Aldrei of seint að fara í framhaldsnám

 Einar Gunnarsson blikksmiður hóf nám í byggingartækni í Danmörku kominn langt á sextugsaldur.

– Ekkert stórmál, en þarf að skipuleggja vel, segir hann.

 

– Auðvitað er það mál að rífa sig upp, flytja til útlanda og setjast á skólabekk þegar maður er kominn yfir miðjan aldur og með fullt af skuldbindingum á bakinu. Það skiptir mestu að undirbúa þetta vel, ana ekki að neinu, þá er þetta vel hægt, segir Einar Gunnarsson blikksmiður í samtali við tíðindamann blaðsins úti í Horsens í Danmörku þar sem Einar hefur verið við nám við Vitus Bering-tækniháskólann frá því í janúar.

– Það hefur lengi blundað í mér að læra meira. Auk blikksmíðinnar lærði ég söng bæði í Reykjavík og í Stokkhólmi. Ástæðan fyrir því að ég lenti hér í Horsens er að dóttir mín stundar nám við þennan sama skóla. Eftir að ég hafði heimsótt hana í tvígang komst ég að því að það nám sem hér er í boði hentaði mér ágætlega. Skólastjórnendur voru hvetjandi þannig að ég sótti um og hér er ég, segir Einar sem ætlar að ljúka BS-gráðu í byggingartækni. Þá getur hann tekið upp starfsheitið byggingarfræðingur sem veitir honum meðal annars leyfi til að leggja inn til byggingarnefnda teikningar af mannvirkjum, svo fremi að hann ljúki áður starfsþjálfun á stofu.

– Starf byggingarfræðinga er mjög fjölbreytt bæði hér í Danmörku og heima á Fróni, segir Einar og nefnir nokkur dæmi um það sem þeir fást við, byggingarstjórn, eftirlitsstörf og almenn umsjón með fasteignum. – Við erum mikið í að hanna hús, teikna þau frá grunni. Megininntakið í okkar vinnu er að teikna hús sem eru ódýr og hagkvæm, við erum að kljást við burðarfræði, varmanýtingu og ýmislegt fleira. Þurfum að kunna skil á öllum reglugerðum og öðrum samþykktum sem lúta að mannvirkjagerð. Stærðfræðin er ein af þeim greinum sem mikið er lagt upp úr hér við skólann og lögð áhersla á  að menn nái góðum tökum á henni. Aðstaðan er góð. Hér fær hver nemandi sitt eigið teikniborð og þótt þröngt sé um mannskapinn gengur þetta ágætlega – og mun betur eftir að bannað var að reykja í kennslustofunum, segir Einar sem ekki skilur að enn skuli vera leyft að reykja á göngum skólans.

Einar segir að engin skólagjöld þurfi að greiða við skólann en bókakostnaður sé allt að 30 þúsund krónum á önn. Einar fjármagnar námið með námslánum og segist hann eins og aðrir námsmenn þurfa að taka bankalán fyrsta árið þar sem námslánin séu ekki greidd út fyrr en menn hafa sýnt fram á námsárangur.

– Nemendur við skólann koma víðs vegar að. Mikið er um iðnaðarmenn sem vilja bæta þekkingu sína. Hingað koma margir sem hafa einhverra hluta vegna þurft að hætta fyrra starfi, vegna veikinda eða slysa. Danir eru duglegir við að styðja við endurmenntun síns fólks. Hér eru um 70 Íslendingar við nám og auk okkar er fjöldinn allur af erlendum námsmönnum við skólann og óhætt að segja að Horsens sé fjölþjóðlegt samfélag. Með mér í dönskunámi er til dæmis þriggja stjörnu landflótta herforingi frá Írak sem flúði Saddam Hussein og hyski hans.

