Megum ekki láta Kárahnjúkavirkjun

Megum ekki láta Kárahnjúkavirkjun brjóta velferðarsam félagið á bak aftur

 

Hringborðsumræður um erlent vinnuafl á Íslandi – Þátttakendur: Gissur Pétursson, Ingvar Sverrisson og Þorbjörn Guðmundsson

 

Erlent vinnuafl á Íslandi hefur verið mikið til umræðu síðustu mánuði, ekki síst vegna hins fjölmenna hóps sem komið hefur til starfa við virkjanaframkvæmdirnar austur við Kárahnjúka. Íslensk stéttarfélög hafa staðið í harðri baráttu við verktaka á svæðinu til að fá þá til að fara að íslenskum lögum, reglum og kjarasamningum í samskiptum við starfsfólk sitt. Ítalski aðalverktakinn Impregilo reyndist æði tregur í taumi og hefur meðal annars skýlt sér á bak við portúgalskar starfsmannaleigur sem erfitt er að henda reiður á.

 

Samningar náðust á haustdögum við verktakann um rétt trúnaðarmanna og stéttarfélaga til að fylgjast með því að starfsfólki séu greidd laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum eins og íslensk og evrópsk lög kveða á um. Stríðið er hins vegar langt í frá unnið því verkið er skammt á veg komið og starfsfólki og verktakafyrirtækjum á eftir að fjölga verulega áður en yfir lýkur.

Þessi þróun er þegar farin að segja til sín á íslenskum vinnumarkaði og af því tilefni þótti Samiðnarblaðinu rétt að fá þrjá menn til hringborðsumræðna um málið. Þremenningarnir eru Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar, Ingvar Sverrisson lögfræðingur Alþýðusambands Íslands og Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar. Fyrsta spurningin var eðlilega um það hvaða lærdóma væri hægt að draga af því sem gerst hefur við Kárahnjúka?

Þorbjörn: Við upplifðum það að hafa ekki nógu góða möguleika á að afla okkur upplýsinga um ástand mála eða grípa inn í þegar við fengum á tilfinninguna að ekki væri farið að lögum og samningum.

Ingvar: Þarna stöndum við frammi fyrir alþjóðavæðingu, þetta eru miklar verklegar framkvæmdir sem boðnar eru út á alþjóðamarkaði. Verkið fær erlent stórfyrirtæki sem hefur frelsi til að koma sér hér fyrir með sína starfsmenn. Íslensk stjórnvöld reynast hins vegar ekki fær um að fylgjast með því að það fari eftir samningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og reyndar einnig samevrópskum reglum.

Þorbjörn: Það kom líka í ljós að verkalýðshreyfingin átti mjög erfitt með að grípa inn í svona atburðarás.

Gissur: Ég ætla að taka dæmi af sjálfum mér en ég réð iðnaðarmann til að gera við baðherbergið hjá mér. Hann var byrjaður en svo fékk ég flísarnar ekki á réttum tíma og verkið dróst og dróst, klósettið ótengt og allt í fári á heimilinu. Eftir þessa reynslu ákvað ég að næst ætlaði ég að vera kominn með allt í hendurnar þegar ég byrjaði. Þetta er það sem gerðist fyrir austan. Það var undirritaður verksamningur og byrjað viku seinna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega galið. Það hefði þurft að taka svona ár í undirbúning svo þeir hefðu haft tíma til að koma sér fyrir áður en hinar raunverulegu framkvæmdir hófust. Að þessu leyti get ég tekið undir þau rök verktakanna að þeir hafi verið að koma sér fyrir á sama tíma og framkvæmdir voru hafnar. Kannski var stokkið á tilboðið af því að það var svo lágt og óvíst hvort ráðist hefði verið í framkvæmdirnar ef það hefði verið hærra. En þetta áttu reyndir menn að vita og af þeim hélt ég væri nóg hér á landi eftir allar þær virkjanir sem hér hafa verið reistar. Þetta er stærsta verkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og það verður ekki hrist fram úr erminni.

 

Eðlilegir byrjunarörðugleikar?

 

Þær raddir hafa heyrst að þetta hafi bara verið eðlilegir byrjunarörðugleikar á stóru verki. Eruð þið sammála því?

