Í sumar sóttu tveir ungir iðnnemar af Vesturlandi ráðstefnu ungra norrænna málmiðnaðarmanna í Jevnaker í Noregi á vegum Samiðnar. Þeir Haukur Árni Vilhjálmsson og Erlendur Breiðfjörð voru sammála um að ferð þeirra hafi verið lærdómsrík og að hún hefði aukið á víðsýni þeirra.
– Þetta var mikil upplifun, við vorum þarna í sex daga og ræddum ýmis mál sem varða hag ungs fólks á Norðurlöndum, sagði Haukur sem ekki hefur verið virkur í starfi verkalýðshreyfingarinnar fram að þessu. – Mér bauðst að fara á þessa ráðstefnu í gegnum Sveinafélag málmiðnaðarmanna á Akranesi, en ég er að læra vélvirkjun í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.
Erlendur, sem er nemi í bifvélavirkjun á bílaverkstæði Vegagerðarinnar í Borgarnesi, sagði að ferðin hefði aukið trú sína á verkalýðshreyfinguna og jafnframt sýnt sér að þar væri mörg verk að vinna. Hann sagði að við Íslendingar gætum sótt mikla reynslu til grannþjóðanna, ekki síst í því hvernig virkja mætti ungt fók til starfa innan hreyfingarinnar. Hann benti á að Danir væru til dæmis mjög duglegir við að kynna stéttarfélögin fyrir ungu fólki í námi.
Þeir félagarnir sögðu að alls hefðu verið um sjötíu þátttakendur á ráðstefnunni. Hver þjóð hefði sent 6–10 manna sendinefnd á hana og hefðu flestir verið á aldrinum 17 til 30 ára, af báðum kynjum.
Fundadagarnir byrjuðu alltaf á hópstarfi þar sem farið var yfir ýmis mál í minni hópum.
– Fyrstu dagana skiptumst við á skoðunum um stöðu ungs fólks í hverju landi, bæði um iðnnámið og einnig um hlutverk þess innan verkalýðshreyfingarinnar. Eftir að hafa hlýtt á þær umræður sýnist mér að ungt fólk eigi víðast hvar erfitt uppdráttar innan hreyfingarinnar, sagði Haukur en bætti við að ríkur vilji væri hjá forystumönnum hreyfingarinnar að bæta úr. Hann segir ljóst að Svíar væru komnir lengst á veg með að virkja unga fólkið. Jafnframt því virtist sér að staða unga fólksins í Svíþjóð væri almennt séð á margan hátt til fyrirmyndar, bæði hvað varðar nám, aðbúnað og kjör.
Haukur sagði að þeir félagarnir hefðu gert nokkra grein fyrir stöðunni hér á landi og má segja að mesta athygli ráðstefnugesta hafi vakið sú staðreynd að þeir tilheyrðu sambandi þar sem menn úr ólíkum iðngreinum störfuðu saman. Öðrum ráðstefnugestum hafi leikið forvitni á að vita hvernig svoleiðis samstarf gengi.
Þeir félagarnir sögðu að vandi verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum væri fyrst og fremst sá að þar væri ekki sjálfgefið að menn gengju í stéttarfélög. Hreyfingin þyrfti að eyða verulegum kröftum í að sannfæra ungt fólk um nauðsyn þess að ganga til liðs við verkalýðsfélag.
Félögin hafa uppi ýmis ráð við að kynna sig, segja þeir félagar og nefna til dæmis gríðarlega vinsæla og stóra hátíð sem danskir málmiðnaðarmenn standa fyrir árlega undir nafninu Gullni hamarinn. – Þessi hátíð hefur undanfarin ár verið vel sótt og þykir mikill viðburður, sagði Haukur og vitnaði til ummæla eins af dönsku þátttakendunum sem sagði að hátíðin virkaði eins og sterkur segull fyrir félögin.
Auk umræðna um stöðu verkalýðsfélaganna og hreyfingarinnar almennt fór drjúgur tími ráðstefnugesta í að ræða stöðu ungs fólks á Norðurlöndum.
– Eitt af því sem mikið var rætt þessa daga voru kynþáttafordómar sem virðast vera að verða sífellt meira vandamál á Norðurlöndum. Einnig voru rædd húsnæðismál og önnur velferðarmál sem snerta ungt fók sérstaklega sagði Erlendur, sem var afar sáttur við að hafa fengið þetta tækifæri til að kynnast viðhorfum þessara jafnaldra og starfsbræðra sem hann dvaldist með í Noregsferðinni.
– Það voru ekki bara fundirnir og störfin í hópunum sem voru gefandi. Þarna var samankominn stór hópur af hressu fólki sem naut þess að vera saman og það má segja að við höfum skemmt okkur vel alla þessa daga, sagði Haukur.