Félag byggingamanna Eyjafirði skartar 100 ára sögu

Fyrir 100 árum komu nokkrir tugir trésmiða saman á Akureyri og stofnuðu Trésmiðafélag Akureyrar. Á þeim hundrað árum sem liðin eru frá fyrsta fundi þessara frumkvöðla í stéttarbaráttu trésmiða hefur margt breyst. Félagssvæðið hefur stækkað og spannar nú allan Eyjafjörðinn og jafnframt hefur nafni félagsins verið breytt og heitir það nú Félag byggingamanna Eyjafirði.  Í upphafi störfuðu bæði meistarar og sveinar innan vébanda félagsins en nú er það hreint sveinafélag byggingarmanna í Eyjafirði. Samiðnarblaðið minnist þessara tímamóta með norðanmönnum. Helgi Guðmundsson fyrrverandi formaður félagsins segir frá upphafinu og rætt er við þá Guðmund Ómar Guðmundsson núverandi formann, Guðmund B. Friðfinnsson varaformann  og Ármann Þorgrímsson sem gegndi formennsku í félaginu á sjötta áratugnum. Jafnframt er spjallað við nokkra félagsmenn við störf á svæðinu.

Uppgangstímar í höfuðstað Norðurlands
Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingamanna Eyjafirði, segir að félagið eldist vel og að framtíð þess sé björt

„Félagið hefur dafnað vel þau hundrað ár sem það hefur starfað. Nú eru um 330 byggingarmenn, sveinar og nemar, af öllu Eyjafjarðarsvæðinu skráðir félagar. Húsasmiðir, húsgagnasmiðir, skipasmiðir, pípulagningarmenn, málarar, dúklagningarmenn og einn múrari. Þetta er samstilltur hópur sem gaman er að starfa fyrir,“ segir Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingamanna Eyjafirði, FBE, en hann er jafnframt starfsmaður félagsins.

„Ég er búinn að vera hér í forystu í 23 ár. Á þessum tíma hefur félagið gengið í gegnum ýmsar breytingar. Árið 1992 var nafni þess breytt úr því að heita Trésmiðafélag Akureyrar í það sem nú er, Félag byggingamanna Eyjafirði. Jafnframt var félagið opnað öðrum byggingarmönnum en smiðum. Ég verð ekki var við annað en að almenn sátt ríki um þetta fyrirkomulag. Þótt menn tilheyri ólíkum faghópum eru allir við störf á sama vettvangi. Menn eru að fást við sömu félagslegu hlutina hvort sem þeir hafa lært trésmíðar, pípulagnir eða málaraiðn. Hér á þessu svæði þykir sjálfsagt fyrir sveina í byggingargeiranum að vera í stéttarfélagi. Við erum blessunarlega lausir við alla gerviverktöku hér fyrir norðan,“ segir Guðmundur, og bætir við að margir einyrkjar sem hafa haslað sér völl innan byggingariðnaðarins séu félagar. „Menn halda tryggð við félagið og sjá sér hag í því að tilheyra því.“

Guðmundur segir að góð tengsl séu milli stjórnar félagsins og félagsmanna. „Auðvitað vildi maður sjá fleiri virka í félagsstarfinu en virkni félaganna er vandamál sem verkalýðshreyfingin á við að etja um allt land. Það segir þó ekki alla söguna því nútímasamskipti fara líka fram í farsímum og tölvum og þau samskipti eru góð milli mín og félaganna.“

Uppgangur á Akureyri

„Hér á Akureyri hefur verið uppgangur á mörgum sviðum undanfarin ár. Allt frá árinu 1997 hefur verið nóg að gera fyrir byggingarmenn en þá hljóp mikill kippur í byggingarstarfsemi hér á svæðinu. Fram að þeim tíma var atvinnuástandið heldur bágborið. Stundum var tímabundið atvinnuleysi allt að 50% hjá byggingarmönnum. Nú er öldin önnur og allir hafa yfirdrifið að gera.“

Atvinnuástand á öðrum þéttbýlisstöðum við Eyjafjörð segir Guðmundur hinsvegar ekki eins gott. „Félagsmenn utan Akureyrar sækja mikið af sinni vinnu hingað inn til bæjarins.“

Guðmundur segir að bjartsýni ríki almennt í höfuðstað Norðurlands. Með tilkomu Háskólans á Akureyri hafi margt breyst.

„Mín skoðun er sú að helsti vandi landsbyggðarinnar sé hversu fá störf eru þar fyrir langskólagengið fólk. Ég er viss um að fleiri væru tilbúnir að setjast að á landsbyggðinni ef þar væru fyrir hendi fleiri slík störf. Við sjáum þetta hér eftir að uppbygging háskólans hófst og einnig við stækkun Fjórðungssjúkrahússins að háskólamenntað fólk hefur sótt hingað í auknum mæli í þau margvíslegu störf sem nú eru í boði. Tilkoma þessara starfa hefur reynst góð viðbót við atvinnulífið sem hér var, og sú staðreynd að hér er í boði atvinna fyrir fólk með háskólapróf hefur auðveldað mörgum fjölskyldum að flytjast norður þar sem báðar fyrirvinnunnar geta nú fengið atvinnu við hæfi. Hins vegar er hér verulegur skortur á störfum fyrir almennt verkafólk,“ segir Guðmundur.

Fjölbreytt verkefni

Guðmundur segir verkefni félagsins fjölmörg. „Félagsmenn leita hingað töluvert eftir ýmiss konar upplýsingum um kjarasamninga, tryggingamál og námskeið, svo nokkuð sé nefnt. Sem betur fer er ekki algengt að hér komi upp ágreiningsmál milli félagsmanna og atvinnurekenda. Þó er alltaf eitthvað um að menn eru ekki sammála um túlkun kjarasamninga. Upp til hópa eru þeir sem standa í atvinnurekstri hér heiðarlegir menn í heiðarlegum rekstri. Það er helst að upp komi alvarleg vandamál milli félagsmanna og fyrirtækja sem koma annars staðar frá og sækjast hér eftir verkefnum. Það eru þá yfirleitt smáfyrirtæki sem hafa hrökklast út af sínum heimamarkaði vegna vanefna,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að í seinni tíð hafi það bæst við verkefni félagsins að það veiti nú fjöldanum öllum af félagsmönnum sínum aðstoð við gerð vinnustaðasamninga. „Eftir að opnað var á gerð vinnustaðasamninga hafa fjölmörg fyrirtæki hér við Eyjafjörð gert sérstakan samning eða samkomulag við sína starfsmenn. Það er orðin hefð fyrir því núna að markaðurinn ákveði endanleg launakjör þótt samið sé um meginlínurnar á vettvangi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins,“ segir Guðmundur sem sat í samninganefnd Samiðnar við gerð nýlegs kjarasamnings fyrir sambandið.