Þorbjörn: Að sumu leyti. Ef eðlilega hefði verið staðið að þessu hefði Landsvirkjun átt að vera búin að koma upp aðstöðu fyrir svona 2–300 manns sem hefðu þá getað búið í haginn fyrir mennina sem áttu að hefja sjálfar framkvæmdirnar. Það er því enginn vafi á að Landsvirkjun ber ábyrgðina á því hve illa var staðið að undirbúningi framkvæmdanna. Það á hins vegar ekki við um starfskjörin, þar er við erlenda verktakann einan að sakast. Fyrirtækið kynnti sér ekki íslensk lög og þá samninga sem hér eru í gildi. Kannski eru þessar upplýsingar ekki nógu aðgengilegar. Við vorum ef til vill ekki nógu vel búnir undir alþjóðavæðinguna.

Ingvar: Virkjanasamningurinn er til á ensku. Í útboðsgögnum er hins vegar vísað til ýmissa reglna um vinnuvernd og aðbúnað sem ekki eru til á ensku en auðvitað áttu Ítalirnir að leggja í þann kostnað að láta þýða þessar reglur og fylgja þeim svo. En við þurfum að halda betur utan um upplýsingagjöf til erlendra fyrirtækja sem hingað koma til starfa til lengri eða skemmri tíma. ASÍ er að setja saman ítarlegan bækling með helstu réttindum og skyldum atvinnurekenda á íslenskum vinnumarkaði, útdrátt úr samningum og þess háttar og þýða þetta á ýmis tungumál. Við erum að læra af reynslunni.

 

Enginn viðbúnaður stjórnvalda

En að hve miklu leyti var þessi slaki undirbúningur á ábyrgð stjórnvalda?

Gissur: Ég held að þessi gagnrýni eigi alveg við gagnvart stjórnvöldum. Við höfum ekki haft uppi neinn viðbúnað. Í þessu sambandi er gott að hafa í huga að á opinberar stofnanir eru lagðar þrjár meginskyldur í rekstri: Í fyrsta lagi má ekki vera neitt fitulag utan á þeim, þær mega ekki eyða neinum peningum í vitleysu; í öðru lagi eiga þær að vinna faglega; og í þriðja lagi eiga þær að vera búnar undir áföll. Þessar kröfur ganga hver í sína átt en við það þurfum við að búa. Við höfum ekki getað aukið við mannafla vegna þessara nýju framkvæmda, hvorki hér á aðalskrifstofunni í Reykjavík né á svæðisskrifstofunni á Egilsstöðum þótt full ástæða væri til. Við erum til dæmis að taka aukinn þátt í vinnumiðlun vegna framkvæmdanna og þeirri vinnu er bætt á þá starfsmenn sem fyrir eru. Þetta á við um aðrar opinberar stofnanir sem málið varðar, þær hafa ekki verið undir þetta áhlaup búnar. Það hefur mikið verið rætt um öll afleiddu störfin sem eiga að fylgja þessum framkvæmdum. Áttu þau ekki líka að verða til hjá hinu opinbera eða bara í vélsmiðjunum fyrir austan?

Þorbjörn: Þarna leikur grunur á að um félagsleg undirboð sé að ræða. Þá krefst Vinnumálastofnun sannana um að svo sé ekki og fær einhverja pappíra frá fyrirtækinu. Þegar þeir eru komnir getur stofnunin ekki gert mikið meira. Hún getur ekki véfengt pappírana og krafist þess að málið verði rannsakað frekar. Impregilo er alþjóðlegt fyrirtæki sem kann að leika á kerfið. Þarna þarf að breyta einhverju og veita stofnuninni heimildir til að setja af stað rannsókn.

Ingvar: Þetta er rétt, Vinnumálastofnun hefur ekki heimildir til að rannsaka málin og kveða upp úrskurði. En það er fleira sem hefur komið í ljós. Þarna hafa orðið árekstrar milli tveggja menningarheima. Impregilo er rótgróið fyrirtæki sem kemur úr annarri menningu þar sem hlutirnir eru gerðir með ákveðnum hætti og hafa verið þannig lengi. Svo koma þeir hingað þar sem við höfum okkar kerfi sem hefur verið mótað í samskiptum verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og fest í kjarasamninga. Þarna urðu árekstrar sem snerust upp í spurningu um það hver gæfi eftir. Í fyrstu vorum við á undanhaldi og þeir skynjuðu það. Þeir mátu stöðuna þannig að stjórnvöld hefðu ekki tæki til að styðja við bakið á okkur og nýttu sér það.

 

Eftirlitið má ekki fara út í öfgar

 

Tekur þú undir það, Gissur, að ykkur skorti heimildir til að ganga í þessi mál eins og þyrfti?

