Matar- og kaffitímar, fæðis- og flutningskostnaður

3.1.    Matar- og kaffitímar í dagvinnu

3.1.1.           
Hádegismatartími er ein klst. á tímabilinu frá kl. 11:30 til 13:30 og telst hann ekki til vinnutíma. Starfsmenn og atvinnurekandi á hverjum vinnustað skulu gera með sér samkomulag um nánari tímasetningu á matarhléum. Heimilt er með samkomulagi að taka upp styttri matarhlé.

3.1.2.           
Kaffihlé í dagvinnu skulu vera tvö, samtals 35 mínútur, og greiðast sem vinnutími. Kaffihlé skulu tekin á tímabilinu frá kl. 9:00 til kl, 10:00 og frá kl. 15:00 til kl: 16:00. Starfsmenn og atvinnurekandi á hverjum vinnustað skulu gera með sér samkomulag um nánari tímasetningu á kaffihléum. Heimilt er með samkomulagi á vinnustað að fella annan eða báða kaffitímana niður og styttist þá dagvinnutímabilið.

3.1.3.           
Ef unnið er í hádegismatartíma eða morgun- eða síðdegiskaffitímum skal það greitt sem yfirvinna. Sé aðeins hluti matar- eða kaffitíma unninn greiðist yfirvinnukaup sem því nemur.

3.2.     Matur

3.2.1            
Stefnt skal að því að koma upp mötuneytisaðstöðu fyrir starfsmenn eða tryggja þeim aðgang að mötuneyti. Þar sem mötuneytisaðstöðu hefur verið komið upp skulu samningsaðilar vinna að því að sem flestir starfsmenn skipti við mötuneytið. Mötuneyti telst sá staður, þar sem aðstaða er til að bera fram mat á sama hátt og á viðurkenndum matsölustöðum, enda séu húsakynni samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum og samningsaðilum. Fyrirtæki greiða kostnað við rekstur mötuneytis. Starfsmenn greiði hins vegar efnisverð matar.

3.2.2.           
Þegar yfirvinna fellur til með innan við tvær klst. fyrirvara sem og að næturlagi, ber atvinnurekanda að leggja starfsmönnum til heitan málsverð í kvöldmatartímum þeim að kostnaðarlausu.

3.3.    Matar- og kaffitímar í yfirvinnu

3.3.1.           
Ef unnin er yfirvinna skal kvöldmatarhlé alla daga vera kl. 19:00 – 20:00. Þar sem neysluhlé hafa verið stytt eða aflögð og viðverutími á vinnustað styttur af þeim sökum getur kvöldmatarhlé færst fram allt til kl. 18:00 enda sé þá tekið matarhlé og vinnu fram haldið að hléi loknu. Matartími að nóttu skal vera kl. 02:00 – 03:00.

3.3.2.           
Laugardaga og sunnudaga skal veita jafn mörg kaffihlé og aðra daga.

3.3.3.           
Þegar unnin er yfirvinna skal vera 20 mín. kaffihlé kl. 22:30, 04:30 og 06:30.

3.3.4.           
Öll matar- og kaffihlé í yfirvinnu og helgidagavinnu greiðast sem vinnutími.

3.3.5.           
Ef unnið er í matar- eða kaffitíma í yfirvinnu reiknast tilsvarandi lengri tími unninn.

3.3.6            
Óheimilt er að afskrá starfsmann úr vinnu þegar komið er að kaffi- eða matartímum í yfirvinnu á tímabilinu frá kl. 22:30 (eða fyrsta neysluhlé eftir kvöldmatarhlé) til kl. 07:00.  Þeir greiðast til viðbótar hinum unnu tímum.

3.4.    Ferðir

3.4.1.           
Þegar starfsmenn hefja eða hætta vinnu á tímabilinu frá kl. 00:00 til kl. 07:00 að morgni virkra daga, og frá kl. 00:00 til kl. 10:00 að morgni sunnudaga og aðra helgidaga, þá skal þeim séð fyrir ferðum að og frá vinnustað. Sé unnið á stórhelgidögum, þ.e. jóladegi, föstudeginum langa, páskadegi, nýársdegi, hvítasunnudegi eða eftir kl. 12:00 á aðfangadegi og gamlársdegi, skal starfsmönnum séð fyrir ferðum.

