Um orlof

4.1.             Sumarorlof.

4.1.1.                             
Lágmarksorlof skal vera 192 vinnuskyldustundir miðað við fullt árstarf. Starfsmaður sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári skal fá orlof 16 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf. Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof skal hann fá óyggjandi upplýsingar um hvenær hann skuli mæta á vakt að orlofi loknu og skal þá að jafnaði miða við að varðskrá haldist óbreytt.

4.1.2.                             
Sá starfsmaður sem náð hefur 30 ára aldri á því almanaksári sem tímabil sumarorlofs tilheyrir fær að auki sem svarar til 24 vinnuskyldustunda í dagvinnu. Við 40 ára aldur fær hann enn að auki orlof á sama hátt, sem svarar til 24 vinnuskyldustunda í dagvinnu.

4.2.             Orlofslaun.

4.2.1.                             
Starfsmaður skal fá 10,17% orlofsfé af yfirvinnu og álagsgreiðslum. Við 30 ára aldur skal hann fá 11,59%. Við 40 ára aldur skal hann fá 13,04%

4.2.2               
Lágmarksupphæð orlofslauna fyrir fullt starfsár skal nema 12% af maí mánaðar launum orlofstökuársins.

4.2.3               
Greiða skal dánarbúi áunnin orlofsréttindi látins starfsmanns.

4.3.             Orlofsárið

4.3.1.                             
Orlofsárið er frá 1. maí til  30 apríl

4.4.             Sumarorlofstími

4.4.1.                             
Tímabil sumarorlofs er frá 15. maí til 30 september.

4.4.2.                             
Starfsmaður á rétt á að fá 192 vinnuskyldustunda orlofs sitt á sumarorlofstímabilinu (og allt að fullu orlofi á sama tíma). Eigi starfsmaður lengra orlof skv. gr. 4.1.2. á hann rétt á að fá allt orlof sitt á sumarorlofstímabilinu, verði því við komið vegna starfa stofnunarinnar

4.4.3.                             
Þeir starfsmenn sem samkvæmt ósk vinnuveitanda fá ekki fullt orlof á sumarorlofstímabilinu, skulu fá 33% lengingu á þeim hluta orlofstímans, sem veittur er utan ofangreinds tíma.

4.5.                          Ákvörðun orlofs

4.5.1.                             
Yfirmaður ákveður í samráði við starfsmann hvenær orlof skuli veitt. Honum er skylt að verða við óskum starfsmanns um hvenær orlof skuli veitt á sumarorlofstíma, ef því verður við komið vegna starfa stofnunarinnar. Yfirmaður skal  að lokinni könnun á vilja starfsmanna tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlofs skuli hefjast nema sérstakar ástæður hamli.

4.6.                          Veikindi í orlofi

4.6.1.                             
Veikist starfsmaður í orlofi telst sá tími sem veikindin nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði, að hann geti ekki notið orlofsins.

4.7.                          Frestun orlofs

4.7.1.                             
Nú tekur starfsmaður ekki orlof eitthvert ár og á hann þá rétt á, með samþykki yfirmanns, að leggja saman orlof þess árs og hins næsta til orlofstöku síðara árið

4.7.2.                             
Nú tekur starfsmaður ekki orlof eða hluta af orlofi skv. beiðni yfirmanns síns og geymist þá orlofið til næsta árs, ella ber honum þá yfirvinnukaup fyrir starf sitt þann tíma. Annars er starfsmönnum óheimilt að taka vinnu í stað orlofs í starfsgrein sinni.

4.8.             Orlofsuppbót

4.8.1                               
Hinn 1. júní ár hvert skal starfsmaður sem er í starfi til 30. apríl næst á undan fá greidda sérstaka eingreiðslu, orlofsuppbót, er miðast við fullt starf næstliðið orlofsár. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3 mánaða (13 vikna) samfellt starf á orlofsárinu skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall. Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum.

Orlofsuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum samningsins. Á orlofsuppbót reiknast ekki orlofsfé.

Orlofsfé :     

Árið 2002 kr.      9.900

Árið 2003 kr.    10.000

Árið 2004 kr.    10.400

Árið 2005 kr.    10.600

4.9.             Launalaust leyfi.

4.9.1.              
Eftir 5 ára starf skulu starfsmenn eiga kost á allt að 6 mánaða launalausu leyfi, valdi það ekki verulegri röskun á starfsemi stofnunar. Leyfi þetta veitist í einu lagi að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:

a.  Starfsmaður sæki um leyfi með 3ja mánaða fyrirvara. Yfirmaður ákveður upphaf og lok leyfis í samráði við starfsmann.

b.  Ekki er skylt að veita fleiri leyfi en svo að mest 10% félagsmanna hjá stofnun séu samtímis í leyfi.

c.   Starfsmaður á rétt á að ganga inn í fyrra starf sitt er leyfi lýkur skv. framansögðu.

4.9.2                               
Starfsmaður skal eiga rétt á launalausu leyfi, ef honum býðst tækifæri og/eða styrkur til að vinna að tilteknu verkefni, m.a. tengdu starfi hans. Slíkt leyfi skal tekið í samráði við yfirmann stofnunar.