Erfiðar samningaviðræður

„Þetta voru erfiðustu samningaviðræður sem ég hef tekið þátt í. Það var ljóst frá upphafi þessara kjaraviðræðna að Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja við okkur iðnaðarmenn fyrr en búið væri að semja við Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið. Í samningum við þau var lögð lína um launahækkanir og atvinnurekendur stóðu fastir á því að ekkert yrði samið umfram það. Okkur tókst að fá í gegn verulega hækkun á kauptöxtum okkar. Markmiðið með því var fyrst og fremst að koma í veg fyrir að hægt væri að ráða hingað til lands erlenda iðnaðarmenn og greiða þeim þau smánarlaun sem endurspegluðust í kauptöxtum okkar eins og þeir voru,“ segir Guðmundur. Nú sé sá möguleiki vonandi út úr myndinni og því ekki lengur eins freistandi fyrir atvinnurekendur að flytja inn erlent vinnuafl til að ganga í störf iðnaðarmanna hér á landi.

„Þær launahækkanir sem við sömdum um eiga varla eftir að halda í við verðbólguna eins og henni er spáð þessa dagana. Ég vona að þetta haldi samt sjó, að launaskriðið sem hefur einkennt undanfarin ár haldi áfram og að vinnustaðasamningarnir gefi af sér meiri kaupmátt til handa okkar félagsmönnum,“ segir Guðmundur.

Hann telur þann árangur sem náðist við að bæta lífeyrisréttindi Samiðnarmanna í samningunum hafi verið ákveðið skref fram á við.

„Lífeyrissjóðsmál okkar félagsmanna eru ekki í nægilega góðum farvegi. Það er ljóst að með hækkandi lífaldri standa sjóðirnir ekki undir skuldbindingum sínum. Mér sýnist að það vanti fleiri milljarða inn í það kerfi eigi það að geta sinnt hlutverki sínu. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið verði að leggja sitt af mörkum til þess að leiðrétta þann mismun sem er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og launafólks á almenna markaðnum. Við getum illa sætt okkur við að í landinu sé forréttindahópur sem nýtur ríkistryggðs lífeyris annars vegar og hins vegar launafólk sem þarf að lifa við það að lífeyrissjóðir þess geti ekki tryggt því sambærilegt ævikvöld,“ segir Guðmundur sem verður heitt í hamsi þegar talið berst að lífeyrissjóðakerfinu sem hann telur fulla þörf á að styrkja.

Bros færist hins vegar yfir andlit Guðmundar þegar talið berst að menntamálum félagsmanna FBE.

„Ef menn vilja teljast góðir iðnaðarmenn er nauðsynlegt fyrir þá að geta viðhaldið þekkingu sinni og bætt hana. Miklar framfarir eru á ýmsum sviðum mannvirkjagerðar og stöðugt bætast við ný efni og ný tækni. Því er það skylda okkar sem stéttarfélags að vera okkar félögum innan handar þegar kemur að sí- og endurmenntun. Við hér á Akureyri höfum reynt að uppfylla þessar kröfur og höfum í samstarfi við Menntafélag byggingariðnaðarins staðið fyrir fjölmörgum námskeiðum fyrir faghópa okkar hér á Akureyri. Undanfarin þrjú ár hafa rúmlega 100 félagsmenn sótt hér námskeið árlega á okkar vegum,“ segir Guðmundur sem vonar að enn eigi eftir að bætast í þann stóra hóp sem sækir námskeið á vegum félagsins. „Við stefnum á það að efla námskeiðahaldið og bjóða fjölbreytt námskeið í framtíðinni,“ segir hann og kveðst vera ánægður með þann áhuga sem byggingarmenn í Eyjafirðinum hafa sýnt endurmenntun.

Orlofshúsin

Rekstur orlofshúsa hefur verið snar þáttur í starfi verkalýðsfélaga hér á landi um árabil. Hvernig standa þau mál hjá FBE?

„Félagsmenn okkar hafa margir hverjir látið í ljós þá skoðun að þeir vilji fjölbreytni í þessum efnum. Nú vilja menn fara víðar, og við höfum því gripið til þess ráðs að leigja orlofshús af ferðaþjónustubændum og framleigja þau síðan félagsmönnum okkar. Þetta hefur gefist vel. Nú verðum við með hús á leigu í Minni Mástungu og er það fullbókað í sumar. Undanfarið hafa um 12% félagsmanna getað nýtt sér orlofshúsatilboð félagsins árlega. Við eigum íbúð í Reykjavík og orlofshús í Flókalundi og í Húsafelli,“ segir Guðmundur.

Um framtíð verkalýðshreyfingarinnar segir hann að erfitt sé að spá. „Það er ljóst að við verðum að eiga öfluga verkalýðshreyfingu til þess að veita mótspyrnu í því mikla róti sem nú á sér stað hér á landi og í veröldinni allri. Alþjóðavæðingin setur sífellt meira mark á líf fólks víða um veröldina og hún hefur þegar teygt anga sína hingað til lands. Einn birtingarháttur þessarar alþjóðavæðingar er að í ríkara mæli er reynt að troða á þeim réttindum sem launamenn hafa aflað sér með samtakamætti sínum. Aukið frjálsræði í viðskiptum hefur opnað fyrir ýmsa möguleika sem fyrirtæki notfæra sér til að komast hjá því að fylgja þeim reglum sem ríkja á viðkomandi vinnumarkaði. Norðmenn hafa til dæmis lent illa í svokölluðum póstkassafyrirtækjum. Nokkur dæmi eru þess í Noregi að fyrirtæki hafa komið inn á markað þar og tekið að sér verk, sum hver stór. Mörg þessara fyrirtækja hafa komið illa fram við starfsfólk sitt og ekki staðið við gerða samninga en þegar ganga á eftir efndum þá finnast fyrirtækin ekki. Það eina sem finnst er oftast póstkassi merktur viðkomandi fyrirtæki. Fyrirtækin flytja sig ört á milli staða og koma þannig í veg fyrir að hægt sé að sækja að þeim og ná til baka því sem þau svíkja starfsmenn sína um,“ segir Guðmundur, sem hvetur menn til að halda vöku sinni og standa vörð um sitt félag.

