Allt útlit er fyrir að skipaviðgerðir og -smíði leggist af í Reykjavík á næstu misserum. Nýlega kynnti Reykjavíkurborg áform um að leggja niður skipaviðgerðir vestast í Gömlu höfninni í Reykjavík á svokölluðu slippasvæði. Þar hafa verið stundaðar skipasmíðar og viðgerðir í meira en hundrað ár. Nú síðast hefur Stálsmiðjan haldið á lofti merki skipaviðgerða á staðnum, en auk hennar er hið gamalgróna fyrirtæki Daníels-slippur ennþá með starfsemi á svæðinu. Þær hugmyndir sem borgaryfirvöld og Reykjavíkurhöfn, sem á svæðið, hafa kynnt ganga út á að þar verði íbúðarhverfi og atvinnuhúsnæði í stað slippanna.
Talsmenn borgarinnar og Reykjavíkurhafnar hafa lýst því yfir að þær skipulagshugmyndirnar sem nú liggja fyrir séu fyrst og fremst hugmyndir, og sé næsta skref að þróa þær áfram í samráði við íbúa í nágrenninu og aðra hagsmunaaðila. Samkvæmt fréttum verður árið í ár notað til að safna hugmyndum frá íbúum og öðrum þeim sem vilja láta skipulagið sig einhverju varða. Gert er ráð fyrir að endanlegt skipulag liggi fyrir í lok ársins eða í byrjun þess næsta.
Vafalaust harma hinir fjölmörgu málmiðnaðarmenn og aðrir iðnaðarmenn sem hafa starfað á svæðinu, ekki síst þeir sem þar starfa enn, það að nú eigi að leggja niður vöggu skipaviðgerða í Reykjavík.
Það er umhugsunarefni fyrir þá og aðra áhugamenn um sögu og varðveislu menningararfsins hvort ekki er rétt að varðveita eitthvað af þeim minjum sem þarna er að finna og koma þeim fyrir í einhverju þeirra húsa sem þjónað hafa þessari iðn í áratugi, og halda þannig á lofti minningu þeirra fjölmörgu dugnaðar- og atorkumanna sem í rúm hundrað ár hafa haldið íslenska skipastólnum gangandi. Án þess starfs sem unnið hefur verið í slippunum í Reykjavík og öðrum dráttarbrautum landsins væri hagsæld á Íslandi nú mun minni. Allir þeir sem vörðu starfsævinni til að halda fiskiskipaflotanum og öðrum fleyjum landsmanna gangandi eiga skilið að dugnaði þeirra sé lýst fyrir komandi kynslóðum.