Þeir eru stoltir af vinnustað sínum strákarnir í „Dokkinni“ eins og þeir kalla hana. Í opinberum plöggum heitir hún Flotkví nr. 3. Hafnfirðingar þekkja hana manna best því hún var lengi inni á gafli hjá þeim niður í miðbæ. Nú hefur hún verið flutt á sinn framtíðarstað á nýja hafnarsvæðinu sem er í uppbyggingu við Hvaleyrina. Flotkví nr. 3 varð fræg á Íslandi þegar hún slitnaði aftan úr dráttarbát sem átti að draga hana til Íslands hér um árið. Eins og menn muna voru það skipverjar á varðskipinu Ægi sem björguðu henni og komu til hafnar.
– Það er bjart yfir okkur hér. Við höfum næg verkefni og ekki annað að sjá en að svo verði áfram. Þetta er fínn vinnustaður, segir Jóhann Garðar Jóhannsson verkstjóri og „staðarhaldari“ í flotkvínni við tíðindamann Samiðnarblaðsins. Jóhann segir að um fjórtán menn vinni að staðaldri um borð, þó sé það nokkuð breytilegt eftir verkefnum. – Nú eru til dæmis fáir við vinnu þar sem flestir eru uppi í smiðju að gera við stýris- og skrúfubúnað grænlenska togarans Polar siglir sem er þessa dagana í kvínni.
Það er Vélsmiðja Orms og Víglundar sem á og rekur flotkvína en sú smiðja hefur rekið um árabil aðra litla flotkví og Drafnarslipp í Hafnarfirði. Alls vinna um fimmtíu manns hjá fyrirtækinu.
Þetta er ein stærsta flotkví á Norður-Atlantshafi og getur tekið upp skip sem eru 13.500 tonn að þyngd. Til viðmiðunar getur litla kvíin í Firðinum tekið upp skip sem eru 2.700 tonn og kvíin á Akureyri skip sem eru 5.000 tonn.
– Við bindum vonir við að með tilkomu kvíarinnar hér eigi eftir að fjölga verkefnum fyrir þá fjölmörgu sem vinna við skipaviðgerðir hér á landi. Sem dæmi má nefna að það eru miklir möguleikar á að stórir togarar sem stunda úthafsveiðar hér í nágrenni við okkur leiti til okkar, segir Jóhann og bendir á að fyrir stuttu hafi þeir tekið upp danskt varðskip sem stundar eftirlitsstörf við Grænland.
– Ef þessarar flotkvíar hefði ekki notið við hefðu þeir þurft að sigla til Danmerkur til þess að fá gert við veltiugga sem settur er út þegar þyrla lendir á þilfari skipsins. Tilkoma þessarar risavöxnu flotkvíar er tvímælalaust góð viðbót við þá þjónustu sem íslenskur skipaviðgerðariðnaður getur boðið, segir Jóhann.
Kvíin var smíðuð í Englandi og tekin fyrst í notkun þar árið 1968. Henni var fyrst og fremst ætlað að taka upp kafbáta breska flotans. Hún er 28 metra breið að utanmáli og 130 metra löng. Hliðarnar eru 12 metra háar frá gólfi og þar er að finna allt það sem skipasmíðastöð þarf á að halda, verkstæði, kaffistofur, skrifstofa, geymslur og búningsherbergi Einnig er að finna káetur um borð í þessari miklu flotkví sem ber þess víða merki að hún var smíðuð til þess að sinna þörfum breska flotans. Vafalaust hafa starfsmenn kvíarinnar fengið sinn rommskammt eins og aðrir sem gegna herþjónustu í flota hennar hátignar.
Kvíin hefur verið í notkun frá því í janúar og hafa þegar verið tekin upp sjö skip. Að sögn Jóhanns hefur hún staðist allar þær væntingar sem gerðar voru til hennar.
Galdurinn að baki flotkvíar af þessu tagi er að þegar henni er sökkt eru 36 tankar undir kvínni fylltir af sjó og sekkur þá kvíin eins djúpt og þarf hverju sinni. 16 metra dýpi er undir kvínni en vanalega þarf ekki að sökkva henni meira en um níu metra til þess að venjulegt skip geti siglt inn. Þegar skipið er komið inn er það skorðað með þar til gerðum búnaði, síðan er sjónum dælt út og kvíin lyftist aftur upp, nú með skipið innanborðs. Ef allt gengur að óskum tekur ekki nema um klukkustund að sökkva kvínni og eftir að skipið hefur verið skorðað fer aðeins klukkustund í að ná kvínni upp aftur.
Jóhann segir það einstaklega gott að vinna við skipaviðgerðir í flotkví. Gólfið sé slétt og því þægilegt að athafna sig. Mun betra en í venjulegum dráttarbrautum. Þá segir hann flotkvína skýla mönnum þegar veður eru vond. – Það er verulegur kostur eins og veðráttan hefur verið hér í Hafnarfirði að undanförnu, segir Jóhann að lokum.