Bókun um trúnaðarmenn og læknisskoðun

Bókun um trúnaðarmenn

Samningsaðilar eru sammála um að efla menntun og þekkingu trúnaðar­manna á vinnustöðum til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í almennum ákvæðum um trúnaðarmenn. Sú viðbótarmenntun á að gera trúnaðarmenn hæfari til að vera í forsvari fyrir starfsmenn í viðræðum við stjórnendur um fyrir­tækjaþátt samninga skv. kafla 5.

Með vísan til þess skipa aðilar (ASÍ -VSÍ/VMS) sameiginlega nefnd sem í eiga sæti fjórir fulltrúar frá hvorum aðila sem hafi það verkefni að gera tillögur um eftirgreinda þætti:

Skoða kosti þess að bjóða upp á sameiginleg námskeið fyrir trúnaðarmenn og stjórnendur fyrirtækja meðan verið er að þróa fyrirtækjaþátt samninga.

Skoða fyrirkomulag námskeiða, fjármögnun og hvernig tryggja megi sem best aðgengi trúnaðarmanna að námskeiðum.

Nefndin skal hefja störf eigi síðar en 1. maí n.k. og skila niðurstöðum fyrir 1. nóvember 1997 til annars vegar miðstjórnar ASÍ og hins vegar framkvæmda­stjórna VSÍ/VMS. Nefndarmenn verði tilnefndir af sömu aðilum.

Bókun um læknisskoðun

Á meðan reglugerð um framkvæmd 11. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hefur ekki verið sett, gilda eftirfarandi ákvæði:

Við ráðningu leggur starfsmaður fram heilbrigðisvottorð, sé þess óskað af atvinnurekanda.

Starfsmaður á rétt á að fara í læknisskoðun að loknu fyrsta starfsári og síðan á tveggja ára fresti í vinnutíma, þó aldrei lengur en þrjár klst. í hvert sinn. Starfsmaður skal hafa samráð við vinnuveitanda um hvenær skoðun fer fram. Starfsmaður ber allan kostnað af læknisskoðuninni.

Í læknisskoðuninni felst almenn heilsufarsskoðun og athugun sjúkdóma sem geta orsakast af störfum iðnaðarmanna.

Eftir gildistöku nýrra reglna skulu framangreind ákvæði endurskoðuð.