Trúnaðarmenn

11.1.     Val trúnaðarmanna

11.1.1.          
Starfsmönnum er heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 til 50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50. Að kosningu lokinni tilnefnir viðkomandi verkalýðsfélag trúnaðarmennina. Verði kosningu eigi við komið skulu trúnaðarmenn tilnefndir af viðkomandi verkalýðsfélagi.

11.1.2.          
Trúnaðarmenn verði eigi tilnefndir til lengri tíma en tveggja ára í senn.

11.2.     Störf trúnaðarmanna

11.2.1.          
Trúnaðarmönnum á vinnustöðum skal í samráði við verkstjóra heimilt að verja eftir því sem þörf krefur tíma til starfa, sem þeim kunna að vera falin af verkafólki á viðkomandi vinnustað og/eða viðkomandi verkalýðsfélagi vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna og skulu laun þeirra ekki skerðast af þeim sökum.

11.3.     Gögn sem trúnaðarmenn hafa aðgang að

11.3.1.          
Trúnaðarmanni skal heimilt í sambandi við ágreiningsefnið að yfirfara gögn og vinnuskýrslur, sem ágreiningsefnið varðar. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.

11.4.     Aðstaða trúnaðarmanna

11.4.1.          
Trúnaðarmaður á vinnustað skal hafa aðgang að læstri hirslu og aðgang að síma í samráði við verkstjóra.

11.5.     Fundir á vinnustað

11.5.1.          
Trúnaðarmanni hjá hverju fyrirtæki skal heimilt að boða til fundar með starfsmönnum tvisvar á ári á vinnustað í vinnutíma. Fundirnir hefjist einni klst. fyrir lok dagvinnutíma, eftir því sem við verður komið. Til fundanna skal boða í samráði við viðkom­andi verkalýðsfélag og stjórnendur fyrirtækisins með þriggja daga fyrirvara nema fundaefni sé mög brýnt og í beinum tengslum við vandamál á vinnustaðnum. Þá nægir eins dags fyrirvari. Laun starfsmanna skerðist eigi af þessum sökum fyrstu klst. fundartímans.

11.6.     Kvartanir trúnaðarmanna

11.6.1.          
Starfsmönnum er heimilt að snúa sér til trúnaðarmanns með hvers konar óskir og kvartanir viðvíkjandi aðbúnað við vinnuna eða öðru sem þeir telja ábótavant.

11.6.2.          
Trúnaðarmaður skal bera kvartanir starfsmanna upp við verkstjóra eða aðra stjórnendur fyrirtækis, áður en leitað er til annarra aðila.

11.7.     Vernd trúnaðarmanna í starfi

11.7.1.          
Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess hjá atvinnurekanda eða verkstjóra að hann beri fram kvartanir fyrir hönd starfsmanna.

11.7.2.          
Óheimilt er að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðar­mannsstörfum fyrir sig.

11.7.3.          
Ef fækka þarf starfsmönnum skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

11.8.     Trúnaðarmannanámskeið

11.8.1.          
Trúnaðarmönnum á vinnustað skal gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi.

11.8.2.          
Hver trúnaðarmaður hefur rétt á að sækja eitt eða fleiri námskeið, samtals í eina viku á ári. Þeir sem námskeiðin sækja skulu halda dagvinnutekjum í allt að eina viku á ári enda séu námskeiðin viðurkennd af samnings­aðilum. Í fyrirtækjum þar sem starfa fleiri en 15 starfsmenn skulu trúnaðarmenn halda dagvinnutekjum í allt að tvær vikur á fyrsta ári. Þetta gildir um einn trúnaðarmann á ári í hverju fyrirtæki séu starfsmenn 5-50 en tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50.

11.9.     Öryggisverðir og öryggistrúnaðar­menn

11.9.1.          
Í fyrirtækjum þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri skal atvinnu­rekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfs­menn skulu kjósa annan úr sínum hópi öryggistrúnaðar­mann.

11.10.   Öryggisnefnd

11.10.1.         
Í fyrirtækjum þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo öryggis­trúnaðar­­menn en atvinnurekandi tilnefnir tvo öryggisverði. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, holl­ustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfs­manna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því að ráðstafanir, er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum.

11.10.2.         
Atvinnurekanda er skylt, ef hann er ekki sjálfur í öryggis­nefnd, að skipa í sinn stað fulltrúa með fullu umboði.

11.10.3.         
Atvinnurekandi skal stuðla að samstarfi þeirra, sem kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þeirra, sem annast heilbrigðisþjónustu.

11.10.4.         
Ennfremur skal hann sjá um að þeir, sem til eru kjörnir að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og þeir, sem sitja í öryggisnefnd, fái hæfilegan tíma miðað við verk­efnasvið til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði hollustuháttum og öryggi.

11.10.5.         
Atvinnurekandi skal sjá um að þeir sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í fyrirtæki hans, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi þessi mál.

11.10.6.         
Atvinnurekandi skal veita nefndum aðilum hlutdeild í skipu­lagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.

11.10.7.         
Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbún­aði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim, sem að því vinna, tekjutap sem af kann að hljótast.

11.10.8.         
Öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóta þeirra verndar, sem ákveðin er í 11. grein laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.