Aðstæður við upphaf kjarasamninga

Á síðasta ári lauk einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Á fimm ára tímabili mældist hagvöxtur að meðaltali um 5% á ári, sem er mjög mikið bæði í sögulegu samhengi og í alþjóðlegum samanburði. Við Íslendingar erum annars vanir efnahagssveiflum; miklum uppgangstímum og erfiðum samdrætti í kjölfarið. Þeir sem náð hafa miðjum aldri muna vel eftir uppsveiflunni sem hófst árið 1984 og náði hámarki í skattlausa árinu 1987. Á þessu tímabili hækkuðu dagvinnulaun um 300% og kaupmáttur ráðstöfunartekna (þ.e. tekjur að teknu tilliti til verðbólgu, skatta og bóta) hækkaði um hvorki meira né minna en 43%. Þessi kjarabót var kærkomin, því að á árunum 1981– 84 hafði kaupmáttur ráðstöfunartekna dregist saman um 13%.

Því miður reyndist þó ekki innistæða fyrir þessum kjarabótum. Hagkerfið brann við og góðærið leystist upp í gengisfellingum, verðbólgu og kaupmáttarskerðingu. Ofan á þetta bættist síðan slæm staða fiskistofna og þar með sjávarútvegsins. Í kjölfarið féll kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann nær samfellt allt til ársins 1995 og var þá 24% lægri en hann hafði verið árið 1987. Ljóst er að hagur almennings af svo miklum efnahagssveiflum er afar takmarkaður, ef nokkur. Þessi mikli samdráttur leiddi til þess að almenningur og fyrirtæki héldu að sér höndum við neyslu og fjárfestingar. Þegar samdrættinum lauk hafði því myndast mikil uppsöfnuð þörf almennings fyrir endurnýjun varanlegrar neysluvöru og fyrirtækjanna fyrir endurnýjun framleiðslutækja. Þegar ný uppsveifla hefst við slíkar aðstæður eru möguleikar á kaupmáttaraukningu miklir, enda fer allt hagkerfið í gang vegna aukinnar eftirspurnar hér innanlands.

 

Verðbólgan kæfð með nýjum verkfærum

 

Sú uppsveifla sem nú er nýlokið hófst árið 1996. Frá upphafi árs 1996 til ársloka 2000 hækkaði tímakaup á almennum vinnumarkaði um 40% og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 20%. Atvinnuleysi lækkaði sömuleiðis úr rúmlega 5% og fór undir 1% haustið 2000. Í lok uppsveiflunnar myndaðist hins vegar mikið ójafnvægi bæði á vinnumarkaði og í viðskiptum við útlönd. Skortur á vinnuafli leiddi til mikils launaskriðs hjá sumum starfsstéttum en hjá öðrum stéttum leiddi skorturinn fyrst og fremst til stóraukins innflutnings á vinnuafli.

Hallinn í utanríkisviðskiptum fékk ekki staðist til lengdar og að lokum féll gengi krónunnar með tilheyrandi hækkun á verði innfluttrar vöru. Verðbólgan fór því af stað og fór hæst í 9,4% á ársgrundvelli í janúar 2002. Að mörgu leyti stefndi þróunin því í gamla tívolí-farið. Svo fór þó ekki.

Það sem gerðist nú, og hefur aldrei áður gerst, var að gengi krónunnar sneri við og tók að hækka að nýju þannig að innfluttar vörur lækkuðu aftur í verði.1 Þessi viðsnúningur var mögulegur vegna nýs fyrirkomulags gengismála og varð, ásamt frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar í verðlagsmálum, til þess að verðbólgan lækkaði mjög fljótt aftur. Að meðaltali féll kaupmáttur því ekki og er það einsdæmi á síðari tímum að kaupmáttarskerðing fylgi ekki í kjölfar uppsveiflu. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hafa í huga að hér er um meðaltals-niðurstöðu að ræða. Almenn launahækkun í síðustu kjarasamningum var um 13% yfir fjögurra ára tímabil og því ljóst að það launafólk sem hefur einungis fengið umsamdar hækkanir og ekkert launaskrið kom afar illa út úr 9,4%-verðbólguskotinu. Hér kemur skýrt fram hversu óréttlátur „skattur“ verðbólgan er. Hún fellur þyngst á þá sem minnstar hækkanir hafa fengið.

