Menntun er máttur Bíliðnamanna

 Fræðslumiðstöð bílgreina flytur í nýtt húsnæði þar sem boðið verður fjölbreytt nám fyrir bíliðnamenn

 

Bíliðnamenn eru að gera sér betur og betur grein fyrir nauðsyn þess að auka við og bæta sína menntun. Þeir tilheyra þeirri stétt iðnaðarmanna sem upplifir hvað mestu tækniframfarirnar og því er nauðsynlegt að geta boðið þeim öfluga endurmenntun. Menn verða að gera sér grein fyrir því að það er fyrst og fremst þekkingin á viðfangsefninu sem gerir þá að verðmætum starfskrafti, segir Snorri Konráðsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar bílgreina.

– Það er óhætt að segja að straumhvörf verði í rekstri Fræðslumiðstöðvarinnar eftir að við tökum í notkun þessa nýju aðstöðu. Þótt samstarfið við stjórnendur Borgarholtsskóla hafi verið gott þá var það svo að ekki var alltaf auðvelt að samræma okkar þarfir og rekstur iðnmenntaskólans, segir Snorri.

– Eins og kunnugt er hafa Bílgreinasambandið og Bíliðnafélagið stofnað hlutafélagið Bílmennt til að kaupa nýtt húsnæði á Gylfaflöt 19 fyrir Fræðslumiðstöð bílgreina.

– Þetta er rúmlega 560 fermetra húsnæði sem skiptist í verkstæðisgólf, kennslustofur og skrifstofur. Verkstæðið er um 350 fermetrar. Hér munum við geta boðið upp á mjög öflugt fræðslustarf þar sem notast verður við öll nýjustu tæki og tól, segir Snorri og er bjartsýnn á rekstur Fræðslumiðstöðvarinnar á hinum nýja stað.

Reksturinn hefur gengið vel að undanförnu og ljóst að bíliðnamenn eru áhugasamir um sín menntunarmál. Eins og fyrr segir gjörbreytir þessi nýja aðstaða starfi okkar. Við leggjum áfram eins og hingað til metnað okkar í að bjóða alhliða fræðslu fyrir alla þá sem að bílgreininni koma. Þótt þörfin sé kannski mest fyrir fræðslu til þeirra sem fást við viðgerðir á vélum og búnaði bifreiða þá verður áfram lögð áhersla á að bjóða upp á námskeið fyrir þann fjölbreytta hóp sem  þjónustar bíleigendur hér á landi.

– Eins og allir vita sem koma nálægt bílum eru mjög örar breytingar í þeirri grein. Bílar eru í stöðugri þróun og nýjungar nánast orðnar daglegt brauð. Þetta á ekki hvað minnstan þátt í því að bíliðnamenn verða að halda vel á sínum endurmenntunarmálum. Það er að mínu mati mikilvægt fyrir bílaumboðin að hafa á að skipa vel mönnuðum verkstæðum til þess að bjóða viðskiptamönnum sínum á hverjum tíma góða þjónustu, og ekki síst nú þegar samdráttur er í bílainnflutningi. Ég er þeirrar skoðunar að bílakaupendur muni horfa í ríkari mæli til þeirrar þjónustu sem í boði er þegar þeir velja sér bílategund. Þetta kallar á að starfsmenn sem annast viðhald og viðgerðir á þeim bílum séu ætíð vel í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem inn á verkstæðin koma, segir Snorri og bætir við að þeir hjá Fræðslumiðstöðinni hafi markað sér þá stefnu að þjónusta betur einstök verkstæði og bjóða upp á tegundamiðuð námskeið.

 

Fyrirtækjasamningar

 

– Nú eru í gildi tveir samningar við bílaumboðin um að við önnumst fræðslumál  þeirra. Í þeim samningum er kveðið á um að hver starfsmaður sé greindur með það fyrir augum að sjá hvaða endurmenntun nýtist honum best. B&L var fyrsta fyrirtækið sem gerði svona samning og nýverið bættist Brimborg við.