 

Danskan þvælist fyrir

 

Einar neitar því ekki að danskan þvælist ennþá fyrir honum. – Ég er í dönskunámi í kvöldskóla tvisvar í viku, ég hafði smá-forskot eftir ársdvöl í Svíþjóð og ég hef líka lengi tekið þátt í norrænu samstarfi, sem hefur hjálpað mér að skilja Danina. Það góða við þennan skóla hér er að kennurunum er mjög í mun að nemendur nái settu marki. Hér eru úrvalsmenn að kenna og leggja sig fram um að miðla þekkingu sinni til nemenda þannig að það skiljist. Í raun ætti enginn að hræðast þá hindrun sem málið er í upphafi. Þetta kemur, segir Einar og kveðst nýta kvöldin til að læra stærðfræði og skrifa danskan texta til að æfa sig í ritmálinu.

Um dvölina í Danaveldi segir Einar að hún sé alveg ágæt. Hann býr á stúdentagarði sem skólinn hefur yfir að ráða. – Það er ágæt vist á þessum görðum. Húsið sem ég bý í er fjölbýlishús með sérinngangi í hvert herbergi, og innifalið í leigunni – tæpum tuttugu þúsund krónum íslenskum á mánuði – eru net- og sjónvarpstengingar. Félagslífið er ágætt. Hér á svæðinu býr fjöldinn allur af Íslendingum og þeir hafa með sér félag sem stendur fyrir ýmsum uppákomum, svo sem þorrablóti, 17. júní-fagnaði og „Eurvískvöldi“. Verst þykir mér hvað okkur gengur illa að koma saman karlakór þrátt fyrir viðleitni í þá átt, segir Einar og þykir greinilega ótækt að geta ekki tekið lagið með löndum sínum í Horsens.

– Það hefur komið mér skemmtilega á óvart að kynnast dönsku samfélagi. Þessi systurþjóð okkar er í ýmsu svo lík okkur en á sama tíma svo ólík. Þeir eru vinnusamir, skipulagðir, og líf þeirra er í mun fastari skorðum en okkar Íslendinga. Svo er að sjá sem Danirnir lifi fyrir fríin sín. Auk hins hefðbunda sumarorlofs eru Danir bæði með haustfrí og vetrarfrí. Þessi frí skipuleggja þeir vel og það með löngum fyrirvara. Það er fátt um óvæntar uppákomur hér, allt hefur sinn langa aðdraganda, segir Einar, sem ekki vill fórna alveg þeim eiginleikum Íslendinga að gera allt í einu eitthvað óvænt en telur samt að við getum lært ýmislegt af Dönum um skipulag og þann vana þeirra að horfa langt fram í tímann.

Um afkomu launafólks í Danmörku segir Einar að greinilegt sé að fjölskyldufólk hafi það betra en á Íslandi.      – Danska samélagið styður mun betur við bakið á barnafólki en það íslenska. Það er auðveldara að koma sér upp húsnæði í Danmörku en hér, lánin eru hagstæðari en heima, barnabætur hærri, læknisþjónusta ókeypis, tannlæknakostnaður lægri og þannig mætti lengi telja. Hins vegar sýnist mér að einhleypt fólk hafi það svipað hér og á Fróni. Skattar eru hærri, og einstaklingur sem ekki hefur mikla þörf fyrir samfélagsþjónustu ber sýnist mér svipað úr býtum og meðal-launamaður á Íslandi. En þetta er misjafnt eftir búsetu. Þannig eru laun hærri á Sjálandi en hér á Jótlandi, segir Einar og bætir við að matvara sé mun ódýrari, og einnig ýmsar aðrar nauðsynjavörur. Þá segir hann einnig að mikil samkeppni á dönskum neytendamarkaði komi neytendum til góða. – Það er við hæfi að nefna sérstaklega bensínið í því samhengi, segir Einar, sem gerir ráð fyrir að dveljast í Danmörku að minnsta kosti í þrjú ár eða þar til hann hefur lokið BS-námi sínu. Einar hvetur þá sem eru að huga að framhaldsnámi að skoða þá möguleika sem í boði eru við Vitus Bering-tækniháskólann.