Smáralindin er engin venjuleg bygging. Áður hafa ekki verið reistar stærri byggingar á Íslandi ef frá eru talin álverin. Samkvæmt upplýsingum byggingarstjórnar er gólfflötur 63 þúsund fermetrar og rúmmálið um 400 þúsund metrar í þriðja. Þarna verða fyrst og fremst verslanir en einnig fimm kvikmyndasalir, veitingahús og skrifstofur. Kostnaður er ennþá á huldu en heyrst hafa tölur frá 10 upp í 15 milljarða. Enginn veit hvar þetta endar því þegar þessi orð eru skrifuð eru fjörutíu dagar til stefnu og ljóst að ef áætlanir eiga að standast verður unnið í Smáralindinni allan sólarhringinn síðustu vikurnar fyrir opnun.
Að sögn byggingarstjórnar er ekki ólíklegt að flytja verði inn vinnuafl til að ná þessu marki og að um 1.000 til 1.200 manns verði við störf á lokasprettinum.
Fimmtán mánaða törn
Aðalverktakinn er Ístak og var hafist handa við að byggja húsið fyrir rúmum 14 mánuðum. Áætlaður byggingartími var 15 mánuðir. Þá mánuði sem liðnir eru frá því byrjað var á sökklum hafa starfað á vegum Ístaks á bilinu 250 til 400 manns í einu við að reisa húsið. Menn eru sammála um að verkið hafi gengið vel þótt sitthvað hafi farið úrskeiðis. Fá óhöpp hafa orðið á staðnum og framkvæmdin verið á margan hátt til fyrirmyndar. Meðal annars veitti Trésmiðafélag Reykjavíkur Ístaki viðurkenningu fyrir aðbúnað starfsmanna á staðnum.
Tíðindamaður Samiðnarblaðsins brá sér í heimsókn í Smáralindina fyrir skemmstu og tók púlsinn á mönnum sem þar voru við störf.
– Ég veit satt að segja ekki hvernig þetta mun ganga. Það dróst að við gætum byrjað hér um nærri tvo mánuði, segir Tómas Júlíusson garðyrkjumaður sem starfar hjá verktakafyrirtækinu Birni og Guðna, en þeir sjá um stóran hluta frágangs utanhúss.
– Nú sem stendur vinnum við tíu tíma á dag – við sjáum fram á miklu meiri vinnu í september og allt þar til opnað verður, segir Tómas, sem á bágt á með að trúa því að það takist að ljúka öllu verkinu fyrir 10. október eins um er talað.
Stór hluti Ístaksmanna var við vinnu utanhúss, enda mörgum verkum ólokið þar. Flestir voru að klæða húsið að utan, ganga frá þaki eða þakskeggi en aðrir að slá upp fyrir bílageymslu norðanmegin við húsið.
– Við erum að slá hér upp fyrir kanti, eins konar handriði hér á bílaplaninu, segir Gottskálk Vilhelmsson trésmiður og starfsmaður Ístaks. Félagi hans, Magnús Ingvarsson, segir að allt sé unnið í tímavinnu í húsinu á vegum Ístaks og honum er ekki kunnugt um að menn vinni í mælingu í Smáralindinni. Þeir félagar segja að heldur hafi dregið úr yfirvinnu hjá þeim, en meðan á uppsteypunni stóð hafi verið unnið á vöktum þannig að menn unnu sex daga og fengu svo þriggja daga frí. Þeir eru sammála um að verkið hafi gengið ágætlega. Þetta er svo sem bara eins og hver önnur uppsláttarvinna þótt allt sé hér svona í heldur í stærri kantinum, segir Gottskálk.
Við austurenda hússins eru tveir smiðir að gera sig klára til að fara upp í körfu sem lyftir þeim upp undir rjáfur þar sem þeir eru að setja upp grind fyrir gifsplötur.
– Það þýðir ekkert að vera lofthræddur í svona vinnu, segir Benedikt Kristjánsson aðspurður hvort ekki færi um menn þegar þeir eru að vinna í svona mikilli hæð. Félagi hans, Guðmundur Aðalsteinsson, samsinnir þessu og segir lyftuna nokkuð stöðuga. Þeir félagarnir eru frá Húsavík og starfa hjá fyrirtæki sem er undirverktaki hjá Ístaki.
– Við búum í vinnubúðum hér á staðnum ásamt fjölmörgum öðrum sem koma utan af landi og erlendis frá til að vinna við þessa byggingu. Við erum sjö frá Húsavík og vinnum í tvær og hálfa viku og eigum svo fjögurra daga frí, segir Guðmundur. Um lífið í búðunum segir Benedikt að það sé ágætt, Húsvíkingarnir haldi hópinn og geri sér ýmislegt til dundurs á kvöldin, til dæmis sé komin hefð á að fá sér ís á miðvikudagskvöldum og heimsækja nærliggjandi kaffihús á föstudagskvöldum. Ekki vildu þeir félagar tjá sig um hvort þörf væri á þessari byggingu en þeir voru sáttir við að hafa hér vinnu því lítið væri að gera fyrir norðan og útlitið í þeim efnum ekki gott.