Gissur: Já, ég get tekið undir það að heimildir okkar til rannsóknar eru frekar takmarkaðar. Ég er líka sammála því sem Ingvar sagði um árekstur tveggja menningarheima. Þegar þeir urðu gátum við ekki gert annað en að vísa til þeirrar hefðar á íslenskum vinnumarkaði að ágreiningsmál séu útkljáð í frjálsum samningum. Þessi alþjóðlegu fyrirtæki eru hins vegar vön því að yfirvöld geti vísað í mikla lagabálka máli sínu til stuðnings. Það má því alveg draga þá ályktun af atburðarásinni að þörf sé á styrkja löggjöfina og setja stífari reglur um eftirlit en mér finnst æskilegt. Mér finnst affarasælast að ræða málin og semja um þau eða vísa þeim til Félagsdóms ef ekki semst.

Ingvar: Félagsdómur hefur fyrst og fremst það hlutverk að úrskurða um ágreining sem varðar túlkun kjarasamninga en þarna er um að ræða erlent fyrirtæki með allt að þúsund manns í vinnu sem telur að kjarasamningurinn sé því óviðkomandi. Þessi hefðbundnu úrræði hafa því ekki dugað gagnvart þessu fyrirtæki. Hins vegar get ég alveg tekið undir með Gissuri um að við höfum engan áhuga á að innleiða lögreglueftirlit með vinnumarkaðnum vegna þess að það kostar sitt, auk þess sem erfitt getur reynst að finna meðalhófið í eftirlitinu.

Þorbjörn: Mér finnst fróðlegt að bera saman starfshætti Vinnumálastofnunar og Samkeppnisstofnunar vegna þess að félagsleg undirboð snerta samkeppnisstöðu fyrirtækja. Við höfum fylgst með tíðum kærumálum, til dæmis hjá símafyrirtækjunum, vegna þess að menn fóru ekki að samkeppnislögum en það er eins og það gildi eitthvað annað um félagsleg undirboð. Þá eru engin tæki til að taka á þessu. Þó er verið að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja með því að undirbjóða vinnuaflið.

 

Hvað eru félagsleg undirboð?

 

Ingvar: Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Impregilo stundar þjónustustarfsemi hér á landi og að fyrirtæki hafa fullt frelsi til þess að stunda hana þvert á landamæri samkvæmt EES-samningnum. Þó er það háð því skilyrði að fyrirtækin virði lög og reglur og gildandi samninga í því ríki sem þeir starfa. Þetta hefur áhrif á samkeppnisstöðuna og þess vegna hefði maður haldið að íslenska ríkinu bæri skylda til að tryggja að fyrirtæki sem eru að nýta sér þetta frelsi virði þær reglur sem hér gilda.

Þorbjörn: Spurningin er hvaða stjórnvald á að gera það.

Ingvar: Það hlýtur að vera Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið, lögreglan og fleiri stofnanir.

Gissur: Er það ykkar skoðun að þarna hafi verið um félagsleg undirboð að ræða?

Ingvar: Já, hiklaust. Þegar menn koma inn á nýjan markað eiga þeir að kynna sér hvaða kjör eru ríkjandi þar. Allt sem víkur frá því kallast félagsleg undirboð.

Gissur: Þarna ert þú að tala um markaðslaun en í evrópskum rétti er alls staðar talað um lágmarkslaun. Þetta er grundvallaratriði. Á íslenskum vinnumarkaði hefur það tíðkast lengi að greiða mun hærri laun en taxtar kveða á um. Það gildir um virkjanastörf eins og önnur því þau hafa verið eftirsótt. Þá kemur upp sú staða að fyrirtækið býður kaup samkvæmt kjarasamningi en fær engan Íslending til að vinna upp á þau býti. Þess vegna myndast þessi þrýstingur á að flytja inn erlent vinnuafl. Er þetta félagslegt undirboð?

Ingvar: Félagsleg undirboð eru ekki lagalegt hugtak en evrópskir samningar hafa það markmið að stuðla að framförum en miðast ekki við að menn séu alltaf að skrapa botninn og greiða lægstu hugsanlega taxta.

