Alþýðusambandið hefur náð vopnum sínum

Jafnvægi í hagkerfinu næstu misseri

Sá stöðugleiki sem náðist þegar tókst fyrir atbeina Alþýðusambands Íslands að halda verðlagi neðan rauðu strikanna endurspeglar jafnvægi í hagkerfinu og allar forsendur benda til þess að verðbólga verði tiltölulega lág næstu misseri.

Alþýðusambandið kemur sterkt út úr þessum slag og segja má að það hafi náð vopnum sínum, svipað og gerðist þegar þjóðarsátt náðist fyrir atbeina þess 1990.

Þetta er mat Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins. Hann telur þó að ekki sé hægt að útiloka að fyrirtæki ákveði að hækka verð til að auka hagnað sinn, þar sem álagning sé frjáls, en engar kostnaðarhækkanir séu þó sjáanlegar.

– En ef það gerist verðum við auðvitað að mæta því. Alþýðusambandið rekur áfram verðlagseftirlit og skapar fyrirtækjunum aðhald og það er áfram verk að vinna við að ná niður vöxtunum; þótt Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti og bankarnir fylgi þeim teljum við að þeir eigi að ganga lengra, vaxtamunurinn er mjög hár og full ástæða til að bankarnir lækki vextina enn meira en þeir hafa gert, segir Gylfi við Samiðnarblaðið.

Hann bendir jafnframt á að næst verði kjarasamningar endurskoðaðir í febrúar 2003 og auk þess hafi Samiðn og Rafiðnaðarsambandið óskilyrtan uppsagnarrétt á sínum samningum í desember í ár. Verkalýðshreyfingin getur því haldið áfram að skapa allan þann þrýsting sem þarf til þess að halda verðlagi í skefjum. Auk þess verða kosningar á næsta ári og Gylfi bendir á að sagan sýni að þá sé tækifæri til aðhalds, en kosningum fylgi líka ákveðin hætta.

 

Kosningaár er mesta ógnin

– Það er engin launung á því að það sem aflaga fór í stjórn efnahagsmála árin 2000 og 2001 má rekja til ákvarðana sem teknar voru í tengslum við kosningarnar 1999. Á kosningaári er skilningurinn og eftirgjöfin af hálfu alþingis því miður þannig að hætta er á að farið verði út í framkvæmdir eða ákvarðanir teknar til að auka auka fylgi flokkanna. Það er kannski það atriði sem er mesta ógnunin í núverandi stöðu. Mesta hættan er ekki frá fyrirtækjunum. Sá stöðugleiki hefur verið skapaður á öllum mörkuðum að þau eiga að geta plumað sig býsna vel í þessu ástandi. Hættan er fyrst og fremst fólgin í hækkunum á opinberum útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Það þarf að halda rétt á spöðunum til þess að sú spenna sem hefur verið í hagkerfinu á undanförnum árum endurtaki sig ekki, segir Gylfi Arnbjörnsson.

Miðsumars í fyrra, eftir að sú breyting varð að Seðlabankinn fylgdi ekki lengur fastgengisstefnu heldur lét verðbólguviðmiðun ráða gengi krónunnar, lét Alþýðusambandið til skarar skríða og og fékk atvinnurekendur í lið með sér. Árangurslaust var reynt að fá stjórnvöld til að grípa til aðgerða og sporna við lækkun á genginu, sem var orðin ískyggilega mikil. Viðhorf stjórnvalda og Seðlabankans var að þetta ætti að lagast af sjálfu sér, hagkerfið þyrfti að jafna sig eftir hina miklu umframeftirspurn áranna 2000 og 2001. En Alþýðusambandið sætti sig ekki við að láta markaðsmekanisma gjaldeyrismarkaðanna einan finna þetta jafnvægi, sér í lagi vegna þess hve fáir eru á þessum markaði og tilfinningar og væntingar hefðu meiri áhrif á hann en raunverulegar hagstærðir.

– Við bentum á að þess vegna yrði að grípa inn í. En við beygðum okkur undir að tekið væri tillit til markaðarins, að taka yrði tillit til þess sem væri að gerast í hagkerfinu. En það breytir ekki því að stjórnvöld eiga að stjórna. Ef ríkisstjórn hefur ekki skoðun á því hver sé framvinda efnahagsmálanna getur launafólk ekki axlað þá ábyrgð að kaupmáttur þess og lífskjör fari eftir því hvernig menn hafa það á einhverjum markaði. Við sögðum að ef svo færi sem horfði yrði að taka upp kjarasamninga í febrúar og leggja í samningalotu út frá forsendum hagsmuna launafólks, segir Gylfi.

Í desember, eftir sex mánaða þref, var loks gengið frá samkomulagi við stjórnvöld og atvinnurekendur um þá endurskoðun á kjarasamningum sem átti að fara fram í febrúar og um að seinka fram í maí þeirri viðmiðun sem þá átti að gilda, hinum svonefndu rauðu strikum, mörkum þess sem verðlag mátti hækka. Stjórnvöld lýstu yfir vilja sínum til þess að grípa til aðgerða til að auka gjaldeyrisinnflæði ef þörf yrði á, en til þess kom raunar aldrei.

