Batnandi samkeppnisstaða skipaiðnaðar

Nýsmíði til útflutnings hafin á ný eftir langt hlé

 

Ýmis teikn eru á lofti um að vænta megi betri tíðar í skipasmíðaiðnaði Íslendinga á næstu árum, ef marka má nýútkomna skýrslu um samkeppnisstöðu greinarinnar. Það sem einkum glæðir vonir manna er að opinber stuðningur við skipasmíðastöðvar í Evrópu er að leggjast af. Þá ber það við að í lok síðasta árs hófst nýsmíði fiskiskipa fyrir erlenda kaupendur sem legið hafði niðri um alllangt skeið og helgast það meðal annars af lækkuðu raungengi krónunnar.

Skýrsluna vann ráðgjafarfyrirtækið Deloitte & Touche fyrir Samtök iðnaðarins og iðnaðarráðuneytið en í henni er að finna úttekt á stöðu greinarinnar með tillögum til úrbóta og stefnumörkunar sem miða að því að byggja íslenskan skipaiðnað upp eftir langvarandi hnignunarskeið. Samdráttur í greininni var verulegur því á árunum 1987–94 minnkuðu umsvif í henni um 60%. Á þessum árum fækkaði ársverkum úr 900–1.000 í innan við 400. Síðan hafa tekjur greinarinnar vaxið nokkuð en miklar sveiflur einkenna hana eftir sem áður.

 

Allgóð sóknarfæri

 

Það eru sveiflur í gengi krónunnar sem verst hafa leikið skipaiðnaðinn en við þær má bæta háu vaxtastigi og erfiðleikum við fjármögnun verkefna og öflun rekstrarfjár. Aðgangur greinarinnar að fjármagni og ábyrgðum í útflutnings- og tryggingalánasjóðum er mun takmarkaðri hér á landi en fyrirtæki í Evrópu og Asíu búa við. Á innanlandsmarkaði hefur kvótasamdráttur og samdráttur í útgerð dregið úr eftirspurn eftir nýsmíði. Slæm samkeppnisstaða íslensks skipaiðnaðar hefur leitt til þess að meirihluti nýsmíðaðra skipa sem bæst hafa í íslenska flotann er smíðaður í útlöndum.

Að sögn skýrsluhöfunda er ýmislegt að breytast í rekstrarumhverfi íslensks skipaiðnaðar og því er haldið fram að hann ætti að geta orðið samkeppnishæfur á alþjóðamarkaði í smíði skipa frá 20–40 m að lengd. Því til staðfestingar er bent á að skipasmíðastöðin Ósey í Hafnarfirði er nú að smíða þrjú skip fyrir Íra og sex fyrir Færeyinga, flest á bilinu 20–30 m að lengd. Er talið að sóknarfæri séu allgóð fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar í smíði skipa fyrir smáútgerðir í nágrannalöndunum. Evrópusambandið hefur ákveðið að ríkisstuðningur við skipaiðnað skuli endanlega verða úr sögunni í árslok 2003. Það skapar íslenskum skipaiðnaði sóknarfæri sem þarf að nýta strax. Fyrirtækin þurfa að hefjast handa hið fyrsta og hasla sér völl í nágrannalöndunum meðan staða er fyrir hendi.

Samvinna og sér-

hæfing fyrirtækja

 

Í tillögum skýrsluhöfunda til úrbóta á rekstrarumhverfi skipaiðnaðarins er tekið mið af því sem til fyrirmyndar þykir í samkeppnislöndum Íslendinga. Stjórnvöld geta lagt sitt af mörkum með því að liðka til fyrir fjármögnun verkefna og styrkja starfsemi Tryggingasjóðs útflutningslána. Huga þarf sérstaklega að ábyrgðum til skamms tíma og að laga til í reglugerðarumhverfi greinarinnar sem á stundum gerir ekki ráð fyrir því að stundaður sé útflutningur á nýsmíðuðum skipum. Einnig er hvatt til þess að komið verði á samráði greinarinnar og stjórnvalda um framkvæmd opinberra útboða vegna kaupa á nýsmíði og þjónustu.

Þá hvetja skýrsluhöfundar til þess að samstarf fyrirtækja í greininni verði aukið, bæði í markaðssókn og með því að koma á sérhæfingu einstakra fyrirtækja við smíðarnar. Í því samhengi er bent á góða reynslu annarra þjóða, ekki síst Hollendinga, af fyrirtækjanetum og gagnkvæmri eignaraðild. Þarlendir hafa samið við Rúmena um að smíða fyrir sig   skrokka en svo taka hollensk fyrirtæki við og skipta með sér verkum við innréttingar og yfirbyggingu. Jafnframt þurfa fyrirtækin að vera í góðu sambandi við hönnuði og stunda þróunar- og gæðastarf í því skyni að auka innri endurbætur og hagræðingu í fyrirtækjunum.

Síðast en ekki síst þarf að styrkja menntun og símenntun starfsmanna í skipaiðnaði og bæta ímynd greinarinnar, að öðrum kosti verður þungt fyrir fæti við endurnýjun í greininni því ungt fólk laðast ekki að henni. Þar geta samtök atvinnurekenda og starfsfólks lagst á árarnar við eflingu iðnmenntunar.