3.5.     Bifreiðakostnaður

3.5.1.           
Noti starfsmaður eigin bifreið í þágu atvinnurekanda, samkvæmt samkomulagi sem þeir gera, á hann rétt á greiðslu sem skal vera sú sama og ákveðin er af Ferðakostnaðarnefnd ríkisins hverju sinni.

3.5.2.           
Við ákvörðun vegalengda skal mæld vegalengd frá brottfararstað til viðkomandi vinnustaðar og sömu leið til baka. Heimilt er að semja um fasta krónutölu pr. ferð er miðast við afmörkuð svæði og byggist á ofangreindu kílómetragjaldi.

3.5.3.           
Minnsta gjald skal jafngilda gjaldi fyrir 11,11 km.

3.5.4.           
Ef ekið er með efni og/eða tæki, sem annars þyrfti sendibíl til, greiðist 30% álag á taxta skv. grein 3.5.1 en 15% álag þegar verkfærakistur eru fluttar.

3.5.5.           
Ef atvinnurekandi óskar er starfsmanni skylt að færa akstursbók er tilgreini fjölda ferða og/eða ekna kílómetra til útreiknings gjaldinu.

3.6.     Vinna innan flutningslínu

3.6.1.           
Eftirfarandi gildir um starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu. Á starfssvæðinu skulu starfsmenn mæta til vinnu (þ.e. á viðkomandi verkstæði) og fara frá vinnu í eigin tíma. Starfsmenn skulu fluttir að og frá vinnustað (verkstæði) í vinnutíma, vinni þeir utan vinnustöðvar (verkstæðis).

3.6.2.           
Á höfuðborgarsvæðinu skal starfssvæði skipt í þrjú svæði vegna greiðslu á fæði.

1. svæði:      Reykjavík, Kópavogur og Seltjarnarnes.

2. svæði:      Hafnarfjörður, Garðabær og Bessastaðahreppur.

3. svæði:      Mosfellsbær, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur.

Hliðstæð ákvæði gilda varðandi ýmis önnur félagssvæði.

3.6.3.           
Þegar unnið er utan þess svæðis sem vinnustöð (verkstæði) er staðsett í, skulu starfsmenn hafa frítt fæði, enda sé starfsmönnum ekki ekið heim til matar, eða að mötuneyti viðkomandi vinnustöðvar (verkstæðis).
 

3.7.    Vinna utan flutningslínu

3.7.1.           
Sé vinnustaður utan þeirra marka, er greinir í grein 3.6. gildir eftirfarandi:

3.7.1.1.        
Starfsmenn skulu fluttir þeim að kostnaðarlausu til og frá vinnu kvölds og morgna.

3.7.1.2.        
Atvinnurekanda er heimilt að ákveða einn brottfararstað innan flutningslínu til vinnustaðar, sem er utan flutningsmarka. Ákvörðun um brottfararstað skal þó háð því að á honum sé viðunandi aðstaða til bifreiðageymslu og biðskjóls.

3.7.1.3.        
Tefjist brottferð til heimilis eða vinnustaðar og starfsmönnum er ekki um að kenna, skulu þeir halda fullum launum meðan á biðtíma stendur og þar til komið er á áfangastað.

3.7.1.4.        
Mæti starfsmaður ekki á tilsettum tíma til brottferðar frá heimili eða vinnustað, verður hann sjálfur að sjá sér fyrir flutningi á eigin kostnað.

3.7.1.5.        
Starfsmönnum skal séð fyrir málsverðum þeim að kostnaðarlausu. Heimilt er þó atvinnurekanda að flytja starfsmenn til heimila sinna eða á fasta starfsstöð í og úr mat í stað málsverðar enda séu þær ferðir farnar í vinnutíma.

3.7.1.6.        
Þegar aðstæður eru þannig í verkum sem standa skemur en 5 daga að atvinnurekandi getur ekki lagt starfsmönnum til fæði, er honum heimilt að gera samkomulag við starfsmenn um að þeir sjái sér sjálfir fyrir hádegis- og/eða kvöldverði. Skal þá greiða þeim dagpeninga skv. útgefnum tölum ferðakostnaðarnefndar ríkisins.

