Ráðist gegn vinnuslysum

Það hefur valdið mönnum áhyggjum að undanfarin ár hefur slysatíðni verið hærri hjá starfsmönnum í málm- og byggingariðnaði en hjá öðrum iðnaðarmönnum. Á síðasta Samiðnarþingi var samþykkt að tekið skyldi á þessu vandamáli.

Samtök iðnaðarins hafa léð máls á að leggja málinu lið og leitað hefur verið til Vinnueftirlitsins eftir nauðsynlegum upplýsingum um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum. Einnig hefur verið samið við Sólarplexus, heilbrigðis- og öryggisráðgjöf, um samstarf við þetta átak, en það fyrirtæki hefur unnið að samsvarandi verkefnum undanfarin ár.

– Til að byrja með er ætlunin að velja nokkur fyrirtæki til þess að taka þátt í verkefninu og er miðað við að það nái til að minnsta kosti hundrað manna hóps, segir Vignir Eyþórsson, varaformaður Samiðnar, við Samiðnarblaðið.

Lovísa Ólafsdóttir, iðjuþjálfi hjá Sólarplexus, segir að ætlunin sé að draga fram andlega, efnislega og líkamlega áhættuþætti á vinnustöðum og tengja hugsanlegum orsakaþáttum slysa.

– Þetta verður fyrsta skrefið í vitundarvakningu um heilbrigðis- og öryggisþætti starfsmanna á vinnustöðum. Hingað til hafa aðgerðir í þessa veru sem tengjast heilbrigðis- og öryggisþáttum beinst að einstaka vandamálum sem þarf að leysa og verið bundnar við skammtímalausnir en síður falist markvissum aðgerðum þar sem menn setja sér tiltekin markmið. Það þarf að kortleggja áhættuþættina, álagstíðni og dreifingu og finna út hvers vegna slysin verða. Verða þau vegna þess að menn taka ekki til í kringum sig? Vegna þess að hvíld manna truflast og einbeiting skerðist? Vegna þess að nýliðar fá ekki nægilega þjálfun í vinnubrögðum og óþjálfaðir starfsmenn eru settir í verk án aðlögunar og skólunar? Hverjir eru orsakaþættir slysa?

– Meðal starfsmanna í málm- og byggingagreinum hefur ríkt ákveðið agaleysi gagnvart eigin öryggi og það þarf að efla öryggishegðun einstaklinga, þannig að menn fari til að mynda ekki á hættusvæði án hjálms og öryggislínu. Ætlunin er að byggja upp ábyrgð lykilmanna á vinnustöðum gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna til þess að draga úr þeirri hættu sem hefur valdið alltof mörgum slysum, segir Lovísa Ólafsdóttir við Samiðnarblaðið