– Þessi kerfisbundna fræðsla miðar að því að menn geti orðið sérfræðingar í ákveðnum hlutum. Þótt þeir séu áfram hæfir sem almennir viðgerðarmenn getur verið gott, bæði fyrir starfsmennina og verkstæðin, að ákveðnir menn kunni meira í sumum viðgerðum en öðrum. Það má segja að þetta sé upphafið að því að koma á fót meistaranámi í bílgreinum.

Við höfum nú um nokkurt skeið verið með á prjónunum áætlanir um að koma á fót meistaranámi fyrir bíliðnamenn. Það hefur í raun aldrei verið boðið upp á meistaranám fyrir þá. Úr þessu viljum við bæta og má segja að brýnt sé að koma slíku námi á því eins og menn vita þarf meistara til að skrifa upp á starfsþjálfun iðnnema og nú er farið að bera á skorti á meisturum. Frá því árið 1990, þegar það var aflagt að menn yrðu meistarar eftir að hafa starfað í þrjú ár í greininni, hefur ekki orðið endurnýjun á meisturum í okkar fögum, segir Snorri og bætir við að málið sé nú á borði menntamálaráðuneytisins og hafi verið þar um nokkurt skeið.

Snorri segir að með hinni nýju aðstöðu verði ekki bara hægt að bjóða upp á betri og fjölbreyttari námskeið heldur verði einnig mun auðveldara að sinna menntunarmálum þeirra sem starfa úti á landi þar sem í þeim nýja tækjabúnaði sem keyptur hafi verið sé gert ráð fyrir að hægt verði að stunda fjarkennslu.

Þessi búnaður gerir okkur kleift að bjóða mönnum sem hafa tölvur og nettengingu að sitja námskeið hér. Þeir geta  til dæmis gert við rafkerfi bíla í gegnum sýndarveruleikann og eiga kost á beinni aðstoð kennara héðan frá Gylfaflötinni við þær viðgerðir. Þetta er nýjung og verður vafalaust mikið framfaraspor fyrir þá fjölmörgu bíliðnamenn úti á landi sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með að sækja námskeið til höfuðborgarinnar.

Fullkominn

réttingarbekkur

 

Þessi nýja aðstaða bætir einnig verulega stöðu bifreiðasmiða hvað varðar endurmenntun. Ákveðið hefur verið að kaupa fullkominn réttingarbekk sem settur verður hér upp. Hann og önnur tæki sem fjárfest verður í gera auðveldara fyrir okkur að standa undir þeim kröfum sem til okkar eru gerðar í þessum efnum. Við munum taka upp kennslu á svokölluðu Cabas-tjónamatskerfi nú í haust en ákveðið hefur verið að taka upp slík viðmiðunarkerfi hér á landi á haustmánuðum. Einnig verður í boði fjölbreytt nám fyrir bílamálara.

– Nú opnast einnig sá kostur að bílaumboðin og aðrir sem vilja geti fengið hér inni fyrir ýmsar kynningar og fræðslu, eins og til dæmis þegar kynna þarf nýjungar fyrir umboðsmönnum og þjónustuaðilum, segir Snorri og dregur ekki dul á ánægju sína með þessa nýju aðstöðu. Hann hefur fulla trú á að menn muni nýta sér þetta nýja aðsetur Fræðslumiðstöðvarinnar.

– Hér geta menn verið í ró og næði, þjálfað sitt fólk, og kynnt nýjungar þar sem aðstaða er fyrir hendi, segir Snorri. Á staðnum verður einnig fundaraðstaða og gott tölvuver.

Snorri segir það sérstaklega ánægjulegt hvað menn innan bílgreinarinnar séu samstiga í fræðslumálum greinarinnar.

        Hér er enginn meirihluti heldur bera atvinnurekendur og launamenn jafna ábyrgð á rekstri þessarar fræðslumiðstöðvar, og má segja að á það falli enginn skuggi.