Verkfæri og vinnuföt

9.1.  Vinnuföt

9.1.1.      Almennur vinnufatnaður

9.1.1.1.        
Starfsmenn skulu fá tvo vinnugalla á ári og skal skila ónothæfum fyrir nýjan. Vinnugallar er eign atvinnurekanda og sér hann um hreinsun á þeim á sinn kostnað. Við starfslok skal starfsmaður standa skil á öllum vinnufatnaði.

9.1.1.2.        
Tegund vinnufatnaðar ákvarðast með tilliti til hverskonar störf starfsmenn vinna.

9.1.2.      Sérstakur vinnufatnaður

9.1.2.1.        
Í sérstökum óþrifatilfellum þar sem verkefnið eða vinnustaðurinn er mengaður sóti, lýsi, tjöru, olíu eða hráefni fiskimjölsverksmiðju, svo og öðrum þeim efnum er að mati verkstjóra og trúnaðarmanns geta eyðilagt fatnað, skulu starfsmenn fá sérstök hlífðarföt.

9.1.2.2.        
Hlífðarhanska (skinnhanska) og hlífðarsvuntur skulu starfsmenn fá við rafsuðu og grófgerð störf.

9.1.2.3.        
Þegar starfsmenn vinna við þvott með sýrum eða þynni, svo og þegar unnið er með uppleysi, skulu þeim útvegaðar svuntur og hlífðarhanskar (gúmmíhanskar).

9.1.3.       Hlífðarfatnaður

Um öryggisskó og hlífðarfatnað vísast til reglna um notkun persónuhlífa nr. 497/1994. Óheimilt er að greiða fatagjald í stað þess hlífðarfatnaðar sem um getur í þessum reglum, enda telst hann ekki til almenns vinnufatnaðar.

9.1.4.           
Brennist vinnugallar eða skemmist á annan hátt af ástæðum sem orsakast vegna vinnunnar skal slíkt bætt.

9.2.     Verkfæri

9.2.1.           
Atvinnurekandi leggur til öll verkfæri. Skylt er sveinum að gæta þess, að áhöld atvinnurekanda glatist ekki né skemmist af þeirra völdum og í vinnulok að hreinsa verkfæri og láta þau á sinn stað.

9.2.2.           
Ef verkfæri eru í því ástandi að notkun þeirra auki slysahættu að dómi trúnaðarmanns og verkstjóra, skulu þau ekki notuð, enda tilkynnist það atvinnurekanda eða fulltrúa hans þegar í stað.

9.3.     Tjón á munum

9.3.1.           
Verði starfsmenn sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og munum við framkvæmd vinnu sinnar, svo sem úrum, gleraugum o.fl. þess háttar, skal það bætt samkvæmt mati. Slíkt tjón verður þó aðeins bætt ef það verður vegna óhapps á vinnustað. Eigi skal bæta slíkt tjón ef það verður vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns. Sama gildir ef starfsmaður verður fyrir tjóni af völdum kemiskra efna.