Orlof

4.1.       Lágmarksorlof

4.1.1.             Lágmarksorlof er 24 dagar eða 10,17% af launum. Að öðru leyti fer um orlof skv. samningum viðkomandi landssambanda og SA og eftir gildandi lögum um orlof.

4.1.2.             Þeir, sem samkvæmt ósk vinnuveitanda fá ekki 21 dags sumarleyfi á tímabilinu 2. maí til 15. september, skulu fá 25% lengingu á þeim hluta orlofstímans, sem veittur er utan ofan­greinds tíma.

4.1.3.             Þeir starfsmenn, sem rétt eiga til 1 mánaðar uppsagnarfrests eða meira, skulu taka orlofslaun, en um orlof af yfirvinnu þeirra fer skv. grein 4.1.1.

4.2.       Veikindi í orlofi

4.2.1.             Veikist starfsmaður í orlofi innanlands það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda t.d. með símskeyti. Fram skal koma hjá hvaða lækni hann hyggst fá læknisvottorð.

Sama gildir ef starfsmaður veikist í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada það alvarlega að það leiði til sjúkrahúsvistar.

Fullnægi starfsmaðurinn tilkynningarskyldunni og standi veik­indin lengur en í 3 sólarhringa innanlands eða 6 sólarhringa innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu. Undir framangreindum kringumstæðum skal starfsmaður ávallt færa sönnur á veik­indi sín með læknisvottorði.

Fyrirtæki á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á.