Tryggvi Þór Aðalsteinsson segir frá norrænna byggingarmanna um stækkun Evrópusambandsins
Hver verða áhrif fyrirhugaðrar stækkunar Evrópusambandsins austur á bóginn? Hvaða áhrif hefur stækkunin á vinnumarkaðinn í einstökum löndum og í Evrópu í heild? Þessar spurningar og fleiri tengdar þróun ESB voru til umræðu á ársfundi Sambands norrænna byggingar- og tréiðnaðarmanna, NBTF, sem haldinn var í Stokkhólmi nú í lok apríl. Þrettán lönd hafa sótt um aðild að ESB. Tíu þeirra eru ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Hin löndin eru Malta, Kýpur og Tyrkland.
Auk fulltrúa norrænna verkalýðssamtaka tóku fulltrúar atvinnurekenda þátt í umræðunum og sömuleiðis fulltrúi frá samtökum þýskra byggingarmanna. Í aðalatriðum voru ræðumenn jákvæðir gagnvart stækkun ESB, en nokkrir töldu aðlögunartíma nauðsynlegan, sérstaklega vegna vinnumarkaðarins í núverandi aðildarríkjum. Íbúar nýrra aðildarríkja ættu þannig hafa takmarkaðan eða jafnvel engan rétt til vinnu innan bandalagsins á meðan aðlögunartíminn varaði. Annars væri hætta á að verkafólk streymdi vestur yfir í atvinnuleit, og slíkt gæti skapað öngþveiti á vinnumarkaðnum. Fulltrúi samtaka þýskra byggingarmanna, Sabine Graf, var helsti talsmaður þessarar skoðunar. Hún lýsti þeim vanda sem skapast gæti í löndum eins og Þýskalandi og Austurríki sem eiga landamæri með ríkjum Austur-Evrópu. Í þessum löndum er andstaðan gegn stækkun bandalagsins mest og þýskir stjórnmálamenn tala ákveðið um aðlögunartíma. Forystumenn NBTF sögðust gera sér góða grein fyrir þeim vandamálum sem skapast kynnu í héröðum báðumegin við landamæri tveggja aðildarlanda ef kjör fólks eru mjög ólík. Slíkt veldur ójafnvægi á vinnumarkaði og þá getur verið nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana. Flutningur vinnuafls getur til dæmis leitt til þess að í einstökum ríkjum eða héröðum innan ríkja verði skortur á vinnuafli í vissum greinum.
Reynsla Norðurlanda
Flestir, svo sem Svíar og Danir, töldu litlar líkur á stórkostlegum vinnuaflsflutningi og ekki þörf á aðlögunartíma. Opinn vinnumarkaður er líka einn af hornsteinum Evrópusambandsins. Sé umsókn ríkis samþykkt beri hvorki að takmarka réttindi eða skyldur sem aðildinni fylgja. Bentu menn meðal annars á að þegar Spánn og Portúgal urðu aðilar að ESB hefðu svipaðar raddir heyrst. Þá óttuðust sumir að Spánverjar og Portúgalar mundu flæða norður yfir Evrópu, en svo varð ekki. Ennfremur var bent á áratuga jákvæða reynslu Norðurlanda af opnum vinnumarkaði. „Ástæða þess að fólk flytur til annars lands í atvinnuskyni er að í því landi er þörf fyrir vinnuafl,“ sagði einn þeirra sem talaði gegn sérstökum aðlögunartíma. Aðrir sögðu að betri laun í Vestur-Evrópu mundu lokka fólk frá nýjum aðildarlöndum óháð atvinnuástandi. Verkafólk í Austur-Evrópu mundi jafnvel vera reiðubúið að vinna fyrir mun lægri laun en giltu samkvæmt samningum og mundi heldur ekki sækja um aðild að stéttarfélögum. Í þessu sambandi var minnt á að lengi hafa tugir og hundruð þúsunda verkafólks dvalist og starfað ólöglega í ESB-löndunum. Margt af þessu fólki kemur frá þeim ríkjum sem nú hafa sótt um aðild að bandalaginu. Þessu var svarað með því að nú hillir undir að þetta sama fólk öðlist rétt til vinnu í vesturhluta Evrópu og þar með minnki svokölluð grá eða svört vinna. Verkalýðshreyfingin hefur sagt að forsendur þess að fólk fái vinnu í öðru landi sé að kjör þeirra verði ekki lakari en almennt í viðkomandi landi. Sömuleiðis að það gildi jafnt um þá sem koma tímabundið og hina sem komnir eru til lengri dvalar. Með því raskast síður samkeppnisstaða fyrirtækja og jafnræði ríkir meðal verkafólks í sömu atvinnugrein.
Friður og stöðugleiki
Þrátt fyrir að annmarkar og viss vandamál geti skapast á vinnumarkaði ESB vegna stækkunar sambandsins kom skýrt fram í ræðum manna á fundi NBTF að málið er þýðingarmikið út frá fleiri sjónarmiðum. Stækkun bandalagsins er stórt pólitískt mál sem mun hafa afgerandi þýðingu fyrir þróun mála í Evrópu um langa framtíð. Með stækkun ESB taka íbúar Evrópu mikilvægt skref í þá átt að tryggja lýðræði og mannréttindi, frið og stöðugleika sem og efnahags- og félagslega þróun í allri álfunni. „Grundvöllurinn er evrópska velferðarsamfélagið, sem byggist meðal annars á jafnrétti, lýðræðislegum starfsháttum á vettvangi vinnumarkaðarins og starfi frjálsra stéttarfélaga,“ sagði Bo Rönngren, fulltrúi sænska alþýðusambandsins.
Hlutverk verkalýðssamtakanna
Í umræðum á ársfundi NBTF var lögð áhersla á að ný og gömul aðildarríki Evrópusambandsins verði að uppfylla þau skilyrði sem verkalýðshreyfingin telur mikilvæg. Það gildir til dæmis um félagslegt öryggi þegnanna, umhverfismál og ekki síst kjör og aðstæður í atvinnulífinu. Bent var á að verkalýðssamtökin hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi og ganga út frá því að aðilar vinnumarkaðarins verði með í ráðum hvað varðar félags- og vinnumarkaðsmál í ríkjum bandalagsins. Hutverk verkalýðssamtakanna er einnig að styðja verkalýðsfélögin í þeim ríkjum sem sótt hafa um aðild að bandalaginu. Í mörgum þeirra eru verkalýðsfélögin veik og áhrifalítil og þurfa aðstoð. Af umræðunum að dæma eru NBTF og aðildarsamtök þess reiðubúin að taka virkan þátt í því starfi.