„Án öflugrar verkalýðshreyfingar er hætta á því að Kárahnjúkaklúðrið sé aðeins forsmekkurinn að því sem getur átt sér stað hér á landi því alltaf eru til menn sem einskis svífast í að skara eld að sinni köku. Þeirra takmark er að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur og koma í veg fyrir að hún haldi áfram að verja réttindi launafólks jafnframt því að sækja fram til nýrra sigra. Það er mikið í húfi, 100 ára barátta félaga okkar getur horfið á skömmum tíma ef við höldum ekki vöku okkar,“ segir Guðmundur Ómar Guðmundsson formaður hins aldna en þó síunga Félags byggingamanna Eyjafirði.

Ármann Þorgrímssson hefur víða komið við, meðal annars hjá FBE þar sem hann gegndi formennsku í nokkur ár á sjöunda áratugnum
Flutti eitt sinn tillögu um eigin brottrekstur

„Ég held að mér sé minnisstæðast frá þessum störfum þegar ég var plataður til að gegna formennsku í svokallaðri gervimannanefnd.“ Þannig mælir Ármann Þorgrímsson sem var í mörg ár félagi í Trésmiðafélagi Akureyrar, seinna Félagi byggingamanna Eyjafirði, og gegndi formennsku í félaginu í nokkur ár.

„Félagið setti þessa nefnd á laggirnar til að reyna að fækka þeim mönnum hér í bæ sem voru að smíða réttindalausir. Á þessum árum, uppúr 1960, var mikið um það að menn fengust við smíðar en höfðu ekki til þess réttindi. Það voru hér fyrirtæki og meistarar í bænum sem léku þann leik að ráða ófaglærða til smíðavinnu og borguðu þeim mun lægri laun en taxtar Trésmiðafélagsins sögðu til um. Þetta vildum við að sjálfsögðu stoppa og var ákveðið að skipa nefnd til að beita sér í því. Ég var aðkomumaður og það þótti grjótupplagt að etja mér á foraðið þar sem ég var hvorki í fjölskyldutengslum né kunningsskap við þessa menn sem stóðu í því að láta ófaglærða vinna verk okkar smiðanna,“ segir Ármann.

„Það sló oft í brýnu og nokkrum sinnum þurfti gervimannanefndin að kalla eftir liðsinni lögreglu til að stöðva þessi lögbrot. Heiftin var mikil í þessu. Einu sinni heimsótti mig heim á sunnudegi meistari sem hafði haft marga gervimenn í vinnu. Hann las mér pistillinn meðan hann dansaði stríðsdans mitt á stofugólfinu og fyrirgangurinn var svo mikill að ég minnist þess ekki að hafa lent í öðru eins,“ segir Ármann og þakkar fyrir að það var stofuborðið sem varð fyrir höggum meistarans en ekki sjálfur gestgjafinn.

Ármann er ættaður úr Norður-Þingeyjarsýslu. Hann lærði húsgagnasmíði hjá Trausta hf. sem var með verkstæði á Sæbergi á Melrakkasléttu en fluttist svo suður og vann þar meðal annars við uppbyggingu virkjananna í Sogi, aðallega í Steingrímsstöðinni. Leiðin lá síðan til Akureyrar þar sem hann hóf störf í húsgagnaverksmiðjunni Valbjörk sem þá var ein stærsta húsgagnaverksmiðja landsins. Eftir tveggja ára starf þar keypti Ármann fyrirtæki í félagi við aðra – Amboðaverksmiðjuna Iðju hf.

„Við framleiddum aðallega heyskaparamboð, svo sem hrífur og orf úr áli. Við skelltum okkur líka í vertakabransann og tókum þátt í byggingu Kísilgúrverksmiðjunnnar við Mývatn. Á þessum tíma voru tilboðin að ryðja sér til rúms hér á landi og við gerðum tilboð í að byggja 10 íbúðarhús sem reist voru fyrir verksmiðjuna í Mývatnssveit. Það reyndist ekki raunhæft og þar með voru endalok Iðju ráðin sem verktakafyrirtækis,“ segir Ármann. Eftir þetta ævintýri seldi hann hlut sinn í Iðju og stofnaði lítið húsgagnaverkstæði þar sem framleiddar voru hillusamstæður og ýmislegt fleira.

„Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að starfa hjá öðrum, hef alla tíð viljað vera minn eigin herra. Svona er þetta bara. Húsgagnaframleiðslan lognaðist svo út af hjá mér og þá gerðist ég kaupmaður. Stofnaði hverfisverslun hér úti í þorpi og rak hana ásamt konu minni í nokkur ár,“ segir Ármann. „En einu sinni á jóladag þegar við konan mín vorum á leiðinni í búðina að undirbúa opnun á annan í jólum, þá sá ég að þetta var bara tóm vitleysa. Við seldum búðina og þar með lauk mínum atvinnurekstri,“ segir þessi eldhressi húsgagnasmiður, sem eitt sinn bar upp tillögu sem formaður Trésmiðafélags Akureyrar um að reka sjálfan sig úr félaginu!

„Í upphafi voru félagsmenn í félaginu bæði meistarar og sveinar. Þegar ég var formaður á miðjum sjöunda áratugnum voru sveinar í afgerandi meirihluta félagsmanna. Það var mikil umræða innan félagsins um að gera það að hreinu sveinafélagi. Niðurstaða þessarar umræðu var sú að stjórninni var falið að semja ályktun um að einungis sveinar hefðu rétt á að vera í félaginu. Mér var sem formanni gert að bera upp þessa tillögu á aðalfundi og ég gerði það að sjálfsögðu. Væri hún samþykkt þá þýddi það að ég yrði rekinn úr félaginu þar sem ég var þá sjálfstætt starfandi. Tillagan náði fram að ganga og var félaginu svo skipt upp.“ Þar með lauk afskiptum mínum af Trésmiðafélagi Akureyrar nema ég fékk að greiða áfram inn í lífeyrissjóð þess.

Starfsmaður ráðinn

„Á þeim árum sem ég gegndi formennsku voru félagsmenn orðnir það margir að það þótti tímabært að félagið kæmi sér upp skrifstofu. Við ákváðum að ráða þangað mann í hálft starf. Hlutverk hans var ekki bara að sinna málefnum félagsins heldur einnig að fara yfir mælingar, en í þá daga var unnið samkvæmt uppmælingu hér á Akureyri. Ég minnist þess að það barst ein umsókn og hún var í bundnu máli, og hljóðaði svo:

Þó ég hafi litla lyst
og löngun mig ei hrjái par
ég hér með sæki um hálfsdags vist
við húsasmíðamælingar.

