Aðild tryggir áhrif

 Sænskir málmiðnaðarmenn hlynntir aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu

 

Svíþjóð gekk í Evrópusambandið, ESB, 1995 en hefur ekki enn gerst aðili að EMU, Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Skoðanir eru skiptar um kosti aðildar en flestir stjórnmálaflokkanna og ýmis stéttarsamtök hafa tekið jákvæða afstöðu til aðildar að myntbandalaginu. Samtök sænskra málmiðnaðarmanna,  Metall, eru fylgjandi aðild, en Byggnads, samtök byggingariðnaðarmanna, hafa ekki tekið afstöðu til málsins.

Forystumenn byggingariðnaðarmanna hafa sagt að það sé mál sem félagsmenn, hver og einn, verði að gera upp við sig. Trúlegt er að áður en ríkisstjórn og þing taka endanlega afstöðu til aðildar að EMU fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, eins og gerðist áður en Svíþjóð gekk í ESB.

Innan Metall hafa farið fram töluverðar umræður um ESB og EMU, einkum um þýðingu aðildar Svíþjóðar að þessum stofnunum fyrir efnahags- og atvinnulíf landsins. Á þingi samtakanna 1997 var samþykkt ályktun þar sem mælt er með aðild að EMU. Í skýrslu sem Metall gaf út í fyrra er gerð ýtarleg grein fyrir sjónarmiðum samtakanna og félagsmenn jafnframt hvattir til að ræða málið í sínum félögum og á vinnustöðum.

 

Líta ber til langs tíma

 

Í skýrslunni segir að þótt Svíþjóð standi núna utan EMU hafi starf bandalagsins áhrif á þróun mála í landinu. Vissulega eru skipulag og stefna EMU ekki gallalaus, en bandalagið er veruleiki og þar sem Svíþjóð er þegar virkur þátttakandi í Evrópusambandinu er órökrétt að standa utan við þann hluta sem Efnahags- og myntbandalagið er. Svíþjóð ber að taka fullan þátt í samstarfi Evrópuþjóða og hafa þannig möguleika til áhrifa á þróun samstarfsins á komandi árum. Slík áhrif öðlast landið með aðild, en ekki með því að standa utan við sem áhorfandi, segir í skýrslunni. Vissulega verður Svíþjóð, sem aðili að EMU að beygja sig undir vilja meirihlutans, en kröfur annarra til Svíþjóðar um stjórnun efnahagsmála verða ekki minni þótt landið standi utan myntbandalagsins. Hvað varðar gengisskráningu og jafnvægi í ríkisrekstri er margt sem bendir til að kröfurnar verði enn ákveðnari, og bent er á að þegar rætt er um kosti og galla aðildar að EMU sé mikilvægt að líta til langs tíma. Það á bæði við um þróun efnahagsmála og stjórnmálalega stöðu Svíþjóðar í Evrópu.

 

Fjármagnið er alþjóðlegt

 

Efnahags- og myntbandalagið hefur mótast á sama tíma og efnahagslífið verður sífellt alþjóðlegra. Þjóðlegt yfirbragð stórra fyrirtækja hverfur æ meir og landamæri þjóða standa ekki lengur í vegi fyrir vexti þeirra og starfsemi. Fjármagnið flæðir og viðurkennir engin landamæri. Á alþjóðlegum markaði eiga sér stað umsvifamikil viðskipti, sem á einni nóttu geta haft umtalsverð áhrif á vexti og stöðu gjaldmiðla einstakra þjóðlanda. Þessi þróun, telja málmiðnaðarmenn, ýtir undir efnahagslegt og pólitískt samstarf ríkja.

 

Stöðugri gjaldmiðill

 

Sameiginlegur gjaldmiðill í Evrópu dregur úr möguleikum á braski og ævintýramennsku með ólíka gjaldmiðla. Sameiginlegur banki er betur í stakk búinn að takast á við aðra aðila á fjármálamarkaði heimsins en margir smáir þjóðbankar. Sameiginlegur gjaldmiðill verður stöðugri en sænska krónan hefur verið gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Vextir verða sömuleiðis svipaðir í löndunum og EMU er vörn gegn óróleika sem kann að verða í efnahagslífi annars staðar í heiminum. Sænskt efnahagslíf hefur til dæmis verið viðkvæmara fyrir sveiflum í Bandaríkjunum en í löndum Evrópu. Með aðild að EMU hverfur kostnaður fyrirtækja, opinberra aðila og einstaklinga við gjaldeyrisskipti. Lægri kostnaður styrkir þannig samkeppnisstöðu fyrirtækja og leiðir til lægra vöruverðs til hagsbóta fyrir neytendur. Samkeppnisstaða landanna innan EMU verður jafnari, meðal annars með tilliti til þess þegar fyrirtæki velja land fyrir rekstur sinn.

