Að starfa við Kárahnjúkavirkjun á að vera eftirsóknarvert

Það er löng hefð fyrir því að starfsfólk við virkjanaframkvæmdir njóti góðs aðbúnaðar og hafi bærileg laun. Um þetta hefur ekki verið ágreiningur milli aðila vinnumarkaðarins fram til þessa. Starfsfólk við virkjanir vinnur við erfiðar aðstæður fjarri heimili og fjölskyldu langtímum saman. Virkjanasamningurinn, sem tekur sérstaklega til virkjanaframkvæmda, ber þessa merki og er því betur útfærður hvað varðar aðbúnað en almennt þekkist í kjarasamningum. Samningurinn gildir fyrir alla sem vinna við virkjun og bindur jafnt erlenda verktaka sem innlenda.

Vegna þess hluta sem byrjað er á við Kárahnjúkavirkjun hefur verið gerður verksamningur við erlent verktakafyrirtæki, Impregilo. Fyrirtækið er alþjóðlegt verktakafyrirtæki sem starfað hefur víðsvegar um heiminn og staðið fyrir sambærilegum stórframkvæmdum og Kárahnjúkavirkjun. Margt í fari stjórnenda fyrirtækisins ber það með sér og þar virðist ekki mikill vilji til að laga sig að íslenskum vinnumarkaði og þeim venjum og reglum sem hér gilda. Verkalýðshreyfingin leggst alls ekki gegn því að hingað komi erlend verktakafyrirtæki en hún gerir þá ófrávíkjanlegu kröfu til þeirra að þau starfi eftir íslenskum kjarasamningum og að jafnræði ríki milli þeirra og innlendra fyrirtækja.

Deilan við Impregilo undangengnar vikur stendur meðal annars um þetta grundvallaratriði. Fyrirtækið hefur ekki viljað fallast á að starfsmenn eigi að njóta sambærilegra starfskjara og við önnur ámóta störf hér á landi en vilja í staðinn horfa til starfskjara til dæmis í Ítalíu og Portúgal. Íslensku fyrirtækin sem buðu í framkvæmdina gengu út frá kostnaði miðað við íslenskar aðstæður, þar á meðal um laun og aðbúnað.

Íslenskir starfsmenn hjá Impregilo eru í miklum minnihlut. Það er í ósamræmi við skýrslu iðnaðarráðherra um mannaflaþörf sem gefin var út í apríl í vor. Þar kom fram að ekki væri þörf á erlendu vinnuafli fyrr en á seinnihluta framkvæmdatímans. Það kom líka fram þegar auglýst var eftir starfsfólki í vor að mikill fjöldi fólks hafði áhuga á að koma til starfa við Kárahnjúkavirkjun. Vegna hægagangs við afgreiðslu á umsóknum og vegna ófullnægjandi starfskjara hafa fáir Íslendingar ráðið sig til starfa.

Kárahnjúkavirkjun og tengdar framkvæmdir eru stærstu framkvæmdir sem Íslendingar hafa ráðist í. Ef þróunin verður óbreytt verður það að stærstum hluta erlent láglaunafólk sem reisir virkjunina. Það gengur þvert á allar yfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna sem hafa hver um annan talað um þau miklu tækifæri sem skapist fyrir íslenskt launafólk í tengslum við uppbyggingu þessarar virkjunar.

Við höfum ekkert á móti erlendu vinnuafli. Við gerum hinsvegar strangar kröfur um að það búi við sambærileg kjör og Íslendingar sjálfir. Íslensk verkalýðshreyfing er skuldbundin að tryggja að ekki sé gengið á rétt erlendra starfsmanna og tryggja að þeir njóti réttinda samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Verkalýðshreyfingunni er einnig skylt að tryggja að erlent starfsfólk sem starfar hér á landi hafi aðbúnað samkvæmt gildandi reglum.

Vonandi verða viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar síðustu vikurnar til þess að málin þróast í rétta átt og að Kárahnjúkasvæðið verði eftirsóttur vinnustaður með góðum launum og fyrirmyndar-aðbúnaði. Það er markmið baráttunnar.