Verkfæri og vinnuföt

9.1.       Vinnuföt

9.1.1.             Almennur vinnufatnaður

9.1.1.1.         
Starfsmenn skulu fá tvo vinnugalla á ári og skal skila ónot­hæfum fyrir nýjan. Vinnugallar er eign atvinnurekanda og sér hann um hreinsun á þeim á sinn kostnað. Við starfslok skal starfsmaður standa skil á öllum vinnufatnaði.

9.1.1.2.         
Tegund vinnufatnaðar ákvarðast með tilliti til hverskonar störf starfsmenn vinna.

9.1.1.3.         
Í stað almenns vinnufatnaðar er atvinnurekanda heimilt að greiða starfsmönnum í byggingaiðnaði sérstakt fatagjald kr. 13,95 á unna stund (m.v. 26.4.2004), sem tekur almennum launahækkunum. Fyrir fatagjald í tímavinnu og ákvæðisvinnu skulu starfsmenn sjá sér fyrir öllum almennum vinnufatnaði, þar með töldum samfestingum í vinnu við olíuborin mót. Fatagjaldið ber þó ekki að greiða í fjarvistum vegna veikinda eða slysa og ekki heldur í orlofi eða óunnum helgidögum.

Heimilt er með samkomulagi atvinnurekanda og starfsmanns að greiða fatagjald, kr. 8,11 (m.v. 26.4.2004) við hverja launaútborgun inn á sérstakan fatareikning hvers starfsmanns. Úttektarheimild mið­ast við inneign á fatareikningi viðkomandi starfsmanns og mið­ast úttekt við kostnaðarverð vinnufatnaðar. Nýti starfsmaður ekki úttektarheimildina að fullu, skal mismunur greiddur út við árslok eða við starfslok.

9.1.2.             Sérstakur vinnufatnaður

9.1.2.1.         
Í sérstökum óþrifatilfellum þar sem verkefnið eða vinnustaðurinn er mengaður sóti, lýsi, tjöru, olíu eða hráefni fiskimjölsverks­miðju, svo og öðrum þeim efnum er að mati verkstjóra og trúnaðarmanns geta eyðilagt fatnað, skulu starfsmenn fá sérstök hlífðarföt.

9.1.2.2.         
Hlífðarhanska (skinnhanska) og hlífðarsvuntur skulu starfs­menn fá við rafsuðu og grófgerð störf.

9.1.2.3.         
Þegar starfsmenn vinna við þvott með sýrum eða þynni, svo og þegar unnið er með uppleysi, skulu þeim útvegaðar svuntur og hlífðarhanskar (gúmmíhanskar).

9.1.3.             Hlífðarfatnaður

Um öryggisskó og hlífðarfatnað vísast til reglna um notkun persónuhlífa nr. 497/1994. Óheimilt er að greiða fatagjald í stað þess hlífðarfatnaðar sem um getur í þessum reglum, enda telst hann ekki til almenns vinnufatnaðar.

9.1.4.             Málmiðnaðarmenn

9.1.4.1.         
Brennist vinnugallar eða skemmist á annan hátt af ástæðum sem orsakast vegna vinnunnar skal slíkt bætt.

9.2.       Verkfæri/verkfæragjald

9.2.1.             Byggingamenn

9.2.1.1.         
Verkfæragjald er kr. 25,37 (m.v. 26.4.2004) og greitt með kaupi fyrir allar unnar stundir þeirra sem leggja sér til handverkfæri samkvæmt fylgi­skjölum nr. 3 og 4. Verkfæragjald pípulagningamanna er kr. 31,51 (m.v. 26.4.2004).

9.2.1.2.         
Verkfæragjald ber ekki að greiða í fjarvistum vegna veikinda eða slysa ekki heldur í orlofi eða greiddum helgidögum.

9.2.1.3.         
Í stað greiðslu verkfæragjalds er atvinnurekanda og sveinum heimilt að gera með sér samkomulag um að atvinnurekandi leggi til öll handverkfæri.

9.2.1.4.         
Ef samkomulag er um að sveinar leggi til rafmagnsverkfæri, skulu þeir fá greitt fyrir þá verkfæranotkun.

9.2.1.5.         
Sveinum skal séð fyrir ókeypis flutningi verkfæra sinna við upphaf og enda verks.

9.2.2.             Málmiðnaðarmenn

9.2.2.1.         
Atvinnurekandi leggur til öll verkfæri. Skylt er sveinum að gæta þess, að áhöld atvinnurekanda glatist ekki né skemmist af þeirra völdum og í vinnulok að hreinsa verkfæri og láta þau á sinn stað.

9.2.2.2.         
Ef verkfæri eru í því ástandi að notkun þeirra auki slysahættu að dómi trúnaðarmanns og verkstjóra, skulu þau ekki notuð, enda tilkynnist það atvinnurekanda eða fulltrúa hans þegar í stað.

9.2.2.3.         
Skipasmiðir og netagerðarmenn:

Óski atvinnurekandi þess að skipasmiður eða netagerðar­maður leggi sér til verkfæri, sbr. verkfæralista, greiðist verk­færagjald, sem nemur kr. 29,10 (m.v. 26.4.2004) hjá skipasmiðum og kr. 6,76 (m.v. 26.4.2004) hjá netagerðamönnum. Gjald þetta tekur almennum launa­hækkunum.

9.2.2.4.          Blikksmiðir:

Um blikksmiði vísast til samkomulags Félags blikksmiða og Félags blikksmiðjueigenda, dags. 3. maí 1995, sbr. fylgiskjal nr. 6.

9.3.       Tjón á munum

9.3.1.            
Verði starfsmenn sannanlega fyrir tjóni á algengum nauðsyn­legum fatnaði og munum við framkvæmd vinnu sinnar, svo sem úrum, gleraugum o.fl. þess háttar, skal það bætt samkvæmt mati. Slíkt tjón verður þó aðeins bætt ef það verður vegna óhapps á vinnustað. Eigi skal bæta slíkt tjón ef það verður vegna gáleysis eða hirðuleysis starfsmanns. Sama gildir ef starfsmaður verður fyrir tjóni af völdum kemiskra efna.

9.4.       Trygging verkfæra og vinnufata

9.4.1.            
Sjái starfsmenn sér sjálfir fyrir verkfærum og vinnufötum, ber atvinnurekanda að tryggja þá hluti, samkvæmt almennum tryggingaskilmálum, fyrir tjóni af völdum bruna og þjófnaðar á vinnustað, enda láti viðkomandi starfsmaður atvinnu­rekanda í té skrá yfir hið tryggða.

9.4.2.            
Geymslur fyrir verkfæri og vinnuföt skulu þannig úr garði gerðar að þær uppfylli áður nefnda tryggingaskilmála.