 

Þessi uppsveifla verður ólík þeirri síðustu

 

Nú fer í hönd tími mikilla stóriðjuframkvæmda. Framkvæmdirnar auka hagvöxt mjög og miklar væntingar eru í þjóðfélaginu um auknar tekjur og velsæld. Bjartsýni almennings mælist glögglega í væntingavísitölu Gallups, en stjórnmálamenn eru ekki síður bjartsýnir. Það kom fram í aðdraganda alþingiskosninga, þegar flestir frambjóðendur lofuðu skattalækkunum sem skyldu fjármagnaðar með tekjum af stórauknum umsvifum næstu ára.

En það eru ýmsar vísbendingar um að þessi uppsveifla gæti orðið ólík síðustu uppsveiflu, bæði hvað varðar kaupmátt og atvinnuleysi. Ég ætla að telja upp nokkur atriði sem eru afgerandi hvað þetta varðar.

l Stutt er frá síðustu uppsveiflu og samdrátturinn sem fylgdi á eftir var lítill. Því hefur ekki safnast upp neysluþörf hjá almenningi, eins og tilfellið var árið 1996.2 Á síðastliðnum árum hafa fyrirtækin fjárfest mjög mikið í framleiðslutækjum og húsnæði. Þau þurfa því lítið að fjárfesta næstu 2–3 árin jafnvel þótt eftirspurn eftir vörum þeirra aukist á næstunni. Þetta veldur því að hagvöxturinn, sem hefst uppi á hálendinu, breiðist ekki jafn hratt og vel út í hið almenna hagkerfi og oft áður.

l Laun sem hlutfall af landsframleiðslu (launahlutfallið) eru nú í sögulegu hámarki. Þetta þýðir að hagnaðarhlutfallið er í sögulegu lágmarki og því er ljóst að kjarabætur verða tæplega teknar af hagnaði fyrirtækjanna. Aukinn kaupmáttur verður því að koma frá framleiðniaukningu. Í upphafi fyrri uppsveiflna hefur launahlutfallið verið mun lægra en það er nú, enda langt tímabil kaupmáttarskerðingar að baki. Á mælikvarða launahlutfallsins er svigrúm fyrirtækjanna til að hækka laun því minna en áður. Á móti kemur að möguleikarnir á framleiðniaukningu eru sennilega meiri en oft áður.

l Erlent vinnuafl flæðir nú frjálst inn í landið og með stækkun Evrópusambandsins á næsta ári fjölgar þeim þjóðum sem eiga aðild að íslenskum vinnumarkaði. Þetta þýðir að þegar þörfin fyrir vinnuafl eykst eru minni líkur á því en áður að atvinnurekendur hækki laun til að ná til sín fólki frá öðrum fyrirtækjum. Atvinnurekendur flytja einfaldlega inn vinnuafl til að taka mestu toppana. Iðnaðarmenn upplifðu þetta sterkt við byggingu Smáralindar og aftur nú í Kárahnjúkaframkvæmdunum. Verkafólk hefur hins vegar fundið fyrir þessu mun lengur, enda er erlent vinnuafl orðið algengt í framleiðsluiðnaði, í ræstingu og í  eldhúsum á sjúkrahúsum og stofnunum. Í hagspám er almennt gert ráð fyrir að aðeins 25% af vinnuafli við Kárahnjúka og Fjarðaál verði erlent. Ef þetta hlutfall reynist hærra fara laun úr landi og hagvöxturinn verður minni en ráð er fyrir gert í hagspánum.