Mér var falið að svara umsókninni og fannst stjórnarmönnum ekki annað tilhlýðilegt en að umsækjandanum yrði svarað í sömu mynt. Og því orti ég þetta:

Lystin vex við lánsöm störf,
lífið hverfur þeim sem fasta.
Við mælingarnar þín er þörf.
Þú ert hér með ráðinn. Basta.
Viðsemjendur á huldu

Á þessum árum var ekkert almennilegt félag atvinnurekenda í byggingarstarfsemi hér á Akureyri og því var ekki hægt að semja við þá um kaup og kjör. Félagið okkar greip því til þess ráðs að auglýsa kauptaxta sína. Yfirleitt var þeim vel tekið. Þeir tóku að sjálfsögðu mið af því sem samið var um annars staðar. „Verkföll voru ekki tíð meðal trésmiða hér við Eyjafjörð. Ég minnist aðeins einna verkfallsátaka þann tíma sem ég starfaði með félaginu,“ segir Ármann þegar hann er beðinn að rifja upp kjarabaráttuna á þessum árum.

Ármann var við stjórn hjá félaginu þegar teknir voru upp lífeyrissjóðir fyrir almennt launafólk eftir kjarasamningana 1969. Hann segir það hafa verið mikið framfaraspor þegar samþykkt var að koma lífeyrissjóðunum á legg.

Áður var litið svo á að menn fengju greiddan lífeyri sinn sem hluta af laununum. Sjálfir urðu menn að gæta þess að leggja fyrir lífeyri sinn og það vildi verða misbrestur á þeim sparnaði, launin mismikil og sparnaður allur varasamur á þessum árum þegar verðbólga tröllreið þjóðfélaginu og brenndi upp peninga á bankareikningum. „Við börðumst fyrir því að greiðslur í lífeyrissjóð yrðu hluti af okkar launakjörum og að þær kæmu sem viðbót við launin. Okkur tókst að fá þetta í gegn en það kostaði okkur í raun launalækkun þar sem við fórnuðum launahækkunum fyrir lífeyrissjóðina.

Á þessum tíma hækkuðu laun ört í krónum talið þar sem veðbólgan var mikil og félagsmenn tóku þess vegna ekki almennilega eftir þessu. En ég man að mörgum okkar þóttu þau dýrkeypt, þessi lífeyrisréttindi. En nú hefur það sannast rækilega að þau áttu fullan rétt á sér,“ segir Ármann sem sjálfur lifir nær eingöngu á ellilífeyrinum, enda sunnudagur hjá honum alla daga eins og hann orðar það. Ármann lauk starfsævi sinni sem skoðunarmaður hjá Vátryggingafélagi Íslands árið 2004 eftir að hafa starfað þar í 5 ár.

„Það er nú ekki mikið sem maður hefur á milli handa þessa dagana. Rétt innan við hundrað þúsund krónur á mánuði. Í slíkri stöðu þarf maður að velta fyrir sér hverri krónu,“ segir Ármann en bætir við að hann sé heppinn að eiga sitt húsnæði skuldlaust og að þau skuli bara vera tvö í heimili.

Í ættfræðigrúski

Ármann segist lengi hafa haft áhuga á ættfræði og nú sé hann farinn að leggja stund á þau vísindi. „Konan segir að ég sé eins og ættfræðidópisti, en hún bætir gjarna við að hún viti jú alltaf hvar karlinn er, því mikill tími fer hjá mér í ættfræðigrúskið. Ég hef tekið að mér að skrá ættir einstakra manna fyrir Bændablaðið. Allt eftir pöntun frá þeim. Nú er ég að skoða ferðamálafrömuð af Suðurlandi og bónda að austan.“

Ármann er hagmæltur eins og fram hefur komið og hefur gaman af því að setja saman vísur. Hann hefur líka tekið ýmis þjóðþekkt ljóð og lagað þau að sinni heimsmynd, og við látum hér fylgja tvö erindi úr útgáfu hans af Áföngum Jóns Helgasonar sem Ármann segir eitt af uppáhaldsljóðum sínum.

  

Sorgmæddur yfir Suðurland
sjónum mínum ég renni.
Enn er þar barist um auð og völd
þó Eggerts í slóðir fenni.
Þó falli sumir í freistingar
og fingurna á sér brenni
súta ekki lengi sárin þeir.
Svona eru ofurmenni.

Kalt þó sé oft við Kárahnjúk
kraumar þó eldur neðra.
Útlendingar ei átta sig
á áhrifum galdraveðra.
Ítalir skilja ekki neitt
og alls ekki tungu feðra
en mörlandinn þumbast þrjóskur við,
þannig er lífið héðra.

Í leit að ímynd
Helgi Guðmundsson, fyrrverandi formaður Trésmiðafélags Akureyrar, rifjar upp aðdraganda þess að trésmiðir bundust félagsböndum fyrir réttum 100 árum

Um það leyti sem Trésmiðafélag Akureyrar er stofnað, árið 1904, búa innan við 1500 manns á Akureyri. Byggðin er í aðalatriðum lítill kragi meðfram ströndinni frá innbænum og niður á Oddeyri. Skilin milli ríkra og fátækra eru greinileg. Fjölskyldur daglaunamanna búa mestan part í þröngum húsakynnum, kjöllurum, háaloftum, skúrbyggingum og torfkofum. Aftur á móti setja mörg glæsileg timburhús sterkan svip á bæinn. Þau tilheyra máttarstólpunum, ekki síst kaupmönnum og þeim sem hafa nokkuð umleikis. Við byggingu þessara húsa hefur margur handlaginn verkamaður fengið vinnu og í bænum er talsvert af þeim. Ýmist hafa þessir menn formleg smiðsréttindi, í samræmi við lög frá 1893, eða þá að þeir hafa einfaldlega unnið lengi við smíðar og öðlast viðurkenningu sem slíkir. Bæjarfógetinn gefur út sveinsbréf og verða þeir sem ekki hafa lokið formlegu námi að sýna fram á með vottorðum að þeir hafi starfað nægilega lengi við smíðar til að fá bréfið útgefið.

Í hópi smiðanna eru byggingarmeistarar sem staðið hafa fyrir mörgum byggingum, stórum og smáum, menn sem reka smáverkstæði og enn aðrir smíða báta. Atvinnuöryggi er lítið, vinnutíminn áður 72 stundir á viku, frá sex á morgnana til sex á kvöldin sex daga vikunnar, en er nú kominn niður í 10 stundir á dag þegar vinnu er að hafa.