 

Sameiginlegt verkefni

 

Þorbjörn: Það eru félagsleg undirboð þegar svona stórt fyrirtæki kemur inn á íslenskan vinnumarkað og hótar að flytja inn erlent vinnuafl ef það fær ekki menn til að vinna á lágmarkstöxtum. Þetta er þegar farið að hafa áhrif á launakjör fyrir austan og í þeim starfsgreinum sem þarna eiga hlut að máli. Það er engin eftirspurn eftir íslensku vinnuafli fyrir austan og íslensk fyrirtæki eru farin að flytja inn erlent vinnuafl í sívaxandi mæli. Einhvern tíma hefði verið komin mikil spenna á vinnumarkaði þegar þúsund manna vinnustaður verður skyndilega til en sú er ekki raunin núna. Spurningin er hvort við þurfum ekki að laga kjarasamningana að þessum veruleika. Það er oft talað um að einn helsti kostur íslensks vinnumarkaðar sé sveigjanleiki en það er vafamál hvort hann fær staðist við þessar aðstæður.

Gissur: Mér finnst það umhugsunarefni hvort þessi aðferð, að semja um taxta sem ekki eru greiddir nema í undantekningartilvikum, sé rétt. Af hverju er þetta svona? Skyldur okkar í Vinnumálastofnun einskorðast við það að greitt sé samkvæmt samningum og þegar vísað er í þessa lágmarkssamninga höfum við engin svör.

Ingvar: Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni launafólks og fyrirtækja að fylgjast með því að ekki sé verið að skekkja samkeppnisforsendurnar. En þegar það gerist í þetta miklum mæli þá hljótum við að þurfa að hafa eitthvert stjórnvald sem getur gripið inn í, rannsakað og kært til lögreglu ef ástæða er til, jafnvel stöðvað framkvæmdir eftir atvikum.

Þorbjörn: Við verðum líka að átta okkur á því að þegar við erum með kjarasamninga til fjögurra ára getum við lent í erfiðleikum með að grípa til aðgerða til að knýja á um lausn á aðsteðjandi vanda. Þegar svo háttar til verður einhver að vera til sem kemur okkur til aðstoðar. Með þessu erum við ekki að víkja okkur undan því að leysa málin því við kjósum auðvitað að leysa málin með samræðum og samningum.

 

EES-svæðið stækkar

 

Samkvæmt EES-samningnum er flæði vinnuaflsins frjálst og því geta íslensk stjórnvöld í rauninni ekki haft nein afskipti af innflutningi vinnuafls frá EES-löndunum. Öðru máli gegnir um lönd utan EES-svæðisins. En nú er EES-svæðið að stækka á næsta ári og þá nær það til landa á borð við Pólland og Eystrasaltslöndin en þaðan er töluverð ásókn inn á íslenskan vinnumarkað. Hafa menn eitthvað hugleitt viðbrögð við þessum breytingum?

Gissur: Það á sér stað mikil umræða um þetta í öllum EES-ríkjunum og það er víða verið að grípa til aðgerða svo menn geti haft betri stjórn á innflutningi vinnuafls frá nýju aðildaríkjunum. Ég er hlynntur því að við gerum slíkt hið sama, ekki síst í ljósi þess að hér ríkir ekki eðlilegt ástand á vinnumarkaðnum og mun ekki gera næstu 4–5 ár, meðan þessar stórframkvæmdir eru í gangi. Það eitt er næg ástæða til þess að við reynum að hafa möguleika á að stjórna þessu. Eins og sakir standa höfum við ekki mikla möguleika á að hafa eftirlit með innflutningi vinnuafls frá EES-ríkjunum. Það er að vísu tilkynningaskylda en ekkert umfram það.

Þorbjörn: Við höfum möguleika á að fresta gildistöku ákvæðanna um frjálst flæði vinnuafls í tvö ár og jafnvel lengur. Ég vona að íslensk stjórnvöld notfæri sér þá heimild meðan toppurinn er fyrir austan.

Ingvar: Þetta þyrfti að tilkynna strax og í því felst engin áhætta því það er hægt að afturkalla frestunina hvenær sem er.

Gissur: Það kom mér á óvart að sjá að mörg af stóru Evrópusambandsríkjunum eru þegar búin að fresta gildistöku þessara ákvæða. Úr því að þau gera það ættu smærri löndin ekki síður að hafa ástæðu til að gera það.

 

 

Starfsmannaleigurnar

 

Þorbjörn: Það er hins vegar að verða til nýr veruleiki sem ekki var þegar EES-samningurinn var gerður en þar á ég við starfsmannaleigurnar. Stærsti vandinn sem við er að eiga er þegar starfsmaðurinn er í ráðningarsambandi við eitthvert fyrirtæki úti í Evrópu en ekki fyrirtækið sem er með verkefni hér á landi. Leigurnar gera samninga við mennina á allt öðrum forsendum en hér gilda og þeir fá ekki einu sinni greidd laun hér á landi. Við þurfum að skoða þetta með það í huga hvort ekki er þörf á að setja reglur um starfsmannaleigurnar.

