Íslenskt velferðarkerfi byggist á þeirri grunnhugsun að allir eigi að fá sem jöfnust tækifæri til menntunar, heilbrigðis og afkomu án tillits til efnahags eða kynferðis. Í íslensku samfélagi hefur ríkt nokkuð góð sátt um þessi markmið. Á síðustu misserum hafa æ fleiri komið fram og lýst þeirri skoðun sinni að það sé verið að hverfa frá þeim félagslega jöfnuði og þeirri afkomutryggingu sem velferðarkerfið hefur byggst á.
En er það svo að grunnstoðir velferðarkerfisins séu að gefa eftir?
Já, grunnstoðir velferðarkerfisins eru að gefa eftir. Í því sambandi má benda á:
l Vaxandi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu
l Aukna þátttöku sjúklinga í lyfjaverði
l Óbeina kostnaðarþátttöku nemenda í skólum
l Að lífeyrir frá almannatryggingum er undir lágmarks-
framfærslu
l Að lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki
haldið verðgildi sínu
l Að fatlaðir og geðsjúkir fá ekki lögbundna þjónustu
l Aukna skattbyrði á lágtekjufólk
l Vaxandi þörf á aðstoð við fátækt fólk
l Aukinn húsnæðisvanda láglaunafólks
Allt eru þetta þættir sem hafa mikil áhrif á velferð fólks, eru afgerandi við jöfnun lífskjara og því undirstaða þess velferðarkerfis sem þjóðin er sammála um að viðhalda. Sé gengið á þessar grunnstoðir og dregið úr þeim réttindum sem þeim fylgja er ljóst að verið er að ganga á gæði velferðarkerfisins. Gott velferðarkerfi kostar mikla fjármuni úr sameiginlegum sjóðum og framtíð þess ræðst af þeirri sátt sem verður um ráðstöfun þeirra. Því er mikilvægt að traust ríki milli skattgreiðenda og stjórnvalda um þá ráðstöfun og að kerfið sé opið og gegnsætt. Verkalýðshreyfingin hafnar ekki endurskoðun á velferðarkerfinu en leggur áherslu á að forsenda slíkrar endurskoðunar er að styrkja grunnstoðir þess en ekki veikja, og að setja sérhagsmuni til hliðar.
Íslenskt velferðarkerfi hefur í gegnum áratugina orðið til fyrir þrotlausa baráttu íslenskrar verkalýðshreyfingar og hún er ennþá tilbúin að berjast fyrir því. Innan verkalýðshreyfingarinnar ríkir sá skilningur að velferðarkerfið skipti sköpum fyrir afkomu fólks og velferð, ekkert síður en kaupið sjálft. Þegar vegið er að velferðarkerfinu og dregið úr jöfnuði í samfélaginu er jafnframt vegið að íslenskri verkalýðshreyfingu.
Velferð og félagslegt öryggi er ekki eingöngu spurning um afkomu og afkomutryggingu heldur miklu meira. Að búa við velferð og félagslegt öryggi er mikilvægur þáttur í almennum lífsgæðum og mannréttindum. Þeir sem verða fyrir því að geta ekki verið þátttakendur í samfélaginu af efnalegum og félagslegum ástæðum búa við skert mannréttindi. Það er óviðunandi fyrir hreyfingu sem grundvallast á félagslegum jöfnuði og réttlæti að horfa á íslenskt velferðarkerfi saxað niður í anda auðhyggju. Verkalýðshreyfingin hyggst því á næstu misserum setja velferðarmálin á oddinn.
Í þeirri vinnu sem framundan er tekur hreyfingin fagnandi öllum þeim sem eru tilbúnir að leggja hönd á plóg.