l Gengi krónunnar flýtur frjálst á markaði í fyrsta sinn í uppsveiflu. Þar sem stóriðjuframkvæmdirnar eru fjármagnaðar með erlendu láns- og áhættufé streymir gjaldeyrir inn í landið og verð krónunnar hækkar. Við þetta lækkar verð á innfluttum vörum. Innlend framleiðslufyrirtæki geta því orðið undir í samkeppninni við innflutning um markaðshlutdeild. Við þetta bætist að þegar gengi krónunnar hækkar fá útflutningsfyrirtækin minni tekjur. Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja versnar því með hækkun krónunnar og störf eru í hættu. Þessi áhrif eru nefnd ruðningsáhrif, því þegar fyrirtæki lenda í kröggum og draga úr starfsemi losnar um starfsfólk til að vinna við stóriðjuframkvæmdirnar. Þetta getur hins vegar orðið afar sársaukafullt, því það fólk sem missir vinnuna í framleiðsluiðnaði hefur ekki endilega möguleika á starfi á hálendinu.

l Fleiri breytingar hafa orðið í starfsumhverfi fyrirtækja á undanförnum árum og áratugum, til dæmis kvótakerfið, EES-samningurinn og einkavæðing bankanna. Fyrirtækin eru enn að laga sig að þessum breytingum og geta náð bættri afkomu á grundvelli þeirra. Nú leita fyrirtækin allra leiða til að ná fram hagræðingu og bregðast skjótar við breyttum aðstæðum en áður. Þannig virðast fyrirtækin grípa fyrr en áður til uppsagna þegar illa gengur.

l Að lokum má nefna að krafan um árangur eykst sífellt. Þetta er í raun hin hliðin á lífsgæðakapphlaupi okkar Íslendinga. Við viljum það besta á öllum sviðum, hvort sem er í vörum, þjónustu, menntun eða heilsugæslu, og við berum okkur sífellt saman við löndin í kring. Krafan um einsleitni er um leið krafa um árangur.

 

Hvernig náum við árangri ?

 

Spámenn gera ráð fyrir að kaupmáttur aukist um allt að 2% árlega í næstu uppsveiflu. Að baki þessari hagfelldu niðurstöðu liggja þó mikilvægar forsendur sem erfitt er að segja til um hvort rætast. Þær mikilvægustu varða meðal annars gengi krónunnar, útkomu kjarasamninga, aðstæður á vinnumarkaði og hagstjórn. Þá gera spámenn einnig ráð fyrir að mikil skuldsetning heimilanna komi í veg fyrir að einkaneysla fari úr böndunum.

Hvað varðar gengi krónunnar er ljóst að því hærra sem gengið verður, því erfiðari verða rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja. Áhrifin koma þó líklega ekki fram fyrr en eftir nokkur ár. Ef krónan verður svo sterk að fyrirtæki leggja upp laupana eða flytja úr landi, þá verður skortur á atvinnutækifærum þegar framkvæmdunum á Austurlandi lýkur. Einnig skiptir máli hvort það erlenda vinnuafl sem hingað kemur fer aftur til síns heima eða sest hér að til frambúðar. Ljóst er að ef allir fara heim verður atvinnuástandið betra en ella.

Hagstjórnin er í höndum tveggja aðila; stjórn peningamála er í höndum Seðlabankans og stjórn ríkisfjármála í höndum ríkisstjórnar og sveitarfélaga. Aðgerðir þessara tveggja aðila hanga afar sterkt saman. Ef stjórnvöld sýna ekki aðhaldssemi, þarf Seðlabankinn að hækka vexti meira en ella.

Hlutverk Seðlabankans er að halda verðbólgu í skefjum. Þetta hlutverk er lögboðið og bankanum ber ekki að líta til annarra verkefna nema 2,5% verðbólgumarkmiðið sé í höfn. Samkvæmt þessu er það því ríkisvaldsins að líta til annarra verkefna, svo sem atvinnuástandsins til skemmri og lengri tíma.