Ingvar: Þessar leigur hafa vaxið hröðum skrefum í mörgum Evrópuríkjum en starsfemin hefur mest verið innan hvers ríkis. Þar hefur verið töluverð umræða um nauðsyn þess að setja reglur um starfsemi þeirra. Portúgölsku leigurnar eru dálítið sér á báti og fyrst þær eru farnar að hasla sér völl hér á landi hljótum við að kalla eftir því að settar séu reglur um þær. Það verður að vera hægt að ná utan um þær.

Gissur: Ég get alveg tekið undir með ykkur í því að það þarf að setja reglur um þessa starfsemi og það er reyndar verið að skoða hvað gert hefur verið í öðrum löndum.

Þorbjörn: Þetta snýst að hluta til um það hvort verið er að komast hjá því að greiða skatta af launum en einnig um það hvort verkalýðsfélögin geta haft eðlilegt eftirlit með því að mönnum sé greitt samkvæmt samningum. Barátta okkar í sumar og haust snerist um það síðarnefnda. Við vorum að styrkja stöðu trúnaðarmannsins gagnvart erlenda fyrirtækinu.

 

Er sagan að endurtaka sig?

 

Þetta er rétt að byrja fyrir austan því það á eftir að fjölga um helming. Þá mun reyna á hvort samkomulagið heldur. Hafið þið trú á að það dugi til að halda utan um það sem á eftir að gerast?

Þorbjörn: Þetta samkomulag einskorðast við þetta eina fyrirtæki, Impregilo, og er raunar hálf-spaugilegt því það snýst um að fá fyrirtækið til að fylgja þeim reglum og samningum sem það hefur skuldbundið sig til að fylgja. Það vantar alveg viðbótarlaunin inn í þennan samning. Það er næsta verkefni. Það segir sína sögu að íslenskir iðnaðarmenn sem vinna hjá Impregilo verða taldir á fingrum annarrar handar. Það er búið að reisa þorp fyrir þúsund manns en þar eru sárafáir Íslendingar vegna þess hvað launin eru lág. Þessu þarf að taka á.

Er ekki hætta á að sagan endurtaki sig í hvert sinn sem nýr undirverktaki haslar sér völl á svæðinu?

Ingvar: Það fer eftir því úr hvaða menningarheimi hann kemur. Ef um þýskt fyrirtæki er að ræða getur maður vonað að þetta verði í lagi.

Gissur: Ég get tekið undir þetta því það virðist vera allt annað uppi á teningnum hjá bandaríska fyrirtækinu sem ætlar að reisa verksmiðjuna. En ég held að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við erum á hraðri leið inn í alþjóðavæðinguna og hún kallar yfir okkur harðneskjulegra umhverfi en við erum vön. Aðrar þjóðir hafa hins vegar mátt lifa við slíkt umhverfi um nokkurt skeið. Mér finnst hins vegar að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verði að taka höndum saman um að tryggja að frjálshyggjan leiði ekki til þess að öllum kjarasamningum og öðrum samningum sem gerðir hafa verið sé ýtt til hliðar. Við búum í norrænu velferðarsamfélagi og eigum að halda því uppi en ekki að breyta samfélaginu í eitthvert bananalýðveldi. Þetta þurfa stjórnendur Landsvirkjunar að hafa í huga þegar þeir eru að taka tilboðum í verk. Þeir þurfa að huga að sögu fyrirtækisins og hvernig starfshættir þess eru.

Þorbjörn: Þarna kemur Gissur að mjög mikilvægu atriði. Við megum ekki láta Kárahnjúkaverkefnið breyta öllum reglum á íslenskum vinnumarkaði bara vegna þess hvað það er stórt. Við höfum verið að glíma við þessa þróun áður en þetta verkefni hófst en í miklu minni mæli. Við verðum að ákveða hvernig við ætlum að lifa með henni. Við höfum engan áhuga á að loka landinu því við viljum sjálf hafa frelsi til að fara hvert sem er. En við viljum ekki láta erlenda verktaka brjóta niður það samfélag sem við höfum byggt upp. Þeir eru velkomnir ef þeir hlíta þeim almennu reglum sem hér gilda, rétt eins og við verðum að gera í okkar útrás. Íslensk fyrirtæki geta ekki hagað sér eins og þeim sýnist í öðrum löndum.