Vetrargarður
Í suðausturhluta Smáralindarinnar er gríðarlega stórt opið rými sem á að heita Vetrargarðurinn. Inn af þessum garði verða veitingahúsin.
– Ég er að reisa hér pall fyrir væntanlega gesti veitingastaðar sem hér verður. Ætli við séum ekki búnir að vera hér í mánuð. Segir Hörður Skarphéðinsson trésmiður, starfsmaður Byggs. – Þetta er nú eina verkið okkar hér í Smáralindinni og ég geri ráð fyrir að yfirgefa staðinn fljótlega. Við vinnum hér í tíu tíma á dag í uppmælingu, segir Hörður.
Hagkaup leggur undir sig stórt svæði á neðri hæð í austurenda hússins og þar ætlar fyrirtækið að reka risaverslun á íslenskan mælikvarða.
Þegar tíðindamaður leit þar inn var ljóst að þeir Hagkaupsmenn voru langt á undan öðrum verslunareigendum með framkvæmdir í húsinu. Kannski helgast það af því að það mun taka tímana tvo að raða vörum í allar þessar hillur sem blasa við þegar inn í verslunina er komið.
Bjarni Kristinn Ámundason, Pétur Kristjánsson, Ægir Ólafsson og Arnar Bergmann blikksmiðir frá Funa sátu við borð úti við einn vegginn og gæddu sér á bakkamat.
– Við sömdum um að mæta til vinnu hér í Smáralindina í stað þess að fara í smiðjuna fyrst og við fáum hádegismat í staðinn, segir einn þeirra. Þetta er fínn matur, nú er lambasnitsel og súkkulaðistykki í eftirmat, bætir annar við. Þeir segjast vera í góðum málum, vinna þeirra gangi vel og ljóst að þeir muni klára sín verk eins og um var samið. Vinnutíminn hefur verið misjafn, allt frá tíu tímum á dag upp í tólf. Þeir segjast eiga gott samstarf við aðra iðnaðarmenn í húsinu og sé lítið um árekstra.
Fimm kvikmyndasalir
Austurendi hússins verður væntanlega sá staður sem flestir leggja leið sína um þegar þetta musteri eyðslunnar verður opnað. Auk Vetrargarðsins og veitingahúsanna eru kvikmyndasalirnir þar niður komnir.
– Við erum að setja niður grindur fyrir sætaraðirnar. Þetta er heilmikið verk, segir Magnús Karlsson járnsmiður hjá Stálafli þar sem hann er staddur í einum af fimm kvikmyndasölunum sem þar eru í byggingu.
Hann segir að þeir vinni tíu tíma á dag og er bjartsýnn á að þeim takist að ljúka sínum verkum á réttum tíma.
Eins og í öllum álíka verslunarmiðstöðvum er langur gangur í Smáralindinni þar sem ýmsar sérverslanir raða sér niður á tveimur hæðum, ekki ósvipað því sem menn þekkja frá Kringlunni. Yfir þessum gangi er mikill gluggi sem gefur góða birtu og setur svip á rýmið.
Þegar horft er vestur eftir þessum gangi á öll þau rými sem þar er að finna ókláruð er ekki laust við að maður efist um tímasetningarnar í þessu máli. Ef þetta tekst hins vegar þá verður ekki annað hægt en að taka ofan fyrir öllum þeim sem hér leggja hönd á plóg.
Óskar Brynjólfsson málari stóð í dyragættinni við eitt rýmið. – Skífan á þetta pláss og við vinnum fyrir þá, segir hann. – Þetta fer nú rólega af stað. Hér þarf að sparsla heilmikið og ljóst að við verðum að næstu vikurnar, segir hann en bætti við að hann reiknaði ekki með neinum látum.
– Við höldum þessu innan okkar vinnutíma sem er vanalega þetta frá átta til sex, segir Óskar.
Þótt aðeins séu til stefnu fjörutíu dagar til að ljúka verkum var tiltölulega rólegt yfir mönnum þennan þriðjudag sem tíðindamaður blaðsins leit inn. Margt hefur breyst frá því hann var handlangari hjá byggingarverktaka fyrir þrjátíu árum. Byggingarvöruverslun búin að setja upp útibú á staðnum, auglýsingar útum allt frá öðru þar sem boðið er upp á hraðsendingarþjónustu. Reglum um öryggismál hart fylgt eftir. Og stranglega bannað að kasta af sér vatni nema á þartilgerðum stöðum. Ströng gæsla við allar inngönguleiðir og menn ávítaðir þegar ekki var farið eftir settum reglum.
Þetta gríðarlega mannvirki á vafalaust eftir að vera milli tannanna á fólki næstu mánuðina og jafnvel árin. Menn munu meðal annars deila um nauðsyn þess og hversu mikinn þátt það á í núverandi og væntanlegum viðskiptahalla þjóðarinnar. Hvort sem þörf er fyrir þessa byggingu eða ekki er ljóst að menn verða reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í að reisa þessa miklu höll – og marga munar um verklaunin.