 

Þátttaka og áhrif

 

 

Göran Johnsson, formaður Metalls, hefur látið til sín taka í þjóðmálaumræðu og á það ekki síst við um Evrópumálin og hugsanlega aðild Svíþjóðar að EMU. Hann hefur bent á að það sé mikilvægt að sænsk málmiðnaðarfyrirtæki hafi sömu möguleika til verkefna í Evrópu og sambærileg fyrirtæki í löndunum innan EMU. Göran minnir gjarnan á það að Svíþjóð tilheyrir Evrópu og að þróun mála í landinu er mjög háð því sem gerist í álfunni. Í nýlegu riti um Evrópusambandið og EMU segir formaður sænskra málmiðnaðarmanna: „Svíum ber að taka virkan þátt í öllum þáttum samstarfs Evrópuríkja á sviði efnahags- og atvinnumála ef þeir vilja hafa áhrif á þróun stjórnmála og efnahagsmála í Evrópu. Að öðrum kosti munu aðrir taka ákvarðanirnar fyrir okkur“.

 

 

Efnahags- og myntbandalag Evrópu og evran

 

l Ellefu lönd Evrópubandalagsins stofnuðu Efnahags- og myntbandalagið (EMU), sem tók til starfa 1 janúar 1999. Stofnríkin voru: Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Utan við bandalagið standa Bretland, Danmörk, Grikkland og Svíþjóð. Formleg ákvörðun um gengisskráningu og skipan stjórnar Evrópubankans o.fl. var tekin í maí 1998.

l Evrópubankinn (ECB) tók til starfa í júní 1998. Aðsetur hans er í Frankfurt.

l Hugmyndin um sameiginlegan gjaldmiðil innan ESB hefur verið á dagskrá í áratugi og er liður í nánu efnahagslegu samstarfi aðildarríkjanna sem treystir stöðugleika í efnahagsmálum, velferð og frið í Evrópu. Ákvörðun um myntbandalagið var tekin með samþykkt Maastricht-sáttmálans þar sem kröfurnar fyrir aðild eru skilgreindar. Þar sem ESB er sameiginlegur markaður fyrir fjármagn, vörur, vinnu og þjónustu er óhagkvæmt að hafa marga ólíka gjaldmiðla. Með tilkomu sameiginlegs gjaldmiðils verður auðveldara að ná markmiðunum um innri markað ESB.

l Innan myntbandalagsins búa um 290 milljónir manna, sem standa að baki um það bil einum fimmta hluta viðskipta og þjóðarframleiðslu í heiminum.

l Evran kemur í stað gjaldmiðla ríkjanna ellefu. Í viðskiptum þeirra á milli og við önnur lönd gildir evran. Gengi á gjaldmiðlum evruríkjanna var fastsett frá og með 1. janúar 1999. Evran er nú fyrst og fremst rafrænn gjaldmiðill. Seðlar og mynt landanna eru enn í notkun.

l Hinn 1. janúar 2002 verða mynt og evruseðlar sett í umferð og verða í notkun samhliða seðlum og mynt aðildarlandanna fram til 1. júlí næsta ár en þá hætta gömlu seðlarnir og myntin að gilda. Eftir þann tíma verða eingöngu evruseðlar og mynt gjaldgengur greiðslumiðill en mögulegt verður að skipta gömlum seðlum og mynt í seðlabönkum aðildarlandanna.

l Kröfur um aðild að EMU eru lág verðbólga, lágir vextir, lítill halli á fjárlögum og takmörkuð eða að minnsta kosti minnkandi skuld ríkissjóðs viðkomandi lands. Ennfremur stöðugleiki í gjaldeyrismálum, eða með öðrum orðum að landið hafi tekið þátt í evrópska myntkerfinu, ERM, fyrir aðild.

 

(Heimild: Rit frá skrifstofu framkvæmdanefndar ESB í Stokkhólmi )