Á síðustu misserum hefur færst í vöxt að samskipti launþega og atvinnurekenda hafi verið færð í búning verktakastarfsemi, þar sem launþegi hefur talist undirverktaki atvinnurekanda. Mörg deilumál hafa risið vegna óljósra reglna um réttarstöðu aðila, ábyrgð þeirra í milli og gagnvart þriðja aðila, auk þess sem rökstuddar grunsemdir hafa vaknað um undirboð í krafti þessa. Þessi skipan dregur úr gildi félagslegra réttinda samkvæmt kjarasamningum og lögum, henni fylgja vanhöld á gjöldum og sköttum og hún veikir samkeppnisaðstöðu raunverulegra atvinnurekenda.
Aðilar telja þessa þróun skaðlega og andstæða hagsmunum félagsmanna sinna og munu því með öllum tiltækum ráðum koma í veg fyrir þessa þróun.
Þá munu aðilar vinna að því á samningstímanum að settar verði skýrar reglur og skilgreiningar á stöðu launþega annars vegar og verktaka/undirverktaka atvinnurekenda hins vegar.
Eins og að framan greinir er mjög mikilvægt að aðilar geri sér sem gleggsta mynd af þeim mismun sem er á stöðu launþega og verkt
aka, sérstaklega hvað varðar ábyrgð og skyldur.
Hér á eftir verða dregin fram nokkur mikilvæg atriði til að skýra þennan mismun.
Helstu einkenni verksamnings
Verktaki er sá sem vinnur verk fyrir verkkaupa eftir verksamningi þeirra.
Verksamningur er um framvindu og lúkningu tiltekins verks – ekki vinnunnar eða tækin sem þarf til verksins.
Verkið skal unnið á tilteknum tíma.
Verkið skal unnið fyrir umsamið eininga- eða heildarverð.
Iðnmeistari, sem tekið hefur á sig ábyrgð á framkvæmdum, getur ekki ráðið starfsmann sinn sem undirverktaka og látið hann þar með taka á sig ábyrgð á þeim störfum sem eru samkvæmt lögum á ábyrgðarsviði iðnmeistarans.
Verktaki sem tekur að sér ákveðið verk er almennt ekki skyldugur að vinna það persónulega, en ber ábyrgð á framkvæmd þess.
Verktaki getur ráðið aðstoðarmenn á eigin ábyrgð í eigin reikning.
Verktaki ræður vinnutíma sínum og aðstoðarmanna, vinnustað, vinnutilhögun og stjórnun vinnunnar.
Laun verktaka eru háð hagnaði af framleiðslunni eða verkinu sem hann tók að sér að vinna.
Verktaki sér um að útvega öryggisbúnað, starfsmannaaðstöðu, verkfæri, önnur en í þeim tilvikum að menn leggi sér til handverkfæri, sbr. ákvæði í kjarasamningum, vélar og efni og greiðir allan kostnað við framkvæmd verksins eða framleiðslunnar.
Aðild að vinnuveitendafélagi bendir til verksamnings á sama hátt og aðild að stéttarfélagi bendir til vinnusamnings.
Almennar reglur um verktaka
Undirverktaki fær ekki afnot af vinnupöllum, vélum, tækjum eða öðrum búnaði aðalverktaka án sérstaks samkomulags og verða afnot þá á ábyrgð undirverktaka.
Iðngreinar sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar samkvæmt framhaldsskólalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.
Verktaka er óheimilt án samþykkis verkkaupa að láta annan aðila ganga inn í tilboð sitt eða taka við skyldum samkvæmt verksamningi í sinn stað að nokkru eða öllu leyti.
Réttarstaða þeirra sem gerast /undirverktakar, er hin sama og annarra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Þeir bera sömu ábyrgð og hafa sömu skyldur.
Þá ber þeim að standa skil á greiðslum opinberra gjalda, eins og staðgreiðslufé af launum starfsmanna þeirra og reiknuðu endurgjaldi þeirra sjálfra, á tryggingagjaldi, slysatryggingagjaldi og aðstöðugjaldi, svo dæmi séu tekin. Þá eru þeir ábyrgir fyrir skilum á lögboðnum iðgjöldum til lífeyrissjóða, sjúkra- og orlofsheimilasjóða.
Um skaðabætur utan samninga gildir sú aðalregla að atvinnurekandi ber ekki ábyrgð á tjóni af völdum sjálfstæðra verktaka sinna. Hann ber hins vegar svokallaða vinnuveitendaábyrgð (húsbóndaábyrgð) á því tjóni sem starfsmenn hans valda með saknæmum eða ólögmætum hætti við framkvæmd starfa sinna.
Eins og aðrir atvinnurekendur, bera undirverktakar sem starfa sjálfstætt í byggingariðnaði ábyrgð á því tjóni sem utanaðkomandi aðilar verða fyrir vegna starfsemi þeirra. Byggist þessi ábyrgð m.a. á almennu skaðabótareglunni og húsbóndaábyrgðarreglunni.
Með hliðsjón af tíðum vinnuslysum í byggingariðnaði má ætla að oftar geti reynt á þessa ábyrgð þar en í mörgum öðrum atvinnugreinum.
Helstu einkenni vinnusamnings/ráðningarsamnings.
Vinnusamningur eða ráðningarsamningur er milli atvinnurekanda og launþega um tiltekna vinnu – ekki tiltekið verk.
Vinnusamningurinn er almennt ekki gerður til ákveðins tíma. Hvor um sig, launamaðurinn eða atvinnurekandinn, getur sagt honum upp með tilteknum tímafresti, sbr. ákvæði í kjarasamningi án tillits til þess hvernig stendur á verki. Með vinnusamningnum skuldbindur atvinnurekandinn sig til þess að greiða umsamin laun á umsömdum tíma fyrir vinnutíma launamannsins án tillits til stöðu verksins eins og gjarnan er um verksamninga.
Launþegi ræður sig til vinnu gegn ákveðnu kaupgjaldi og tekur að sér persónulega að vinna verkið. Hann getur ekki falið öðrum að vinna það.
Launþegi verður að hlýta verkstjórn og skipulagningu atvinnurekanda og er bundinn ákveðnum atvinnurekanda í vinnutíma.
Launþegi hlýtir verkstjórn og notar verkfæri atvinnurekanda, sbr. þó ákvæði kjarasamninga um handverkfæri.
Launþegi fær föst laun í hlutfalli við lengd vinnutíma.
Í lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda segir m.a.:
„Launamaður samkvæmt lögum þessum telst: Maður sem fær endurgjald fyrir starfa sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda.“
Mismunandi réttindi verktaka og launþega
Verktakar/undirverktakar eru, eins og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur, án þeirra réttinda sem launþegar njóta samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þannig gilda hvorki kjarasamningar né ákvæði laga um lágmarkskjör um þá.
Verktakar/undirverktakar eru einnig án réttinda á borð við laun í orlofi, laun fyrir frí- og helgidaga, laun í veikinda eða slysatilfellum og réttar til greiðslna úr sjúkrasjóði. Þeir njóta ekki slysatryggingar þeirrar, er samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir launþega, og þurfa því að sjá um og kosta eigin tryggingu.
Verktakar/undirverktakar eiga heldur ekki rétt á uppsagnarfresti, skv. lögum eða kjarasamningum, né tekur ríkisábyrgð á launum þeirra eins og launþega.