Asbest draugurinn

Einn er sá draugur úr fortíðinni sem allir byggingarmenn þurfa að varast en það er asbestdraugurinn. Nú er nánast alfarið bannað að nota þetta hættulega efni en efnið hefur víða verið notað sem klæðning og til  einangrunar, og hér áður fyrr einnig í bremsuklossa bifreiða.

Asbest má enn finna í byggingum hér á landi og er ástæða til að vara menn alvarlega við þessu efni nú þegar unnið er víða að endurbótum á eldra húsnæði.

Sænskir byggingarmenn hafa hafið herferð hjá sér til  að vekja athygli félagsmanna á þessu hættulega efni. Í blaði samtakanna kemur fram að um 200 Svíar látast árlega af völdum asbestryks sem þeir hafa andað að sér. Asbestryk veldur krabbameini í lungum og einnig getur rykið í miklu magni valdið alvarlegum skemmdum á lungum.

Það hefur komið í ljós í Svíþjóð að mörgum, sérstaklega yngri mönnum, sem vinna í byggingariðnaði þar í landi er ekki kunnugt um hættuna sem fylgir því að anda að sér asbestryki. Einnig eru nokkur brögð að því að atvinnurekendur haldi því leyndu fyrir starfsmönnum sínum að þeir séu að vinna með asbest. Mjög strangar reglur gilda þar í landi og reyndar víðar um hvernig umgangast skuli asbest en svo virðist sem atvinnurekendur horfi í kostnaðinn sem fylgir því að fjarlægja asbest á viðurkenndan hátt.

Samkvæmt upplýsingum Vinnueftirlitsins er hér að finna svipaðar reglur og í Svíþjóð og er í þeim kveðið á um allar þær varúðarráðstafanir sem á að viðhafa þegar unnið er með asbest. Reglurnar má fá hjá Vinnueftirlitinu, þar á meðal á heimasíðunni www.ver.is. Reglurnar eru númer 379 og er rétt að benda mönnum á nauðsyn þess að kynna sér þessar reglur hafi þeir minnsta grun um að þeir séu að vinna með asbest.