Samstarf norrænna stéttarfélaga garðyrkjufólks

Kröftunum beint gegn ólöglegu og ófaglærðu vinnuafli

 

Á þingi norrænna stéttarfélaga starfsfólks í landbúnaði, þar á meðal garðyrkju, sem haldið var í Finnlandi í ágúst, var samþykkt að beina kröftum félaganna að því að sporna gegn ólöglegu og ófaglærðu vinnuafli í greininni.

Í ályktun sem samþykkt var á þinginu kemur fram að á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að launagreiðendur nýti sér bágindi fólks utan Evrópusambandsins og EES og ráði það til vinnu á langtum lakari kjörum en löglegt er og án tilskilinna leyfa. Þannig er fólk ráðið til tímabundinna starfa í greininni án allra félagslegra réttinda í aðbúnaði, vinnuumhverfi og launamálum.

Faglegar kröfur eru mikilvægar í landbúnaði líkt og í öðrum greinum, en lögð var á það áhersla að viðhalda faglegum viðmiðum þar sem gæðakröfur til landbúnaðarafurða þurfa að vera miklar og er fagfólk best til þess fallið að mæta þeim.

Bent var á mikilvægi þess að vinna að þessum málum á vettvangi Evrópusambandsins og jafnvel rætt um að beita bæri styrkjakerfi landbúnaðarins í þá veru að þau fyrirtæki sem ekki uppfylltu þessi félagslegu og faglegu viðmið væru útilokuð frá umsóknum um styrki. Á það var einnig bent að þessi afstaða félaganna beindist fyrst og fremst að launagreiðendum sem vísvitandi brjóta ákvæði laga og kjarasamninga um kaup, kjör og félagslegan aðbúnað.

 

Fótbolti og ratleikir trekkja

 

Sveinn Bjarki Þórarinsson iðnnemi segir að Svíar noti ýmsa leiki til að fá ungt fólk til starfa í verkalýðshreyfingunni

 

Það eru greinilega til ýmsar aðferðir við að fá fólk til að taka þátt í félagsstarfi, segir Sveinn Bjarki Þórarinsson húsgagnasmíðanemi. Hann fór á vegum Samiðnar á fund sænskra byggingarmanna þar sem saman voru komin ungmenni innan greinarinnar til að ræða ýmis mál sem varða ungt fólk og hreyfinguna.

– Þetta var merkileg samkoma sem haldin var á herragarði sænska byggingarmannasambandsins rétt fyrir utan Stokkhólm. Þarna fóru fram venjuleg fundastörf þar sem rædd voru ýmis mál sem varða ungt fólk í Svíþjóð og þátttöku þess í störfum verkalýðshreyfingarinnar. Svíar eiga við sömu vandamál að glíma og aðrir þegar kemur að því að afla nýrra og virkra félaga í verklýðsfélögin. Þá var einnig fjallað þarna um vinnuverndarmál og um réttindi launafólks í Svíþjóð.

– Fundinn sóttu um 60 ungmenni, nær eingöngu Svíar en þó slæddust með ég og einn Dani. Mest voru þetta strákar en þó voru þarna tvær stelpur sem voru að læra húsasmíðar. Hópurinn var á aldrinum 16 til 25 ára og má segja að hann hafi kunnað ágætlega að skemmta sér þá daga sem við vorum saman, segir Sveinn og bætir við að það hafi verið eftirtektarvert hvað Svíarnir lögðu mikla áherslu á að hópurinn léki sér og hefði það skemmtilegt á meðal mannskapurinn dvaldist á staðnum.

– Það má segja að helmingur þess tíma sem við höfðum til ráðstöfunar hafi farið í alslags leiki, fótbolta, ratleiki og ýmislegt annað sem bersýnilega er notað til að lokka ungt fólk til þátttöku í starfi verkalýðshreyfingarinnar. Þetta eru aðferðir sem Svíar segja að gangi hjá þeim og það er umhugsunarefni  hvort við gætum nýtt svipaðar aðferðir við að fá ungt fólk hér á landi til að gerast virkari þátttakendur í starfi okkar félags, segir Sveinn sem hefur verið virkur í starfi Iðnnemasambandsins frá því hann hóf nám.