Vinnutími

2.1.       Dagvinna

2.1.1.             Dagvinnutími skal vera 40 klst. á viku (virkur vinnutími 37 klst. og 5 mínútur), á tímabilinu frá kl. 08:00 til kl. 18:00 frá mánudegi til föstudags. Heimilt er að haga dagvinnutíma með öðrum hætti, ef vinnuveitandi og starfsmaður koma sér saman um það. Þó skal dagvinna ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum og aldrei hefjast fyrr en kl. 07:00 og aldrei ljúka síðar en kl. 19:00. Upphaf dagvinnu hvers starfsmanns skal ákveðið í ráðningarsamningi hans og verður ekki breytt nema að undangenginni uppsögn eða með sam­komulagi.

2.1.2.             Hinn samningsbundna hámarksdagvinnutíma skal vinna innan ofangreindra marka þannig, að dagvinnutími dag hvern verði samfelldur.

2.1.3.             Heimilt er með samkomulagi milli starfsfólks og vinnuveitanda að greiða fyrir störf, sem unnin eru utan dagvinnutíma með fríum á dagvinnutímabili, enda sé verðgildi unninna vinnu­tímaeininga þeirra, er utan dagvinnu falla, lagður til grund­vallar.

Dæmi:  1 klst. unnin í yfirvinnu jafngildir 1 klst. og 48 mín. og 1 klst. unnin í stórhátíðavinnu jafngildir 2 klst. og 23 mín.

2.2.       Yfirvinna

2.2.1.             Samningsbundin yfirvinna hefst, þegar lokið er umsaminni dagvinnu.

2.3.       Frídagar

2.3.1.             Helgidagar eru:

Skírdagur.
Annar í páskum.
Sumardagurinn fyrsti.
1. maí.
Uppstigningardagur.
Frídagur verslunarmanna.
Annar í jólum.

2.3.2.             Stórhátíðadagar eru:

Nýársdagur.
Föstudagurinn langi.
Páskadagur.
Hvítasunnudagur.
17. júní.
Aðfangadagur jóla eftir kl. 12:00.
Jóladagur.
Gamlársdagur eftir kl. 12:00.

2.3.3.             Aðfangadag jóla og gamlársdag reiknast dagvinnutími til kl. 12:00 á hádegi.

2.3.4.             Á annan nýársdag skal vinna ekki hefjast fyrr en kl. 10:00. Daginn fyrir Þorláksmessu er heimilt að hafa opnar stofur til kl. 10:00 að kvöldi. Er þá meisturum skylt að veita starfsfólki frían hádegisverð. Á Þorláksmessu er heimilt að hafa opið til kl. 24.00 og skal þá meistari veita starfsfólki tvær fríar mál­tíðir, ef unnið er svo lengi, annars eina máltíð. Matur skal veittur á vinnustað, þannig að sem minnstar frátafir verði. Aðfangadag jóla og gamlársdag skal vinna hefjast á venjuleg­um tíma og ljúka kl. 12:00.

2.4.       Vanræktar vinnustundir

2.4.1.             Komi sveinn of seint til vinnu á hann ekki kröfur til kaups fyrir þann stundarfjórðung, er hann mætir í né fyrir þann tíma, sem áður er liðinn.

2.4.2.             Þegar starfsfólk kemur til vinnu, skal það vera tilbúið að hefja vinnuna þegar í stað, þ.e. hafa lokið fataskiptum og snyrtingu.

2.4.3.             Skylt er starfsfólki að sýna ástundun, prúðmennsku og reglu­semi í starfi.

2.4.4.             Starfsfólki er skylt að gæta varúðar og þagmælsku um sitt­hvað, er því kann að hlotnast vitneskja um í starfi. Starfsfólk skal mæta stundvíslega til vinnu sinnar, hvort heldur þá, er vinna hefst eða eftir matarhlé.

2.5.       Lágmarkshvíld

2.5.1.             Daglegur vinnutími

Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til 06:00.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst.

2.5.2.             Frávik og frítökuréttur

Við sérstakar aðstæður, þegar bjarga þarf verðmætum, má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. og skal þá veita 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna.

Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmi­legt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi: Séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist.  Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum óski starfsmaður þess.  Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða átta klst. samfellda hvíld.

Vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt.  Komi starfsmaður til vinnu á frídegi eða helgi greiðist yfirvinnukaup fyrir unninn tíma án frekari aukagreiðslna af þessum sökum.

Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vakta­skiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.

Heildarfrítökuréttur vegna vinnu á sama sólarhring getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur tíu dagvinnutímum.

Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan anna­tíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.

Útköll

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu eftir að venjulegum vinnu­degi er lokið skal fara með eins og hér segir:

Ljúki útkalli fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringur). Ef samfelld hvíld fer niður fyrir 8 klst. gildir grein 2.8.3.

Ef útkalli lýkur á tímabilinu kl. 00:00 til 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.

2.5.3.             Hvíld undir 8 klst.

Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir verulegt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst. 

Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar skv. gr. 2.5.2., fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.

2.5.4.             Vikulegur frídagur

Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.

2.5.5.             Frestun á vikulegum frídegi

Þegar ekki er unnið í vaktavinnu skal almennt miða við að vikulegur frídagur sé á sunnudegi og að allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi.

Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta viku­legum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir sam­felldir frídagar á tveim vikum. Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum frídegi lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga.

Falli frídagar á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.

Hlé

Starfsmaður á rétt á a.m.k. 15 mínútna hléi ef daglegur vinnu­tími hans er lengri en sex klst. Kaffi- og matarhlé teljast hlé í þessu sambandi.

Hvað varðar gildissvið, hvíldartíma vinnuhlé og fleira vísast til samnings ASÍ og VSÍ frá 30. desember 1996 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma og fylgir samningi þessum fylgiskjal og telst sem hluti hans, sem og samhljóða samnings ASÍ og VMS. Framgreind ákvæði eru til fyllingar 13. gr. þess samnings.

2.6.       Vaktavinna

2.6.1.             Heimilt er að vinna á vöktum þannig að vaktavinna nái til hluta eða allra starfsmanna fyrirtækisins.

2.6.2.             Vaktavinnutímabil / Fyrirvari / Uppsögn

                     Við upptöku vakta ber að hafa samráð við hlutaðeigandi starfsmenn um útfærslu vaktanna og tilkynna viðkomandi stéttarfélagi um fyrirkomulag.

                     Sé fyrirhugað að taka upp vaktavinnu í fyrirtæki, þarf að tilkynna starfsmönnum þá fyrirætlan með fyrirvara, sem er háður lengd væntanlegs vaktavinnutímabils. Sama gildir um uppsögn vakta­vinnufyrirkomulags:

                               I                      II                  III

Lengd vaktavinnu
tímabils       7 d. 1) – 1 mán.     1 – 6 mán.   6 mán.
og lengur

Fyrirvari
vaktupptöku        3 dagar              14 dagar         21 dagur

Uppsögn vakta    Samtímis             1 vika 2)         1 mán.

1)     Ef sérstakar ástæður krefja má að höfðu samráði við starfsmenn taka upp styttra vaktavinnutímabil.
2)     Þó skal getið um áætluð vaktavinnulok.

2.6.3.           Lengd vakta og neysluhlé

                     Gr. tími                                   Neysluhlé

                     A   8   klst.      35    mín.               (1 hlé)

                     B   9             40                        (2 hlé)

                     C 10             45                        (2 hlé)

                     D  11            50                         (2 -3 hlé)

                     E  12             65                         (2-3 hlé)

Starfsmaður í vaktavinnu hefur ekki matartíma skv. gr. 3.1.1. og 3.3.1., nema um það hafi verið samið.

2.6.4.           Vaktaálag fyrir vaktavinnu

                     Tímabil                                               Álag

                     kl. 08:00 – kl. 16:00 mán.- föstud.            0%

                     kl. 16:00 – kl. 24:00 mán. – föstud.         35%

                     kl. 08:00 – kl. 24:00 laugard. – sunnud.   55%

                     kl. 00:00 – kl. 08:00 alla daga                 60%

2.6.5.             Yfirvinna

                     Öll vinna vaktavinnumanna umfram 40 klst. á viku að meðal­tali skal greidd með yfirvinnukaupi. Vinna á stórhátíðum greiðist þó með yfirvinnukaupi auk fastra launa.

2.6.6.             Vaktaskipta-/fataskipta-/þvottagjald

                     Greiða skal 15 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja unna vakt fyrir þann tíma er fer til fataskipta, þvotta starfsmanna, svo og vaktaskipta á vinnustað (verkstæði), enda skiptast starfsmenn á nauðsynlegum upplýsingum við vaktaskipti og vinna stöðvist ekki á meðan.

2.6.7.             Sérstakt gjald fyrir skammtímavaktir

2.6.7.1.          Greiða skal 10 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja unna vakt, þegar vaktavinna stendur yfir skemur en 1 mánuð. (Hér er ekki átt við lengd verka).

2.6.7.2.          Hafi vaktavinnutímabil verið áætlað skemmra en einn mánuður, en lengist síðan einhverra hluta vegna, skal þó eigi greiða þetta skammtímavaktaálag lengur en í einn mánuð.

2.6.7.3.          Hafi vaktavinnutímabil hins vegar verið áætlað lengra en einn mánuður, en lýkur þó innan mánaðar skal greiða skammtíma­vaktaálag á þær vaktir, sem unnar voru.

2.6.7.4.          Samkomulag þetta um vaktavinnu breytir ekki þeim vakta-vinnusamningum sem í gildi eru.

Bókun um upptöku vaktavinnu

Vaktavinna verður ekki tekin upp hjá þeim starfsmönnum sem eru í starfi hjá fyrirtæki við undirritun samnings þessa árið 2004 nema með samþykki þeirra.