 

Köld vatnsgusa

Ekki horfði þó vænlega í byrjun þessa árs, verðbólga var gríðarleg í janúar.

– Það var eins og köld vatnsgusa. Vísitalan hækkaði um tæplega eitt prósent í janúar og litlar líkur voru á að markmiðið næðist, segir Gylfi.

Eftir að stjórnvöld ákváðu að draga til baka þær miklu hækkanir sem urðu á opinberri gjaldtöku um áramótin, en stór hluti verðhækkananna átti rót að rekja til opinberra verðákvarðana, áttu forystumenn sambandsins fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaganna og allra stóru fyrirtækjanna. Þar lagði ASÍ ekki fram beinar kröfur um verðlækkanir heldur snerist umræðan um það hvernig það kæmi út fyrir rekstrarafkomuna ef verðbólgan yrði 18 prósent en ekki tvö prósent. Svolítið bar á þeim hugsunarhætti að væri verð hækkað til dæmis um fimm prósent í sjö prósenta verðbólgu væri raunverulega verið að draga úr verðbólgunni.

– En við bentum á að eftir nokkra mánuði kæmi sjö prósenta hækkun í níu prósenta verðbólgu og þannig væri verðbólguspírallinn kominn af stað, allir teldu sig eiga inni verðhækkanir. Við sögðum að ef þetta væri hugsunarhátturinn væri einfaldlega eðlilegast að opna kjarasamninga vegna þess að launafólk ætti auðvitað sína innistæðu eins og aðrir, þannig mundum við endurnýja þennan gamla vítahring sem tókst að rjúfa 1990. Það tók ekki nema sex mánuði að endurreisa öll gömlu rökin fyrir því að menn yrðu að vera fljótir að hækka til þess að brenna ekki inni með hækkanirnar.

Gylfi telur að Alþýðusambandinu og forseta þess, Grétari Þorsteinssyni, hafi tekist að skapa mikla stemmningu og breiða sátt í þjóðfélaginu um að að þessu bæri að vinna og það skilaði þeim árangri að rauðu strikin héldu í maí og útlit sé fyrir að þau haldi áfram. Gögn Hagstofunnar sýna að fólk hefur tekið beinan þátt í þessu, meðal annars með því að flytja innkaup sín á öllum sviðum frá háverðsverslunum til lágverðsverslana, sem átti sinn þátt í að slá á verðbólguna. Viðskiptahallinn hefur einnig dregist verulega saman, einkum og sér í lagi á þessu ári, sem var mikilvægt framlag til þess að ná tökum á verðbólgunni.

 

Bönd á verðbólguna

Gylfi telur að Alþýðusambandið hafi lagt mikið undir við að fylgja þessu eftir en ávinningurinn sé mikill, það skipti launafólk grundvallarmáli að bönd voru lögð á verðbólguna því fólk sé skuldsett og skuldirnar verðtryggðar. Miðað við að verðbólgan hefði verið þó ekki nema 5,5% á þessu ári en ekki 2,5 hefði öll launahækkun venjulegs manns sem kemur 1. janúar næstkomandi farið í að greiða hækkunina á lánunum.

Verkalýðshreyfingin átti góða daga upp úr 1990, þegar þjóðarsáttin svonefnda var gerð, en undanfarin þrjú til fjögur ár hafa verið deilur innan hennar um skipulags- og samskiptamál. Það setti mark sitt á starf Alþýðusambandsins, sem líður fyrir það þegar ekki ríkir eining innan verkalýðshreyfingarinnar.

        En í baráttunni undanfarið náðist mjög breið samstaða um með hvaða hætti ætti að fara í þessa baráttu og forystumennirnir unnu mjög þétt saman að því að leysa málið. Hreyfingin efldist mjög sem fjöldasamtök og partur af því var að hún tók frumkvæði, lagði fram tillögur sem voru undirbúnar í mjög breiðu samráði, og þegar niðurstaða var fundin stóðu menn þétt saman um hana. Og það er engin launung á því að forseti ASÍ hefur staðið sig frábærlega í þessum slag, hann var eins og útspýtt hundskinn úti um allt land og á því er enginn vafi að hreyfingin býr nú að mjög sterkri forystu með þá breidd sem hún þarf að hafa, óklofið bakland. Þegar forsetinn tjáir sig tjáir hann sig fyrir 80 þúsunda manna samtök. Í slíkri stöðu bæði þurfum við og eigum að hafa áhrif. Það má segja að hreyfingin hafi náð vopnum sínum og mér finnst að ferlið undanfarin misseri sýni að við getum þetta. Við þurfum að nota þessa samstöðu í öðrum málaflokkum, vinna skipulega að því að koma með úrlausnir, koma með tillögur um hvað við teljum að eigi að breytast í þjóðfélaginu, segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands við Samiðnarblaðið.