Stórbygging í undirbúningi

Í upphafi ársins 1904 stendur til að reisa nýtt hús yfir gagnfræðaskólann, sem áður var á Möðruvöllum en skólahúsið þar brann árið 1902. Yfirvöld ganga á milli húsasmiða og spyrja hvort þeir geti reist „hús eftir framkomnum teikningum fyrir 67.000 kr.“ eins og segir í 1. bindi af sögu Menntaskólans á Akureyri. Smiðirnir svara neitandi, hús með heimavist telja þeir ekki hægt að byggja fyrir þessa upphæð. Snorri Jónsson kaupmaður og húsasmiður gerir uppdrátt að húsinu og mun hafa tekið tillit til norskrar hönnunar á svokölluðum katalog-húsum. Yfirvöld samþykkja uppdráttinn en fela aftur á móti Sigtryggi Jónssyni byggingarmeistara að reisa húsið og þykir mörgum einkennilegt. Tekur hann verkið að sér fyrir 55.000 kr. og er samningur þar um undirritaður 29. apríl 1904. Er gert ráð fyrir að kennsla geti hafist í húsinu um haustið. Þegar samningurinn er undirritaður á Sigtryggur eftir að fara utan til að kaupa efni sem til þarf og koma því til Íslands og má af því sjá að smiðir hans hafa orðið að láta hendur standa fram úr ermum um sumarið. Þeir ljúka að sönnu ekki húsinu að fullu á tilsettum tíma en kennsla hefst um haustið og skólameistari flytur í íbúð sína fyrir áramót. Símasamband við útlönd var ekki komið á, ekkert rafmagn á Akureyri og allir flutningar á landi með hestum. Það má því kalla vel að verki staðið – jafnvel nú á dögum – að ekki skuli líða nema um 160 dagar frá því að samið er við Sigtrygg þangað til húsið er tekið í notkun.

50–60 stofnfélagar

Ekki liggur fyrir hverjir unnu að byggingunni en ganga má út frá að þar hafi verið samankominn talsvert stór hluti þeirra smiða sem stofnuðu Trésmiðafélagið. Að hve miklu leyti vinna við byggingu hússins stuðlar að stofnun félagsins er ekki ljóst, en til hennar þarf marga smiði eins og í pottinn er búið. Skilyrði til samtala um félagsstofnun eru því heppileg og í gögnum félagsins finnast staðhæfingar um að ágreiningur um kaup við bygginguna hafi ýtt við mönnum, en frekari heimildir liggja ekki fyrir að svo stöddu. Ekki er heldur vitað með vissu hvað stofnendurnir hafa verið margir en í bók með lögum félagsins og verðskrá, sem prentuð er hjá Oddi Björnssyni árið 1906, er skrá og undirskriftir 55 félagsmanna, en lögin og verðskráin eru samþykkt á félagsfundi 21. janúar 1906. Af þessum gögnum má því draga þá ályktun að 50 til 60 smiðir hafi stofnað félagið.

Sveinsbréf eða meðmæli tveggja

Af fyrstu lögunum er ljóst að félagið er ekki verkalýðsfélag í skilningi nútímans heldur samtök allra smiða sem vilja gangast undir lög þess. Í 2. grein félagslaganna segir að sá fái inngöngu í félagið

„sem trésmíði stundar og leggur fram: A. Sveinsbréf eða meðmæli tveggja þekktra trésmiða; B. Greiðir kr. 2,00 í ársbyrjun ár hvert, sem tillag; C. Skrifar undir lög og reglur félagsins í þar til gerðri bók, sem formaður hefur undir hendi; D. Að meiri hluti fundarins samþykki upptökuna.

Trésmiðapiltar hafa, ef þeir æskja þess, rétt til að sitja á fundum og málfrelsi, en eigi atkvæðisrétt.“

Tilgangur félagsins er „að efla og auka innbyrðis samvinnu meðal trésmiða í bænum og grenndinni“ eins og segir í 1. grein laganna. Jafnframt er tekið fram að hver félagsmaður sé skyldur „að láta félagsbræður sína njóta þeirrar trésmíðavinnu sem hann kann að hafa til umráða, en getur ekki afkastað sjálfur með lærisveinum sínum.“ Þegar félagatalið er borið saman við manntalið frá 1901 kemur í ljós að helstu „timburmeistarar“ bæjarins eru ekki í félaginu. Þess ber og að geta að skilin á milli sveina og meistara eru óglögg, því smiðir taka að sér allskonar verk upp á eigin spýtur en vinna svo hjá öðrum smiðum, sem eru verktakar, þess á milli. Í manntalinu eru 38 karlar titlaðir smiðir eða lærlingar í faginu. Gera má ráð fyrir að þeim fjölgi eitthvað næstu tvö til þrjú árin en þetta bendir til þess að á allra fyrstu árunum hafi langflestir starfandi smiðir í bænum verið í félaginu. Það virðist hafa látið talsvert til sín taka strax í byrjun því vitað er að það beitti sér fyrir stofnun Iðnaðarmannafélags Akureyrar haustið 1904.

Verðskrá í 257 liðum

Þetta skipulag felur í sér að ekki eru gerðir kjarasamningar á milli meistara og sveina en félagið samþykkir verðskrá og kauptaxta, þannig að „samningar“ um kaup fara fram innan félagsins. Kjaraákvæðið í 9. gr. laganna frá 21. janúar 1906 er þannig:

„Verðskrá þeirri, sem félagið hefir samþykkt og fylgir lögum þess, og hefir sama gildi, skulu félagsmenn vinna eftir. Vinnutími er ákveðinn 10 stundir á dag.

Eigi skulu félagsmenn vinna tímavinnu fyrir minna en 0,30 kr. um klukkutímann.

Minnsta kaup sem félagsmenn mega taka fyrir lærisveina sína eftir að þeir hafa útent sinn venjulega reynslutíma (3 mánuði), og eru fullra 18 ára, er kr. 0,15 um klukkutímann.“

Fyrsta verðskráin, sem er hrein akkorðsverðskrá, er ótrúlega yfirgripsmikil í 257 liðum. Með henni er verðlögð smíði á öllu mögulegu, allt frá kökukeflum og öðrum búshlutum til stórra húsa og verður ekki betur séð en byggja megi stærstu timburhús nánast að öllu leyti eftir verðskránni, þar með taldar innréttingar. Húsgögn og búshlutir eru verðlagðir með efni og vinnu og virðist sem álagið á vinnulaunin fyrir efni og öðru séu á bilinu 36–70%. Verðskráin fyrir smíði húsa tekur hins vegar einungis til smíðavinnunnar og miðast í aðalatriðum við það efni sem notað er.

Í þessari sömu bók eru líka tvær nýrri nafnaskrár. Hin fyrri sýnist miðuð við 19. janúar 1913 þegar félagið heldur umræðufund, þar sem meðal annars er rætt um hvort menn vilji halda félaginu áfram. Á fundinn voru boðaðir flestir smiðir bæjarins, hvort sem þeir voru í félaginu eða ekki, „að undanskildum nokkrum meisturum sem ekki hefðu viljað styrkja félagið undanfarið“ eins og segir í fundargerðabók. Á þeirri skrá eru 30 nöfn en á hinni þriðju, sem ekki er hægt að fullyrða frá hvaða ári muni vera, eru 63 félagar.