3.8.    Um vinnu utan umdæmis

3.8.1.           
Þegar unnið er svo langt frá heimabyggð, að nauðsynlegt er að liggja við á vinnustað, gilda ákvæði þessa samnings eftir því sem við á, með þeim viðaukum, sem í gr. 3.8.2. – 3.8.4. segir.

3.8.2.           
Laun, uppihald og ferðakostnaður

3.8.2.1.        
Greiða skal kaup og allan uppihalds- og ferðakostnað frá því lagt er af stað og þar til komið er heim aftur, samkvæmt eftirfarandi reglum:

3.8.2.2.        
Á leið til ákvörðunarstaðar þar til vinna hefst, skal greitt kaup fyrir alla þá tíma sem verið er á ferðalagi.

3.8.2.3.        
Sömu ákvæði og hér hafa verið tilgreind gilda um heimferð. Þessi ákvæði gilda við upphaf og enda verks og skipulagðar ferðir í byrjun og lok vinnulotu. Heimilt er að semja um fasta lengd ferðatíma.

3.8.3.           
Viðlega á vinnustað

3.8.3.1.        
Þegar legið er við á vinnustað skulu starfsmenn hafa frítt fæði og húsnæði og á þá gr. 3.7.1.6. ekki við. Um aðbúnað að öðru leyti vísast til reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996.

3.8.4.           
Helgarferðir milli vinnustaðar og heimabyggðar

3.8.4.1.        
Starfsmenn skulu hafa fríar ferðir í vinnutíma til og frá vinnustað um hverja helgi, sé unnið í ekki meira en 250 km fjarlægð frá lögskráðri starfsstöð.

3.8.4.2.        
Ef vinnustaður er utan 250 km, er heimilt að skipuleggja vinnu þannig að töku vikulegs frídags sé frestað, þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveimur vikum, sem skulu vera laugardagur og sunnudagur, verði því við komið. Hér gilda ákvæðin undir fyrri liðum þessa kafla, en að því undanskildu að ekki er skylt að flytja starfsmenn til lögsagnarumdæmis nema um aðra hverja helgi.

3.8.4.3.        
Ákvæði þessarar greinar um ókeypis flutning milli ráðningarstaðar og vinnustaðar og kaupgreiðslu á meðan ferðin stendur yfir, gilda því aðeins að starfsmenn hætti vinnu af ástæðum er atvinnurekandi samþykkir.

3.8.4.4.        
Sá, sem ekki mætir á tilteknum stað og tíma til brottferðar, verður sjálfur að sjá fyrir fari á sinn kostnað.

3.8.4.5.        
Sé ófært til heimabyggðar af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum, er það atvinnurekanda vítalaust, enda skal veita frí strax og aðstæður leyfa.

3.9.   Dagpeningagreiðslur á ferðalögum erlendis

3.9.1.           
Dagpeningagreiðslur til starfsmanna vegna ferða erlendis fylgi ákvörðun Ferðakostnaðarnefndar ríkisins hafi fyrirtæki ekki sérstakar reglur um greiðslu ferðakostnaðar.

3.9.2.                        
Um staðfestingu ráðningarkjara við störf erlendis vísast til samkomulags VSÍ og ASÍ frá 10. apríl 1996 um skyldu atvinnurekanda að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum eða skriflegri staðfestingu ráðningar við starfsmenn.

3.9.3            
Áður en starfsmaður heldur til starfa erlendis skal atvinnurekandi ganga frá ferða-, slysa- og sjúkratryggingu.  Ef starfsmaður sem er að störfum erlendis veikist eða slasast og fyrir liggur að hann verði óvinnufær um lengri tíma, skal atvinnurekandi greiða þann kostnað vegna heimflutnings sem ekki fæst greiddur úr tryggingum eða af Tryggingastofnun ríkisins.  Sama á við um allan umframkostnað vegna veikinda og slysa sem orsakast af dvöl erlendis.

Ef um óviðráðanlegar og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms, slyss eða andláts, sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns, ber atvinnurekanda að hraða heimferð starfsmanns eins og kostur er.