Trúnaðarmenn

13.1.     Val og störf trúnaðarmanna

13.1.1.           Þeim verkalýðsfélögum og landssamböndum, sem eru aðilar að samningi þessum, er heimilt að velja sér trúnaðarmann á vinnustaðnum, (hér er átt við: byggingamann, rafiðnaðar­mann, málmiðnaðarmann, þrjá verkamenn valda úr mismun­andi starfsgreinum þ.á.m. einn stjórnanda vinnuvéla, bifreiða­stjóra, skrifstofumann og einn fyrir ræstingu og mötuneyti, samtals 9). Starfsmönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanna með hvers-konar óskir og kvartanir viðvíkjandi ófullnægjandi aðbúnaði eða öðru, sem þeir telja ábótavant. Trúnaðar­mönnum er skylt að meta slíkar óskir eða kvartanir og komist þeir að þeirri niðurstöðu, að umkvartanir eða óskir viðkomandi hafi við rök að styðjast, ber þeim að snúa sér til vinnuveitanda eða umboðsmanns vinnuveitanda, t.d. verkstjóra með um­kvörtun eða kröfu um lagfæringu.

13.1.2.           Trúnaðarmenn skulu hafa til afnota sameiginlegt skrifstofu­herbergi ásamt síma og tölvu með nettengingu og sé herbergi þetta undir stjórn yfirtrúnaðarmanns. Einnig skulu þeir fá að­stöðu til fundahalda í samráði við yfirtrúnaðarmann og fulltrúa vinnuveitanda.

13.1.3.           Yfirmenn skulu einu sinni í mánuði hið fæsta, halda fund með trúnaðarmönnum (eða hluta þeirra) til að ræða og leysa úr vandamálum sem fyrir kunna að liggja. Fulltrúi vinnuveitanda á fundum þessum hafi vald til ákvörðunartöku fyrir hönd síns fyrirtækis.

13.1.4.           Trúnaðarmenn skulu halda fullum eðlilegum launum miðað við reglulegan vinnutíma þótt þeir verði að fara frá vinnu vegna starfa sinna sem trúnaðarmenn, þar með taldir fundir, sem óhjákvæmilegt er að yfirtrúnaðarmaður við virkjunarsvæði boði vegna eðlilegra starfa trúnaðarmanna enda séu slíkir fundir ákveðnir í samráði við stjórnendur og raski ekki vinnu óeðlilega, svo og samningafundir við endurnýjun kjarasamn­inga.

13.1.5.           Trúnaðarmenn starfi að öðru leyti í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 svo og lög um að­búnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.

13.1.6.           Trúnaðarmönnum á vinnustað skal gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi.

Hver trúnaðarmaður hefur rétt á að sækja eitt eða fleiri námskeið, samtals í eina viku á ári. Þeir sem námskeiðin sækja skulu halda dagvinnutekjum í allt að eina viku á ári enda séu námskeiðin viðurkennd af samningsaðilum. Í fyrirtækjum þar sem starfa fleiri en 15 starfsmenn skulu trúnaðarmenn halda dagvinnutekjum í allt að tvær vikur á fyrsta ári. Þetta gildir um einn trúnaðarmann á ári í hverju fyrirtæki séu starfsmenn 5-50 en tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50.

13.1.7.           Aðilar samnings þessa eru sammála um skipun yfirtrúnaðar­manns skv. samkomulagi sem fylgir samningi þessum. Greinin og samkomulag varðandi hana verði endurskoðað í viðræðum við Landsvirkjun.