 

Starfsréttindi á undanhaldi?

 

Eitt er að hafa eftirlit með innflutningi vinnuafls en annað er að fylgjast með því að erlendir menn sem hingað koma hafi tilskilin starfsréttindi, megi vinna þau verk sem þeir eru ráðnir til. Hvernig er fylgst með því?

Gissur: Það er nú að ég held ekki í nógu góðum farvegi en eftirlitið með því er í höndum iðnaðarráðuneytisins og lögreglunnar.

Þorbjörn: Það er bundið í iðnaðarlögum og fleiri lögum hverjir mega gera hvað. Varla vildum við láta aðra en lækna skera okkur upp og helst viljum við að viðkomandi hafi gert það áður. Um þetta gilda því skýrar reglur og þær ná einnig til borgara af EES-svæðinu. En þótt það sé búið að reisa heilt þorp þá hafa ekki verið viðurkennd starfsréttindi eins einasta manns. Það er búið að veita fjölmörgum iðnaðarmönnum atvinnuleyfi en það hefði ekki átt að gera fyrr en þeir voru búnir að fá  starfsréttindi sín viðurkennd. Þeir hefðu getað komið sem ófaglærðir starfsmenn.

Ingvar: Í lög um atvinnuréttindi útlendinga vantar ákvæði um að atvinnurekandi verði að leggja fram hjá lögreglu pappíra um að viðkomandi sé með gild og viðurkennd starfsréttindi. Eins og lögin eru núna getur Vinnumálastofnun gefið út atvinnuleyfi og svo er fagfélögunum látið eftir að fylgjast með því hvort pappírarnir séu í lagi.

Gissur: Ég held að þessi starfsréttindi séu á undanhaldi, að í framtíðinni muni þetta ráðast í samningum manna á milli því það hljóta að vera hagsmunir hvers og eins að fá menn til starfa sem kunna til verka. En eins og lögin eru núna þá gildir annar skilningur á þessu.

 

Sýslumaður ráðalaus

 

Þorbjörn: Þetta snýst ekki um það hvort menn kunna til verka heldur er það svo í öllum löndum Norður-Evrópu að menn þurfa að staðfesta kunnáttu sína og starfsréttindi með viðeigandi pappírum. Núna stöndum við meira að segja  frammi fyrir því að Norðurlandabúar eru farnir að spyrja út í íslenska sveinsprófið. Það er ekki vegna þess að þeir viti ekki að íslenskir iðnaðarmenn hafa að baki lengra nám en sænskir heldur eru þeir að reyna að halda utan um starfsréttindin. Ég skil ekki af   hverju við ættum einir þjóða í okkar heimshluta að hafa allt galopið hjá okkur. Hvers vegna ætti fólk þá að sækja í starfsnám? Við höldum uppi hörðum vörnum fyrir starfsréttindi kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra stétta en hvers vegna gildir ekki það sama um iðnaðarmenn? Er það vegna þess að menn ætla að flytja þetta vinnuafl inn?

Gissur: Dettur Landsvirkjun í hug að byggja heila Kárahnjúkavirkjun með ófaglærðu vinnuafli?

Ingvar: Impregilo virðist alveg geta hugsað sér það.

Gissur: Er það ekki í verksamningum þeirra að verkið skuli unnið af mönnum með viðurkennd réttindi?

Þorbjörn: Nei, það held ég ekki. Landsvirkjun ræður menn til að fylgjast með og þeir skoða bara hvort verkið sé unnið í samræmi við verklýsingu. Logsuðumenn þurfa að fara eftir ákveðnum stöðlum og það er það eina sem fylgst er með. Þetta finnst okkur vera mál sem þarf að skoða en sýslumaðurinn á Seyðisfirði segist ekkert geta gert. Hann er búinn að skrifa Impregilo nokkur bréf en fær engin svör. Lögin eru þannig að það er engin refsing við að brjóta þau og þar með getur sýslumaður ekki gert meira. Við rekum okkur alltaf á að við höfum engan rétt og þess vegna gripum við til þess ráðs að reka málið í fjölmiðlum í sumar.

Gissur: Það getur haft önnur áhrif því þessi neikvæða umræða sem hefur verið í fjölmiðlum um Kárahnjúka dregur úr áhuga Íslendinga á að vinna þar.

– Og á þessum nótum um tvíbent eðli fjölmiðlanna lauk spjalli þremenninganna um erlent vinnuafl á Íslandi