Kunnuglegt skipulag

Fyrsta aldarfjórðunginn gengur á ýmsu og stappar stundum nærri að félagið lognist útaf. Stjórnin sem kosin var á aðalfundi 1921, með Kristján Sigurðsson í formannssæti og Guðbjörn Björnsson (fyrsta formann TFA) sem ritara reynir fimm sinnum að boða til fundar árin 1923 og 1924 en aldrei verður fundarfært (engar fundargerðir eru færðar frá jan. ’23 til des. ’28). Stjórnin gefst þó ekki upp og boðar enn til fundar 10. desember 1928 og fær ásættanlega fundarsókn. Þá er ákveðið að fella niður félagsgjöld „sökum þess hvað lítið hefur verið starfað á undanförnum árum …“ Á þessum fundi eru sex af tólf löglegum félagsmönnum en sex dögum síðar, 16. desember, er aftur haldinn fundur og þá ganga 30 manns í félagið. Er nú freistandi að setja þennan fund í samhengi við annan sem haldinn er daginn eftir, þ.e.a.s. stofnfund Byggingameistarafélags Akureyrar. Ljóst er að félagsmönnum TFA þykir nokkuð við liggja því að á fundinum 16. desember er kosin þriggja manna nefnd til að endurskoða lögin. Ný lög eru síðan samþykkt á aðalfundi 26. janúar 1929. Í þeim segir í 5. grein:

„Enginn, sem er meðlimur í meistarafélagi hefur rétt til að vera í T.F.A.“

Þar með virðist vera komið upp kunnuglegt skipulag þar sem sveinar eru í sérstöku stéttarfélagi en meistarar í öðru. Á hinn bóginn þróast mál þannig þegar fram í sækir að lagaákvæðinu er ekki beitt og eru nokkrir meistarafélagsmenn árum saman í félaginu og sumir þeirra sitja í stjórn, eru jafnvel formenn. Aðferðin við ákvörðun kaupgjalds breytist heldur ekki í ríflega 60 ár – félagið samþykkir einfaldlega kauptaxta sem gilda skal á félagssvæðinu. Þessar ákvarðanir eru sjaldnast einfaldar eða þægilegar og stundum mjög sársaukafullar. Á fundi 27. janúar 1922 er til að mynda samþykkt „að tímakaup sé framvegis 1 kr. í stað 1,50 eins og verið hefir.“ Kaupið er með öðrum orðum lækkað um þriðjung og næst ekki upp í sömu upphæð aftur fyrr en 1935. Þessi taxti er ítrekaður ári síðar (1923) nema hvað taxtinn fyrir útivinnu er ákveðinn 1,25. Á sama fundi er samþykkt að heimila formanni „að gefa undanþágu fyrir þá menn í félaginu sem hann telur ekki geta unnið fullkomið vegna ellibilunar.“ Má fara nærri um að ekki hefur verið þægilegt að þurfa að sætta sig við sérstakt ótilgreint lágmarksaup fyrir gamla smiði með skerta starfsorku og er þá um leið rétt að muna að sjúkra- eða atvinnuleysistryggingar eru óþekkt fyrirbrigði. Síðar neyðist félagið til að slaka til um 5% af gildandi taxta gagnvart skipasmíðastöð KEA þegar Snæfellið er smíðað, en (tré)skipasmiðir hafa alla tíð verið í félaginu. Við byggingu Akureyrarkirkju fréttist að félagsmönnum séu greidd lægri laun en samþykkt kveður á um. Félagið óskar skýringa og lætur gott heita að smiðirnir gefi í kirkjubyggingarsjóðinn.

„… leitast fyrir um það með gætni“.

Sé litið yfir 6–7 fyrstu áratugina má segja að félagið stígi afar varlega til jarðar í kaupgjaldsmálum og ekki efnir það til verkfalla né vinnudeilna í bænum. Má kannski segja að það starfi lengi í anda samþykktar sem gerð er 15. apríl 1934:

„… kom í ljós að æskilegt væri að leitast væri við að fá meistara eða vinnuveitendur í iðninni til að samþykkja kauptaxtann. – Stjórninni falið að leitast fyrir um það með gætni og leggja skýrslu um árangurinn fyrir félagsfund.“

Þó fer ekki á milli mála að sveinar ráða í aðalatriðum ferðinni í félaginu og verkalýðsfélögin á Akureyri telja félagið eiga heima í heildarsamtökum verkafólks. Þannig býður Verkalýðssamband Norðurlands félaginu að senda fulltrúa á verkalýðsráðstefnu sem halda á í Reykjavík í nóvember 1930. Félagsfundur hafnar boðinu og þó það komi ekki fram í frásögn af fundinum sem fjallar um málið má ganga út frá að mönnum hafi ekki litist á blikuna og ekki viljað leggja nafn félagsins við það sem var á seiði. Miklar deilur voru komnar upp innan Alþýðusambandsins milli jafnaðarmanna og kommúnista. Kommúnistar voru mjög áhrifamiklir í verkalýðshreyfingunni á Akureyri, undir forystu Einars Olgeirssonar, og Kommúnistaflokkurinn fékk yfir 30% fylgi í kosningum í bænum á fjórða áratugnum. Niðurstöður umræddrar ráðstefnu leiddu til þess að Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður í byrjun desember 1930.

Á kreppuárunum eru kauptaxtar félagsmanna mjög svipaðir töxtum hinna ófaglærðu og trésmiðir verða ekki síður fyrir barðinu á langvinnu atvinnuleysi en verkamenn. Ákvarðanir um kaupgjaldsmál eru með tímanum oftar og oftar teknar með tilliti til taxta Trésmiðafélags Reykjavíkur og/eða verkalýðsfélaganna á Akureyri en félagið hefur sáralítil formleg samskipti við systurfélögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Formlegir kjarasamningar eru ekki gerðir við Meistarafélagið, en í kringum 1950 verða deilur sem skapast af því að verkstæðiseigendur, KEA og Vinnuveitendafélag Akureyrar neita að samþykkja auglýstan taxta félagsins. Vandinn er ítrekað ræddur á félagsfundum og ákveðið að falla frá auglýsingunni og reyna að ná formlegum samningum. Það tekst ekki og raunar eru menn svo að segja á einu máli um að ekki komi til greina að gera verkfall, þannig að þrýstingurinn á að gera samning er ekki mikill.

