Félagsgjöld, sjúkra-, orlofs- og lífeyrissjóðsiðgjöld

10.1.     Félagsgjöld

10.1.1.           Vinnuveitendur skuldbinda sig til að halda mánaðarlega eftir félagsgjöldum jafnt félaga sem aukafélaga Félags hársnyrti­sveina og skila þeim samhliða orlofsheimila- og sjúkrasjóðs­iðgjöldum til félagsins og á sömu skilagrein.

10.1.2.           Aðilar eru sammála um, að Félag hársnyrtisveina v/sveina fái aðstöðu til þess að taka félagsgjöld sem % af kaupi t.d. með innheimtu samhliða lífeyrissjóðsgreiðslu og af sama gjald­stofni.

10.2.     Iðgjöld í sjúkra- og orlofssjóði

10.2.1.           Greiða skal 1% á allt kaup starfsmanna til að standa straum af veikindum og sjúkrakostnaði og renni þær greiðslur í sjúkrasjóð FHS.

10.2.2.           Greiða skal 0,25% á allt kaup starfsmanna í orlofsheimilasjóð FHS.

10.3.     Iðgjöld í lífeyrissjóði

10.3.1.           Iðgjöld til lífeyrissjóðs viðkomandi starfsgreinar eða starfs­hóps greiðist af öllu starfsfólki 16 ára til 70, sem tekur laun samkvæmt samningi þessum.

10.3.2.                       Iðgjöld af öllum launum og að viðbættu orlofi er 10%. Starfs­maður greiðir 4% en atvinnurekandi 6%.

Frá 1. janúar 2005 hækkar framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð í 7,0% og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns, sbr. gr. 10.3.3.2.

Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til sam­tryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

10.3.3.           Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

10.3.3.1.         Starfsmaður leggur til viðbótarframlag

Leggi starfsmaður a.m.k. 2% viðbótarframlag í séreignarsjóð skal mótframlag vinnuveitanda vera 2%.

10.3.3.2.         Ekki viðbótarframlag af hálfu starfsmanns

Leggi starfsmaður ekki viðbótarframlag í séreignarsjóð greiðir vinnuveitandi 1% í séreignarsjóð hans.

Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi starfsmaður á aðild að, nema starfsmaður ákveði annað.

Viðbótarframlag þetta í séreignarsjóð fellur niður 1. janúar 2005 samhliða hækkun framlags atvinnurekenda í samtrygg­ingarlífeyrissjóð í 7,0%, sbr. gr. 10.3.2.

10.3.3.3.         Framlag á grundvelli laga nr. 113/1990 um tryggingagjald telst ekki hluti greiðslna skv. gr. 10.3.3.

10.4.     Skilagreinar

10.4.1.           Til að greiða fyrir innheimtu gjalda láta innheimtuaðilar (lífeyrissjóðir, sveinafélög) í té sérstök eyðublöð (skilagrein), sem launagreiðendur útfylla og skila til innheimtuaðila, ásamt greiðslu.

10.4.2.           Í stað skilagreina samkvæmt 10.4.1. er atvinnurekendum heimilt að nota tölvuunnar skilagreinar, enda uppfylli þær þau skilyrði, sem krafist er varðandi eintakafjölda, fullnægjandi upplýsingar og uppsetningu.