15.1.1. Ákvæði þessa kafla gilda um stjórnendur eftirtalinna tækja utan jarðganga án 30% álags samkvæmt 19. kafla: Gröfur stærri en 30 tonn, hjólaskóflur stærri en 28 tonn, jarðýtur stærri en 25 tonn, efnisflutningavagna 30 tonn og stærri og borvagna utan ganga.
15.2.1. Til að auka öryggi í starfi og bæta nýtingu tækis skal beitt tveggja manna kerfi á stórvirkum vinnuvélum skv. grein 15.1.1. við aðstæður sem tilgreindar eru í greinum 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. hér á eftir. Skal þá stjórnendum vinnuvéla skylt að skiptast á um matar og kaffitíma án aukagreiðslu, sé það ósk vinnuveitenda að tækið vinni stöðugt.
Við aðrar aðstæður en um getur í grein 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. annast einn maður stjórn vinnuvélar enda komi til greiðsla skv. grein 15.3.4.
15.2.2. Tveir menn skuli skiptast á um að stjórna krana, þegar unnið er við samfelldar hífingar eða við erfiðar aðstæður svo sem þungar hífingar, stöðuga steypuvinnu og blindhífingar yfir vinnandi mönnum, og aðrar þær hífingar sem krefjast aðgæslu og er þá öðrum kranamanninum skylt að annast bendingar.
15.2.3. Sé unnið lengur en 8 klst. samfleytt með jarðýtum í samfelldri rippun eða öðrum vélum í grjótvinnu skulu tveir menn skiptast á um stjórn tækisins.
Ef unnið er lengur en sem svarar venjulegum vinnutíma (12 stundir) skal unnið á vöktum, ella skiptist tveir menn á um stjórn tækisins.
15.2.4. Við aðrar sambærilegar og sérstaklega erfiðar aðstæður skal beita tveggja manna kerfi. Rísi ágreiningur um beitingu þess skal honum vísað til fastanefndar og skal hún úrskurða svo fljótt sem verða má. Málskot skv. þessu skal eigi tefja verkframkvæmd, og öðlast úrskurður gildi frá uppkvaðningardegi.
15.3.1. Beita skal tveggja manna kerfi við handborun með loftborun (einnig með háþrýstitækjum) og við fleygavinnu.
15.3.2. Þegar framkvæmd er rafsuða, sem vinna þarf við óslitið í lokuðu eða illloftræstanlegu rúmi, svo og þegar sjóða þarf samfellda mangan slitsuðu, skal beita tveggja manna kerfi.
15.3.3. Sé unnið eftir tveggja manna kerfi á vinnuvél og annar tveggja stjórnenda veikist eða slasast, skal hinn annast stjórn vélarinnar einn allt að tveimur vöktum eða vinnudögum, enda komi greiðsla fyrir skv. grein 15.3.4.
15.3.4. Þegar einn maður annast stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. skal greitt 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns (þó ekki ferðalaun). Við uppskipti á bónus skal einnig miða við 17% álag á greitt kaup þeirra, sem einir annast stjórn stórvirkra vinnuvéla.
Stjórnendum efnisflutningavagna 30 tonna og stærri og borvagna utan ganga skulu fá greitt 12% álag á greidd laun (þó ekki ferðalaun). (Nýtt álag skv. samningi hefur ekki áhrif til hækkunar launa þeirra starfsmanna sem þegar hafa 12% álag á sín laun).