Eins og áður hefur verið bent á er hagur almennings af hagvexti afar takmarkaður og jafnvel enginn ef honum fylgir langvarandi tímabil samdráttar og kaupmáttarskerðingar. Því hlýtur hagstjórnin að miða að því að koma í veg fyrir slíkar sveiflur. Þetta verður best gert með því að ríki og sveitarfélög dragi mjög úr umsvifum sínum á meðan mestu stóriðjuframkvæmdirnar standa yfir. Að mínu mati er best að svigrúm fyrir stóriðjuframkvæmdirnar verði skapað með tímabundnu aðhaldi hins opinbera, fremur en með því að ryðja fyrirtækjum úr vegi og kæfa frumkvæði þeirra með vaxta- og gengishækkunum. Það er auðvelt og fljótgert að hrekja fyrirtæki úr landi eða í gjaldþrot, en erfitt að laða fyrirtæki og störf hingað heim aftur.

Miðað við núverandi ástand efnahagsmála þarf ríkissjóður að skila afgangi næstu árin. Þannig leggja stjórnvöld sitt af mörkum til að draga úr innlendri eftirspurn, þ.e. eigin eyðslu og annarra. Ef tekjuauki ríkissjóðs í tengslum við stóriðjuframkvæmdirnar verður minni en stjórnvöld gera nú ráð fyrir verður til dæmis nauðsynlegt að skera niður útgjöld til að mæta boðuðum skattalækkunum. Það er þó ekki bara afkoma hins opinbera sem skiptir máli. Stjórnvöld hafa áhrif á eftirspurn eftir fleiri leiðum. Hækkun veðhlutfalla og hámarkslána Íbúðarlánasjóðs er til dæmis ætlað að veita almenningi aðgang að ódýrari og hærri lánum. Aukinn aðgangur að fjármagni á góðum kjörum er líklegur til að auka við innlenda eftirspurn og kalla þannig á aukið aðhald frá Seðlabankanum eða ríkissjóði.

 

Spár um kaupmáttaraukningu

 

Eins og áður hefur verið vikið að er launahlutfallið í sögulegu hámarki og því þarf framleiðniaukningu til að hægt sé að ná fram raunverulegum og viðvarandi kjarabótum. Framleiðniaukning er almennt talin verða um 1 1/2 % á ári. Líklegast er að þjóðarbúið standi undir kaupmáttaraukningu í námunda við þá tölu en spámenn gera ráð fyrir allt að 2% árlegri kaupmáttarhækkun næstu árin. Möguleg skattalækkun kann síðan að auka við kaupmátt ráðstöfunartekna.

 

Staðan við upphaf kjarasamninga

 

Nokkur atriði einkenna umhverfið við upphaf kjarasamninga. Í fyrsta lagi er staða atvinnugreina afar ólík. Launahlutfallið er að meðaltali í sögulegu hámarki og vaxandi krafa er um hagræðingu og framleiðniaukningu í öllum greinum. Taprekstri þarf víða að snúa við. Mikill munur er því á getu atvinnugreinanna til að mæta launahækkunum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þær atvinnugreinar sem eru hlutfallslega mikilvægar á landsbyggðinni eiga margar erfitt.

Í öðru lagi er staða starfsgreina ólík. Innkoma erlends vinnuafls ógnar stöðu margra starfsstétta, bæði hvað varðar kjör og aðbúnað. Hagræðingarbylgjan dregur auk þess úr nýráðningum og vísbendingar eru um að atvinnuleysi verði meira í þessari uppsveiflu en í þeirri síðustu. Starfsgreinarnar eru því í misgóðri aðstöðu til að sækja kjarabætur.

Í þessu umhverfi eykst þörfin fyrir sveigjanlegan vinnumarkað. Launafólk þarf að geta flust á milli starfa og atvinnugreina með sem minnstum tilkostnaði fyrir einstaklingana, fjölskyldurnar og fyrirtækin. Þörfin fyrir endurmenntun og gott öryggisnet er því meiri en oft áður.

 

Edda Rós  Karlsdóttir

 

1) Nýtt fyrirkomulag gengismála, þar sem krónan flýtur frjálst á markaði, gerði þessa gengisþróun mögulega. Áður stefndi Seðlabankinn að því að halda krónunni stöðugri (fastgengi), en flotgengið var tekið upp í mars 2000 í tengslum við breytt markmið Seðlabanka Íslands. Markmið Seðlabankans er nú að halda verðbólgu sem næst 2,5% og beitir hann vöxtum til að ná því.

2) Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er undantekning frá þessu.