Í leit að ímynd

Allt þetta langa tímabil er því líkast að félagsmenn telji sig nánast eins og milli steins og sleggju – kannski eru þeir í einskonar leit að ímynd – á hvaða bekk eigum við að sitja? Á annan veginn er verkalýðshreyfingin, sem hvað eftir annað hikar ekki við að beita verkföllum – jafnvel stöðva allt gangvirki þjóðfélagsins – til að ná fram kröfum sínum, einatt rammpólitísk og ögrandi við máttarstólpa þjóðfélagsins. Hinum megin eru meistarar og verktakar í bænum sem stöðugt þurfa að gæta þess að ná til sín þeim verkefnum sem til falla í bænum, fyrir utan að keppa innbyrðis. Greinilegt er að í þessu vandasama samspili telja félagsmenn sig ekki eiga annan kost í stöðunni en beita lempni og fortölum en forðast átök. Návígið á milli meistara og sveina er líka mikið en auk þess er samstarf á milli sveina í öðrum greinum byggingariðnaðarins takmarkað, enda þótt múrarar og málarar hafi með sér félög. Vinnumarkaður byggingamanna á Akureyri er með öðrum orðum ekki það stór að hann skapi skilyrði fyrir hörð átök, eins og eiga sér alloft stað hjá verkafólki og sjómönnum.

Liðinu skipt

Eftir langt og strangt verkfall margra verkalýðsfélaga á vordögum 1955 eru gerðir kjarasamningar sem fela meðal annars í sér greiðslu atvinnurekenda í sjúkrasjóði iðnaðarmannafélaga. TFA hafði komið sér upp eigin sjúkrasjóði þegar á árinu 1940. Greiðslur til veikra félagsmanna höfðu að vísu verið teknar upp í einstaka tilfellum þegar á þriðja og fjórða áratugnum en þá var greitt beint úr félagssjóði.

TFA auglýsir taxta snemmsumars 1955, hina sömu og samið var um í verkfallinu, þar með talið að atvinnurekendur greiði 1% í sjúkrasjóði, en félög ófaglærðra tóku þessa prósentu í hækkuðu kaupi. Árið eftir gerir formaður grein fyrir því á aðalfundi að sjúkrasjóðurinn hafi vaxið um helming á árinu: „Þó er ennþá mikið útistandandi. En þetta virðist hafa farið í taugarnar á mörgum meistaranum, svo nokkrir hafa tilkynnt brottför sína úr félaginu,“ segir í fundargerð. Er nú runninn upp sá tími að fleiri og fleiri efast um ágæti þess að meistarafélagsmenn séu líka í Trésmiðafélaginu. Trésmiðafélag Reykjavíkur er orðið að hreinu sveinafélagi og er greinilegt að áhrifa frá þeirri breytingu gætir í umræðum félagsmanna TFA. Þó líða nokkur ár þangað til formleg tillaga kemur fram um að meistarar eigi ekki að vera í félaginu, en Einar Eggertsson, fyrirverandi formaður, flytur eftirfarandi tillögu á félagsfundi:

„Fundur haldinn í TFA 1. okt. 1964 telur hæpið að starfandi meistarar hafi atkvæðisrétt í TFA um sameiginleg mál beggja félaganna – BMFA og TFA – og beinir því til stjórnarinnar að finna einhverja lausn á því máli fyrir næsta félagsfund.“

Málið er stærra en svo að það verði afgreitt með ákvörðun stjórnar á milli funda, enda gerist ekkert í því um veturinn. Á aðalfundi 9. mars 1965 er það aftur tekið upp, en nú af stjórninni, með því að Ármann Þorgrímsson formaður kynnir tillögu um að enginn geti verið í félaginu sem sé félagi í meistarafélagi eða hafi meiri hagsmuni sem atvinnurekandi en launþegi „og skal stjórn TFA meta það hverju sinni og leggja úrskurð sinn fyrir næsta félagsfund, sem hefur úrslitavald í málinu“. Tillagan er nokkuð rædd en engin samþykkt gerð. Greinilegt er þó að hverju stefnir enda þótt menn séu langt frá því að vera sammála. Á fundinum verða allharðar umræður um tillöguna sem enda með því að samþykkt er tillaga frá Marinó Jónssyni þess efnis „að öllum sem fullnægja inntökuskilyrðum í TFA sé heimilt að vera í félaginu, meðan þeir ekki vinna gegn hagsmunum þess“. Tillagan er samþykkt mótatkvæðalaust, en leysir engan vanda – alltaf hefur verið ljóst að menn eiga ekki heima í félaginu ef þeir vinna gegn hagsmunum þess.

Hinn 3. júní 1966 kemur Jón Snorri Þorleifsson formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur á fund hjá TFA og segir meðal annars að nú standi félagsmenn á svipuðum tímamótum og félagsmenn Trésmiðafélags Reykjavíkur tólf árum fyrr – hvort gera eigi félagið að sveinafélagi. Á aðalfundi árið eftir er stóra skrefið svo loks tekið. Fráfarandi formaður, Ármann Þorgrímsson, flytur tillögu um að félagið sæki um inngöngu í nýstofnað Samband byggingamanna og Níels Hansson, sem kosinn er formaður á fundinum, aðra um úrsögn úr Landssambandi iðnaðarmanna. Báðar tillögurnar eru samþykktar með miklum mun. Á næsta aðalfundi er lögunum svo breytt í samræmi við þessar ákvarðanir. Síðan hefur félagið starfað eins og hefðbundið verkalýðsfélag, átt aðild að kjarasamningum og hagsmunastarfi byggingamanna á landsvísu, en ekki eru tök á að fjalla um það að sinni. Árið 1992 var nafni þess breytt í Félag byggingamanna Eyjafirði og það opnað fyrir sveinum úr öðrum greinum byggingariðnaðarins.

Málefnasamningur og ákvæðisvinna

Á sama tímabili og félaginu er breytt er líka verið að koma á málefnasamningi á milli TFA og Meistarafélagsins og taka upp ákvæðisvinnu á sem flestum sviðum. Menn verða þó fljótt óánægðir með málefnasamninginn og ákveða að segja honum upp strax haustið 1965. Gerður er nýr samningur svo að segja um leið. Hann er raunar felldur á félagsfundi 1. nóvember en samþykktur eftir lítilsháttar breytingar þremur vikum síðar. Fleiri stórmál eru í vinnslu, ráðinn er starfsmaður, félagið tekur húsnæði á leigu fyrir skrifstofu og síðast en ekki síst – stofnaður er Lífeyrissjóður trésmiða. Það mál var rætt um alllangan tíma og voru menn ekki á eitt sáttir. Vildu sumir taka þau 10% sem sveinar og meistarar áttu að greiða í sjóðinn beint inn í kaupið, aðrir vildu að félagið samþykkti fast gjald í sjóðinn, en að lokum er hann samþykktur í hefðbundu formi, sveinar skulu greiða 4% af launum í sjóðinn en meistarar 6%.

