Nokkur orð um varasöm og hættuleg efni

Nokkur orð um varasöm og hættuleg efni í bílgreinunum

 

Þrátt fyrir að þekking á efnum sem notuð eru í bílgreinunum, bæði efni í bifreiðum og efni sem notuð eru til viðgerða, hafi aukist, er margt sem þarf að varast í þeim efnum.

 

Öll lífræn leysiefni, svo sem þynnar, white spirit og önnur feitiuppleysandi efni, eiga það sameiginlegt að ganga inn í blóðrásarkerfi líkamans, annaðhvort í gegnum húðina eða öndunarfærin. Efni þessi leysa upp fituvefi í miðtaugakerfinu og orsaka skemmdir sem eru ólæknandi. Einnig orsaka þessi sömu efni ofnæmi sem geta verið ólæknandi um aldur og ævi. Sumir einstaklingar eru veikari fyrir þessum efnum en aðrir og getur jafnvel hin minnsta efnamengun orsakað ólæknandi veikindi.

 

Helstu atriði til að forðast áhrif leysiefnamengunar eru þessi:

 

  Hreinlæti og varúð með ílát og við förgun þessara efna.

  Forðast óþarfa uppgufun frá opnum ílátum, klútum og ruslatunnum.

  Staðbundið frásog sé við blöndun þessara efna.

  Sérstakt herbergi vel loftræst þar sem geymsla og blöndun þessara efna fer fram.

  Persónuhlífar, svo sem hanskar, öndunargrímur og hlífðargleraugu, sem ætluð eru fyrir þessi efni.

 

Efnamengun kemur frá slípun á lakki, bæði gufur og ryk, og reykur frá stöðum þar sem suða fer fram, hvort heldur er í málmum eða á plasthlutum.

Þar er það staðbundið frásog og/eða ferskloftsgrímur sem geta komið í veg fyrir heilsuskaða.

Þrifnaður – almenn loftræsting – staðbundið frásog frá upptökum mengunarinnar og fullnægjandi persónuhlífar eru veigamestu þættirnir til að forðast efnamengun og heilsuvá af hennar völdum.

Nýlega barst Vinnueftirliti ríkisins fróðleikur frá Vinnueftirlitinu í Noregi um polýúretan/ísócýanöt og finnst okkur hér þetta mikilvægt innlegg til að varast hættuleg efni. Erindi þetta er frá 7. mars 2000, og getur vart nýrra verið.

Ísósýanöt geta orsakað alvarlegt heilsutjón, eins og til dæmis ofnæmi í öndunarfærum (astma) og exem við snertingu.

Innflutningur á efnum þessum til Íslands var um 280 tonn á árinu 1998 og fer vaxandi.

Þetta efni finnst meðal annars í eftirfarandi hlutum bifreiða:

 

  Plastinnréttingum

  Svampgúmmíi

  Einangrun á rafmagnsvírum

  Prentplötum í rafkerfum

  Allskonar lími

  Bifreiðalökkum, grunnefnum

og málningu

  Ryðvörn/hljóðeinangrun í hurðum bifreiða

 

Þeir sem vinna við eftirfarandi störf teljast vera í áhættuflokkum:

 

  Bifreiðamálun, bifreiðaviðgerðir

  Yfirborðsmeðferð með grunnum,

málningu eða lakki

  Slökkvistörf í húsum, skipum og bílum

  Húsgagnasmíði

  Suða, logskurður á yfirborðsmeðhöndluðum málmum

  Framleiðsla og vinna með frauðplast

(festifrauð)

  Við hvörfun þegar blöndun á plastefni og herði á sér stað

 

 

Heilsuvá

 

Ísósýanöt geta orsakað astma, ólæknandi kvef, og skerta virkni lungnanna. Einnig varanlega örorku og í versta falli dauða.

Starfsmaður sem fær astma af þessum efnum getur til viðbótar skyndilegum astmaeinkennum fengið samskonar einkenni nokkrum klukkutímum seinna.

Þegar bruni á sér stað er stór hætta á myndun ísósýanítgass. Þessvegna ætti að halda sig fjarri slíkum bruna. Einnig myndast aðrar bráðhættulegar gastegundir sem ber að forðast.

Viðmiðunarmörk á ísósýanítmengun eru að ekki sé meira en 1 gramm í 30 þúsund rúmmetrum af andrúmslofti. Með öðrum orðum: Í rými sem er 30 x 100 metrar í flötinn og lofthæðin 10 metrar má mest vera 1 gramm af ísósýaníti í loftinu.

Það sem ennfremur gerir þetta efni svo hættulegt er að það er lyktarlaust.

 

Varúðarráðstafanir:

 

  Athuga hvort það efni sem vinna skal með inniheldur ísósýanöt

  Loftræsting/staðbundið frásog og persónuhlífar séu fullnægjandi til að forðast snertingu við ísósýanöt

  Hafa tiltækan fróðleik á íslensku um notkun vöru sem inniheldur polýúretan

  Fræðsla um vinnu við upphituð efni

  Reglur um díísósýanöt

  Reglur um suðu, skurð, sprautumálningu, lóðun, og slípun.

  Reglur um vinnu með krabbameinsvaldandi efni

 

Það má ljóst vera af ofanskrifuðu að hér er á ferðinni efni sem áður var ekki talið eins hættulegt og raun ber nú vitni og þarf því að hafa sérstaka aðgát vegna þessa.

Búast má við frekari upplýsingum um þetta frá Noregi og Svíþjóð þegar frekari rannsóknir hafa verið gerðar á efnum þessum.

Geta má þess að ísósýanöt flokkast sem eitur ( T ) og hafa hættusetningar H 23-36-37-38-42-43 og varúðarsetningar V 26-28-38-45.

Þessi greinarstúfur er engan veginn tæmandi um varasöm efni bílgreina, aðeins til að vekja athygli og umræðu.