3.1. Matar- og kaffitímar í dagvinnu
Matarhlé skal vera ein klukkustund á tímabilinu frá klukkan 12:00 – 14:00, mánudag til og með föstudegi. Matartími telst ekki til vinnutíma. Heimilt er með samkomulagi að taka upp styttri matarhlé.
Kvöldmatarhlé skal vera ein klukkustund á tímabilinu frá kl. 19:00 – 21:00.
Kaffihlé skulu vera 15 mín. fyrir hádegi og 20 mín. eftir hádegi og skulu þau tekin eftir samkomulagi. Öll kaffihlé reiknast sem vinnutími. Vegna óreglulegra kaffitíma skal meistari leggja sveinum til kaffi á kaffitímum.
3.2. Um vinnu í matar- og kaffitímum
Unninn matar- og kaffitími greiðist með yfirvinnukaupi, þegar um dagvinnutímabil er að ræða. Ef unnið er í matar- og kaffitímum á yfirvinnutímabili, reiknast tilsvarandi lengri tími.
Óheimilt er að afskrá starfsmann úr vinnu þegar komið er að kaffi- eða matartímum í yfirvinnu á tímabilinu frá kl. 22:30 (eða fyrsta neysluhlé eftir kvöldmatarhlé) til kl. 07:00. Þeir greiðast til viðbótar hinum unnu tímum.