Ákvæðisvinnan er raunar kafli útaf fyrir sig. Hún náði aldrei almennri hylli meðal félagsmanna og um hana var viðvarandi ágreiningur og stundum harðar deilur, bæði innan félagsins og við atvinnurekendur. Henni hefur nú verið hætt á félagssvæðinu fyrir nokkrum árum.

Byggt á lögum og verðskrá Trésmiðafélags Akureyrar gefnum út á Akureyri 1906, fundargerðarbókum TFA 1913–1971, Manntali 1901, Sögu Menntaskólans á Akureyri í ritstjórn Gísla Jónssonar, blöðum á Akureyri frá árinu 1904 og Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason.

Brýnt að fræða ungt fólk um verkalýðshreyfinguna

„Það er nú það. Ég er nú ekki alveg með það á hreinu hvað ég er búinn að sitja lengi í stjórn. Upphaflega stjórnarsetu mína má rekja til miðs áttunda áratugar síðustu aldar,“ segir Guðmundur B. Friðfinnsson húsasmiður, varaformaður Félags byggingamanna Eyjafirði. „Eina embættið sem ég á eftir að gegna er staða ritara, ég er varaformaður, hef verið formaður og gjaldkeri,“ segir Guðmundur sem segist hafa byrjað að starfa með félaginu fljótlega eftir að hann fluttist til Akureyrar.

„Þegar ég fluttist hingað fór ég strax að vinna hjá Slippstöðinni sem í þá daga var gríðarstór vinnustaður, þar starfaði á fjórða tug smiða. Það þótti sjálfsagt að þessi stóri hópur ætti fulltrúa í stjórn félagsins sem þá var eingöngu félag trésmiða. Það æxlaðist svo að ég tók sæti fyrir hönd okkar hjá Slippstöðinni, og fyrst sem varamaður,“ segir Guðmundur sem sér ekki eftir þeim tíma sem hann hefur starfað fyrir félagið.

Hangikjötsfundirnir

Þegar hann er beðinn að rifja upp það merkasta sem hefur gerst á þessum tíma segir hann það vera þegar félagið festi kaup á húseigninni á Ráðhústorgi 3.

Eftir að félagið eignaðist samstað þar sem hægt var til dæmis að halda fundi og taka á móti félagsmönnum á viðunandi hátt breyttist margt hjá félaginu. „Við komum á hádegisverðarfundum, sem gengu undir nafninu hangikjötsfundirnir. Þar hittum við félagsmenn til að ræða málin. Við höfum reyndar haldið í þessa hefð og boðað félagsmenn til fundar í hádeginu þegar tilefni gefast,“ segir Guðmundur og segir þetta fyrirkomulag hafa reynst vel. „Stundum hafa mætt 70–90% félagsmanna á þessa fundi“.

Guðmundur segist kunna vel við sig á Akureyri, hann hafi upphaflega flust að sunnan með það fyrir augum að vera nyrðra eitt ár. „Nú eru árin orðin rúmlega þrjátíu svo það hlýtur að liggja í augum uppi að ég kann vel við mig hér.“ Hann hefur lengst af starfað hjá Slippstöðinni en einnig hjá Samherja og Járntækni.

„Ég er búinn að vera í skipunum allan minn starfstíma hér á Akureyri. Ég er enginn mótauppsláttarmaður – fékk nóg af því á námsárunum.

Guðmundur segir að stemmningin hjá Slippstöðinni sé á uppleið en það fyrirtæki hefur gengið í gegnum ýmsar hremmingar í tímans rás.

„Sem stendur er lítið að gera. Menn verða að láta sér dagvinnuna nægja. Það koma skorpur öðru hverju, aðallega rétt fyrir lok fiskveiðiársins og þegar trillurnar koma inn til viðgerðar í desember og janúar.“

Guðmundur segir að ekki liggi annað fyrir en að þeir sem starfi hjá fyrirtækinu muni halda vinnunni. „Það hefur verið skorinn niður kostnaður á ýmsum sviðum og vonandi dugar það til að halda þessu gangandi.“

Félagsmenn sáttir

Guðmundur segir að staða Félags byggingamanna í Eyjafriði sé sterk. „Ég verð ekki var við annað en að félagsmenn séu sáttir við starfið.“ Sjálfur segist hann hafa mikinn áhuga á að auka við tilboð félagsins á sviði orlofsmála. Þar sé ýmislegt ógert.

„Við þurfum að eignast fleiri orlofshús og þróa þá tilraun okkar að leigja orlofshús af ferðaþjónustubændum sem við síðan framleigjum til félagsmanna. Þetta hefur mælst vel við fyrir og ég tel við þurfum að bæta þar í.“

Þegar Guðmundur er beðinn að lýsa þeim breytingum sem orðið hafa þau ár sem hann hefur verið viðloðandi verkalýðsbaráttuna, segir hann margt hafa breyst og flest til batnaðar.

„Það sem mér finnst hinsvegar kannski mest sláandi er hvað ungviðið í þessu landi veit lítið um verkalýðsfélögin og fyrir hvað þau standa. Stundum skín í gegn hjá þeim að það eina sem þau vita er að það er eitthvert félag að taka af þeim félagsgjöld. Þeim er annt um sína peninga og skilja ekkert í þessu. Þegar ég var ungur maður voru allir með það á hreinu hvað verkalýðsfélögin stóðu fyrir og það var alveg klárt að öllum þótti sjálfsagt að tilheyra verklýðsfélagi. Ef verkalýðshreyfingin ætlar að eiga framtíð fyrir sér verður hún að taka á þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar að heildarsamtökin verði að leggjast í fræðslustarf í skólum landsins, bæði grunn- og framhaldsskólum, til að rétta við ímynd sína meðal unga fólksins,“ segir Guðmundur og bætir við að þeim peningum sem færu í það væri vel varið.

Guðmundur fagnar þeirri sameiningarþróun sem hefur átt sér stað hjá verkalýðshreyfingunni undanfarin ár. „Ég vil sjá víðtækari sameiningaráform. Okkur tókst að sameina lífeyrissjóðina hér á Norðurlandi í einn sjóð. Það var mikið framfaraspor og ég hefði viljað að iðnaðarmannafélögin sem stóðu að þeirri sameiningu hefðu borið gæfu til að sameinast sjálf í eitt öflugt stéttarfélag,“ segir Guðmundur sem telur að sá tími sé skammt undan að menn átta sig á nauðsyn þess að efna til víðtækari sameiningar. „Það gengur ekki til lengdar að fáeinir kallar séu að húka í smáfélögum úti um land allt.“