Fullbúinn á tíu mánuðum
Fyrsta skólabyggingin sem reist er sem einkaframkvæmd hér á landi
Um síðustu áramót flutti Iðnskólinn í Hafnarfirði í nýtt húsnæði en þá voru einungis liðnir um 10 mánuðir frá því fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin. Nýja skólahúsið er við Flatahraun 12 og er 4.462 fermetrar að stærð.
Byggingin er á þremur hæðum, 2.200 fermetra jarðhæð en efri hæðir eru rúmlega 1.100 fermetrar að grunnfleti hvor. Á jarðhæð fer verkleg kennsla fram. Þær iðngreinar sem þurfa mikil aðföng eru í austurenda en aðrar eru að vestanverðu við inngang. Sunnan og austan við aðalhúsið koma skálar sem hýsa trésmíði og málmsmíði. Gerð bifreiðastæða og frágangi lóðar lýkur ekki fyrr en í sumar því fyrst þarf að rífa núverandi verknámshús.
Önnur hæð er ætluð fyrir stjórnun og þjónustu við nemendur. Vestan við stigahúsið koma skrifstofur skólans, afgreiðsla, kennarastofan og vinnuherbergi kennara. Austanvert á hæðinni eru matsalur kennara og samkomu- og matsalur nemenda, bókasafn, skrifstofa og aðstaða nemendafélagsins, eldhús og snyrting.
Á þriðju hæð eru 17 kennslustofur, þar á meðal hársnyrti-, tölvu- og teiknistofur ásamt geymslum, snyrtingu og öðrum nauðsynlegum þjónusturýmum.
Nýsir hf. á og rekur bygginguna
Við byggingu Iðnskólans í Hafnarfirði var í fyrsta sinn í sögu skólabygginga á Íslandi beitt svonefndri einkaframkvæmd. Hönnun byggingarinnar, framkvæmdir, fjármögnun og rekstur er í höndum einkaaðila sem áttu hagstæðasta tilboðið í útboði sem fram fór í fyrra, og leigja þeir skólanum húsnæðið í 25 ár. Hópur fyrirtækja hefur komið að þessu verkefni undir forystu Nýsis hf. sem mun eiga og reka bygginguna. Arkitektar hússins eru Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson, verktaki við bygginguna er Ístak hf. og Íslandsbanki annast fjármögnun.
Nýsir hf. sér um rekstur og viðhald skólahússins, lóðar og bifreiðastæða, annast húsvörslu og ræstingar, leggur til húsgögn og ýmsan búnað og semur við undirverktaka um ýmsa þjónustu. Þannig sér Gafl-Inn um rekstur mötuneytis og sölu á veitingum, öryggisgæslufyrirtæki hefur umsjón með öryggisgæslu og Gámaþjónustan hf. sér um sorphirðu og gámaþjónustu.
Tæknival hf. leigir skólanum allan tölvubúnað. Fyrirtækið annast uppsetningu og rekstur tölvukerfisins, sér um uppsetningu og uppfærslu á öllum hugbúnaði og tryggir rekstraröryggi hans. Gert er ráð fyrir að alls verði 44 nettengdar vinnustöðvar á staðarneti.
Eitthvað annað en við Borgarholtsskólann
Eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem einkaframkvæmd er beitt við byggingu skólahúsnæðis hér á landi og hefur þessi aðferð ekki verið alveg óumdeild. Pétur Maack starfsmaður Félags járniðnaðarmanna er þó ekki í vafa um ágæti hennar í þessu tilviki.
„Við vildum fá þennan skóla og hann reis á tíu mánuðum. Þá var hann tilbúinn og allar vélar og annar búnaður kominn á sinn stað. Það er eitthvað annað en hægt er að segja um Borgarholtsskóla sem byrjað var á fyrir sjö árum og er ekki fullbúinn enn,“ sagði Pétur.