Alþjóðavæðingin

Gissur Pétursson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar, hóf mál sitt á því að skilgreina hvað átt er við með alþjóðavæðingu og niðurstaða hans er að þar sé átt við vaxandi aukningu í alþjóðaviðskiptum, aukinn hreyfanleika fjármagns og mikinn vöxt alþjóðlegra fjárfestinga, einkum í Austur-Evrópu og þróunarríkjunum. Einnig mætti sjá þessa þróun í hreyfanleika fólks og vinnuafls milli landa og heimsálfa. Forsendur þessarar þróunar sagði hann vera aukið frjálsræði í viðskiptum á alþjóðavísu. Gissur fjallaði því næst um ólík viðhorf til alþjóðavæðingar eftir því hvort menn tilheyra þróunarríkjum eða iðnríkjum. Sagði hann meðal annars að í iðnríkjunum hefðu menn áhyggjur af því að samkeppni frá þróunarríkjum leiddi til atvinnuleysis og kjaraskerðingar í lágtekjuhópum. Í þróunarríkjunum óttist menn að viðskiptafrelsið leiði til þess að störfum fækki og að ójöfnuður aukist innan ríkjanna.

 

Þróunin hérlendis

 

Gissur fór því næst yfir þróunina hér á landi. Hann sagði að á undanförnum árum hefði erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað verulega og væri skýringarinnar meðal annars að leita í aukinni þörf íslensks efnahagslífs fyrir vinnuafl á síðari hluta 10. áratugarins í kjölfar mjög aukinna umsvifa í efnahagslífinu.

Árið 2002 voru erlendir ríkisborgarar hér á landi með norrænt ríkisfang aðeins um 16% erlendra ríkisborgara og 18% frá öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Meginfjölgun erlendra ríkisborgara er meðal fólks frá Austur-Evrópu og frá Asíu. Þannig voru erlendir ríkisborgarar frá Asíu 1.756 í lok árs 2002, eða um 17% allra erlendra ríkisborgara, samanborið við 119 árið 1981, eða innan við 4%.

Tæplega 60% erlendra ríkisborgara voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu í árslok 1999, samanborið við um 66% þjóðarinnar. Að öðru leyti er dreifing um landið í samræmi við íbúafjölda að Vestfjörðum undanskildum. Þar voru um 8% erlendra ríkisborgara búsettir árið 1999 en aðeins um 4% þjóðarinnar.

Ekki eru til upplýsingar um í hvaða atvinnugreinar eða í hvers konar störf útlendingar sækja frá evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er skráð til hvers konar starfa atvinnuleyfi eru veitt, en ekki þó greint eftir atvinnugreinum. Undanfarin ár hafa flest atvinnuleyfi verið gefin út til starfa í fiskvinnslu, en hlutfallið hefur þó minnkað síðustu ár. Á síðasta ári voru þannig aðeins 12% nýrra atvinnuleyfa veitt vegna fiskvinnslustarfa. Þetta er þó hátt hlutfall ef miðað er við að aðeins rúm 3% landsmanna  starfa við fiskvinnslu. Um 20% atvinnuleyfa voru vegna starfa í iðnaði af ýmsu tagi, en 10% landsmanna starfa við iðnað.

Atvinnuleyfi vegna starfa í byggingariðnaði, sem voru mjög áberandi á árunum 2000 og 2001, fækkaði mjög 2002. Nokkur aukning varð aftur árið 2003 en einkum er þar um að ræða sérhæft starfsfólk við Kárahnjúkavirkjun, sagði Gissur.

Gissur gerði að umtalsefni í ræðu sinni þá gagnrýni sem uppi hefur verið um að opinbera eftirlitskerfið hafi ekki verið tilbúið undir hinar miklu framkvæmdir sem nú eiga sér stað á Austurlandi.

„Þessa gagnrýni megum við hjá hinu opinbera kerfi alveg taka til okkar. Við höfðum ekki uppi neinn sérstakan viðbúnað og erum ansi mikið að bregðast við eftir á. Ég hef hins vegar áður nefnt það í spjalli við félaga mína hér í þessum samtökum að það sé nauðsynlegt að hafa í huga að á opinberar stofnanir eins og þá sem ég stjórna eru lagðar þrjár meginskyldur í rekstri: Í fyrsta lagi má ekki vera neitt fitulag utan á þeim, þær eiga ekki að liggja á ónýttum fjármunum, í öðru lagi eiga þær að vinna faglega og fara eftir stífustu reglum stjórnsýslulaga, og í þriðja lagi eiga þær að vera vel búnar undir óvænt ástand. Það hljóta allir að sjá að þessar kröfur ganga hver í sína átt, en við þetta þurfum við að búa við,“ sagði Gissur Pétursson.

„Maður getur nú gert mistök, sagði abbadísin í Kirkjubæjarklaustri þegar hún hafði óvart skellt nærbrókinni af ábótanum í Þykkvabæ á höfuð sér til að skýla sér fyrir sandrokinu austan af Síðu – og ég held að það væri full-digurbarkalegt að viðurkenna það ekki að allskonar mistök hafa átt sér stað við eftirlit og framkvæmd og alla umsýslu þeirra laga sem snerta virkjunarframkvæmdirnar eystra,“ sagði Gissur. „Raunar hefur margt komið okkur öllum í opna skjöldu, bæði opinberum aðilum og hagsmunasamtökum á vinnumarkaði. Þetta hefur valdið miklum vonbrigðum en er óneitanlega lærdómsríkt.“

 

Starfsréttindi útlendinga

 

Í ræðu Gissurar kom fram að nú væri lokið við að semja reglugerð með lögunum um atvinnurétti útlendinga og liggur hún fyrir í drögum.

Þar segir í c-lið 9. greinar, sem fjallar um tímabundið atvinnuleyfi, að umsókn skuli fylgja staðfesting hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi á starfsréttindum útlendings sem fyrirhugað er að ráða til landsins í starf sem krefst formlegra starfsréttinda. Jafnframt segir: „Í undantekningartilvikum þar sem ekki verður sýnt fram á með formlegri staðfestingu að útlendingur búi yfir þeirri kunnáttu sem starfsréttindin byggjast á er heimilt að víkja frá kröfunni um að staðfesting hlutaðeigandi stjórnvalds á starfsréttindum liggi fyrir. Í slíku tilviki er heimilt að gefa útlendingi kost á að sanna hæfni sína með þeim hætti sem hlutaðeigandi innlent stjórnvald telur fullnægjandi eftir að hann er kominn til landsins með skilyrðum sem sett eru af Vinnumálastofnun.“

Gissur sagði þetta nokkuð skýrar og fortakslausar reglur sem ekki ættu að vefjast fyrir neinum. „Mér segir þó svo hugur að svo kunni að fara og að áfram komi upp aðstæður sem kalla á matskenndar ákvarðanir. Þá ríður á að menn hafi samstarfs- og samningsvilja. Ég bind miklar vonir við samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá 7. mars, vegna þess að við eigum áfram að halda okkur við þá íslensku hefð að útkljá ágreiningsmál á vinnumarkaði með samningum en ekki lögþvingunum,“ sagði Gissur Pétursson að lokum.