Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi

7.1        Vinnustaðir

7.1.1.            
Um þrif, loftræstingu, upphitun, salerni, matstofur, fatageymslur og allan annan aðbúnað vísast til reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggis­ráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996.


7.2.       Heilsuvernd og læknisskoðun

7.2.1.
Um heilsuvernd og læknisskoðanir vísast til 11. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

7.3.       Lyfjakassi

7.3.1.            
Lyfjakassi með algengustu lyfjum og sjúkragögnum skal vera fyrir hendi á vinnustað til nota við fyrstu aðgerð í slysatilfellum. Lyfja- og sjúkragögn skulu vera í vörslu og ábyrgð verkstjóra og trúnaðarmanns og undir eftirliti heilbrigðisyfirvalda.

7.4.       Öryggisbúnaður starfsmanna

7.4.1.            
Um öryggisbúnað starfsmanna vísast til reglna um notkun persónuhlífa nr. 497/1994.

7.5.       Brot starfsmanns á öryggisreglum

7.5.1.            
Ef starfsmenn nota ekki öryggisbúnað, sem þeim er lagður til á vinnustað, er heimilt að vísa þeim fyrirvaralaust úr starfi eftir að hafa aðvarað þá skriflega.


7.5.2.            
Trúnaðarmaður starfsmanna skal tafarlaust ganga úr skugga um að tilefni uppsagnar hafi verið fyrir hendi og skal honum gefinn kostur á að kynna sér alla málavexti. Sé hann ekki samþykkur tilefni uppsagnar skal hann mótmæla uppsögninni skriflega og kemur þá fyrirvaralaus uppsögn eigi til framkvæmda.


7.5.3.            
Brot á öryggisreglum sem valda því að lífi og limum starfs­manna er stefnt í voða, skal varða brottvikningu án undan­genginna aðvarana ef trúnaðarmaður og forsvarsmaður fyrir­tækis eru sammála um það.

7.6.       Brot fyrirtækis á öryggisreglum

7.6.1.            
Ef fyrirtæki framkvæmir ekki þau samningsákvæði sem talin eru upp í kafla þessum, eða framkvæmir ekki fyrirmæli og reglugerðir Vinnueftirlits ríkisins, telst það samningsbrot. Er starfsmönnum þá heimilt að leggja niður vinnu þegar í stað án þess að niður falli launagreiðslur til þeirra næstu viku eftir að vinnustöðvun hófst, enda geta starfsmenn sagt upp vinnu þegar í stað.


7.6.2.            
Ef öryggisbúnaður sá sem tiltekinn er í kjarasamningum og Vinnueftirlit ríkisins hefur gefið fyrirmæli um að notaður skuli, er ekki fyrir hendi á vinnustað er hverjum þeim starfsmanni er ekki fær slíkan búnað heimilt að neita að vinna við þau störf, þar sem slíks búnaðar er krafist. Sé ekki um annað starf að ræða fyrir viðkomandi starfsmann skal hann halda óskertum launum.


7.6.3.            
Stöðvun vinnu vegna þess, skal viðkomandi sveinafélag tilkynna hlutaðeigandi fyrirtæki, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnu­lífsins með 14 daga fyrirvara og skal í tilkynningunni tekið fram í hverju samningsrofin eru talin fólgin.


7.6.4.            
Verði hafnar endurbætur á því sem ótvírætt er ábótavant, skal vinnustöðvuninni frestað meðan unnið er að fram­kvæmd­um, og veittur eðlilegur tími til að framkvæma lag­færingar. Sjá ennfremur lög nr. 46/1980 og reglugerð nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.


7.6.5.            
Komi til ágreinings vegna þessa samningsákvæðis er heimilt að vísa málinu til fastanefndar ASÍ og SA.

7.7.       Vinna með byggingakrana

7.7.1.            
Á meðan ekki koma sérstök ákvæði um vinnu með bygginga­krana í öryggisreglugerð, skulu neðangreind ákvæði gilda um slíka vinnu: Fari vindálag yfir þau mörk að hættulegt geti talist við tilfærslu á mótaflekum eða öðru hliðstæðu, að mati trún­aðarmanns og verkstjóra, skal stöðva vinnu með bygg­ingakrönum.


7.7.2.            
Tafatími, sem kann að leiða af framansögðu, og ekki nýtist til annarra starfa, skal greiða skv. grein 2.6.1.