bæta vinnuumhverfið

„Það er engin vanþörf á að setja vinnuumhverfismálin í ákveðinn farveg. Mér sýnist á öllu að eftir að við hófum þátttöku í Elmeri-verkefninu hafi umgengnin hér á vinnustaðnum skánað,“ segir Tómas Tómasson. Hann stýrir þátttöku Vélsmiðjunnar Héðins í verkefninu sem snýst um að bæta umhverfið á vinnustöðum.

Þetta er samstarfsverkefni Samiðnar, Samtaka iðnaðarins og Vinnueftirlits ríkisins og beinist að vinnuumhverfismálum í málmiðnaði. Notast er við finnskt kerfi, Elmeri, sem þróað hefur verið til að bæta vinnuumhverfi og byggist það á reglubundnum úttektum á vinnustaðnum.

„Við skiptum vinnustaðnum fyrst upp í stöðvar, og förum svo með jöfnu millibili og skoðum ástand stöðvanna og skráum hjá okkur athugasemdir. Þegar skoðun er lokið reiknum við út ástand mála og að lokum kynnum við niðurstöðurnar fyrir starfsmönnum. Það gerum við með því að setja upp línurit þar sem allir geta séð hvort ástandið hefur skánað eða versnað hjá sér á tímabilinu,“ segir Tómas. Dæmi um stöð segir hann vera rennibekk og nánasta umhverfi hans. Plötusalnum er skipt í 12 stöðvar, og svo framvegis.

„Við förum venjulega þrír í þessar skoðunarferðir. Við athugum hvort umhverfi stöðvarinnar er þrifalegt, hvort hlutirnir eru í röð og reglu á staðnum. Við gerum athugasemd ef óþarfahlutir eru á vinnusvæðinu, svo eitthvað sé nefnt. Þessar skoðunarferðir taka svona 15 til 20 mínútur og eru farnar minnst einu sinni í viku. Sá tími sem við tökum í þetta er alltaf að styttast eftir því sem við lærum betur á kerfið.“ Í skoðunarferðinni er haft með eyðublað sem er hluti af þessu kerfi og á það skrá skoðunarmenn athugasemdir sínar og gefa stöðvunum stig eftir fyrirframákveðnum reglum. Einnig fylgir ítarefni fyrir skoðunarmennina sem þeir geta flett upp í ef upp koma álitamál.

Tómas segir að starfsmenn hafi tekið þessu misvel. „Margir hafa brugðist afar vel við þessu átaki og telja þetta nauðsynlegt. Svo eru aðrir sem engu vilja breyta eins og gengur, eru vanir því að vinna í skít og drullu og sjá enga ástæðu til að breyta því. Í heildina held ég þó að þetta átak eigi eftir að skila betri vinnustað. Það er alltaf þörf á því að hafa vakandi auga með umhverfinu, ekki síst á svona stað þar sem slysahætta er mikil ef menn gæta ekki að sér. Vinnuslysin eiga mörg hver rætur að rekja til kæruleysis,“ segir Tómas.