Skólastarf þarf að endurskoða

Heimir Janusarson miðstjórnmaður í Samiðn tók þátt í starf hóps sem velti fyrir sér hvernig grunnskóli framtíðarinnar ætti að vera

 

Þetta var mjög skemmtileg reynsla og leiddi til þess að skoðun mín á skólamálum hefur tekið nýja stefnu, segir Heimir Janusarson, miðstjórnarmaður í Samiðn og formaður Félags garðyrkjumanna, eftir að hafa verið í hópi fólks að spá í hvernig framtíðarskólinn ætti að vera, bæði byggingin og allt skólastarfið.

– Samiðn tilnefndi mig í þennan hóp sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur kom saman til að móta hugmyndir um hvernig skóla við vildum hanna fyrir börnin í Grafarholti, skólann sem nú hefur fengið nafnið Ingunnarskóli. Forystu í þessu starfi hafði bandarískur arkitekt sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Markmiðið var að skoða hvernig framtíðarskólinn ætti að líta út og til þess höfðu verið fengnir fulltrúar ýmissa hópa í samfélaginu. Helmingurinn var skólafólk en hinir komu víðs vegar að. Þarna voru arkitektar, fulltrúar Samfoks, fólk af byggingadeild Reykjavíkurborgar auk pólitískra fulltrúa. Við byrjuðum með autt borð. Arkitektarnir kvörtuðu til dæmis um að í stað þess að teikna skóla utan um börnin teikni þeir skóla utan um loftræstikerfi og brunavarnir og flóttaleiðir. Þetta var meðal annars það sem menn vildu ræða. Hvað er það í raun sem hefur mótað skólastarfið í gegnum tíðina? Af hverju voru 30 börn í bekk hér áður fyrr? Var það vegna þess að þeir voru 30 sem brauðfæddu grísku heimspekingana? Við vorum að velta fyrir okkur öllu, allt frá hinu almenna til hins sértæka, við hönnun á skólahúsnæði og skólastarfi. Hvað eiga börnin að vera mörg í hverri skólastofu? Og viljum við skólastofur? Á skólinn að vera hjartað í hverfinu? Á hann að vera í hlutverki menningarmiðstöðvar? Þarf að bæta samskipti skóla og atvinnulífsins? Þessi mál öll og miklu fleiri voru reifuð.

Mikill áhugi virtist vera hjá hópnum að nota skóla framtíðarinnar meira, ekki bara frá  8 til 3 heldur að þeir væru opnir fyrir félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki fram á kvöld. Þá var rætt um að fyrirtækin væru opin fyrir skólann til kynningar og kennslu og að tengsl atvinnulífsins og fyrirtækjanna væru sem mest við skólann.

– Fyrir mér er það orðið löngu tímabært að endurskoða skólastarf hér og það frá  grunni. Það er ekki bara nauðsynlegt að stokka upp hönnun skólanna heldur þarf einnig að móta nýja skólastefnu sem byggist á endurskoðuðum kjarasamningi kennara og lengingu skólaársins. Það þarf líka að endurmeta stöðu grunnskólans í þjóðfélaginu, með það fyrir augum meðal annars að efla tengslin við margvíslega þætti samfélagsins eins og atvinnulífið og menningarstarfsemina, segir Heimir. Það er ekki nóg að hafa fjölskylduvæna starfsmannastefnu í fyrirtækjum ef ekki er samstarf við skólayfirvöld.

Fyrir þá sem hafa áhuga liggur skýrsla hópsins frammi á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.