Bókanir og fylgiskjöl

Bókun 1 – Árangurslaun

Verði tekin upp árangurslaun hjá félagsmönnum Samiðnar skulu þau byggja á eftirfarandi:

Stofnun/fyrirtæki sem ætlar að taka upp árangurslaun verður að skilgreina markmið og árangursmælikvarða í starfsáætlun. Með markmiðum er átt við t.d. lækkun kostnaðar, bætta þjónustu eða bætta verkferla. Mælikvarðar stofnunar/fyrirtækis skulu vera skýrir og raunhæfir miðað við áætlaða starfsemi. Starfsmenn skal upplýsa fyrirfram um hver séu markmið og ­mælikvarðar og með hvaða hætti þeim verði umbunað fyrir að ná tilteknum árangri. Ákvörðun um árangursbundin laun getur tekið til stofnunar/fyrirtækis í heild eða að hluta.

Árangurslaun byggjast á árangri starfsmanns eða hóps starfsmanna við að ná tilteknum markmiðum deildar eða stofnunar/fyrirtækis skv. starfsáætlun. Árangur skal metinn eftir fyrirfram ákveðnum reglum sem að samstarfsnefnd setur.

Árangurslaun skulu vera í formi eingreiðslu til starfsmanns/starfs­manna­hóps í lok mælingartímabils og byggjast á að settum mark­miðum hafi verið náð. Forstöðumaður metur hvort mark­mið­um hafi verið náð og ber ábyrgð á framkvæmd.

 Bókun 2 – Tryggingarákvæði

Eftirfarandi bókun á einungis við um þá starfsmenn Vélamiðstöð ehf. sem njóta bónusgreiðslna eða tilsvarandi greiðslna í formi fastrar yfirvinnu á tímabilinu janúar til júlí 2005:

Ef einstakur starfsmaður hefur ekki hinn 1. ágúst 2005 náð með kjarasamningi þessum sem nemur 2ja launaflokka hækkun grunnlauna miðað við reiknaðan og brottfallinn meðalbónus –  eða eftir atvikum brottfallna fasta yfirvinnu –  skal honum greiddur mismunurinn vegna 1. ágúst 2005 til og með 30. nóvember 2005 með eingreiðslu hinn 1. desember 2005. Hafi starfsmaður ekki hinn 1. febrúar 2006 náð með kjarasamningi þessum sem nemur 2ja launaflokka hækkun grunnlauna miðað við reiknaðan og brottfallinn meðalbónus –  eða eftir atvikum brottfallna fasta yfirvinnu –  skal honum greiddur mismunurinn vegna 1. desember 2005 til og með 30. nóvember 2006 með eingreiðslu hinn 1. desember 2006. Hafi starfsmaður ekki hinn 1. febrúar 2007 náð með kjarasamningi þessum sem nemur 2ja launaflokka hækkun grunnlauna miðað við reiknaðan og brottfallinn meðalbónus –  eða eftir atvikum brottfallna fasta yfirvinnu –  skal honum greiddur mismunurinn vegna 1. desember 2006 til og með 30. nóvember 2007 með eingreiðslu hinn 1. desember 2007. Láti starfsmaður af störfum á ofangreindum tímabilum skal greiða honum hlutfallslega.

Fái starfsmaður hæfnislaun skv. mati forstöðumanns, sbr. 1.3.3.1.3, sem nemi ofangreindum mismun á hann ekki rétt á þessari viðbótargreiðslu vegna brottfalls bónusgreiðslna.

Bókun 3 – Laun starfsþjálfunarnema

Aðilar eru sammála um að þegar fyrir liggur starfsmat á störfum félagsmanna Samiðnar munu aðilar í samstarfsnefnd ákveða launa starfsþjálfunarnema.

Reykjavík, 7. janúar 2005


Samkomulag um takmörkun verkfallsréttar

Það er sameiginlegt markmið aðila að færa starfsumhverfi félagsmanna Samiðnar – sambands iðnfélaga nær því sem gildir um aðra starfsmenn Vélamiðstöð ehf.  Því hafa aðilar komist að samkomulagi um eftirfarandi:

Ákvæði 3. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna skulu gilda um ákvörðun og framkvæmd verkfalls félagsmanna Samiðnar – sambands iðnfélaga frá og með gildistöku þessa samnings.

Reykjavík, 7. janúar 2005

F.h.  Vélamiðstöð ehf.                                        F.h. Samiðnar-sambands iðnfélaga

með fyrirvara um samþykki stjórnar                            með fyrirvara um samþykki félagsmanna


Fylgiskjal 1:

Aðilar eru sammála um að grunnröðun starfsheita skuli hækka um 2 launaflokka frá 1. janúar 2005.  Þeir félagsmenn Samiðnar – sambands iðnfélaga sem eru í starfi við undirritun kjarasamningins eiga rétt á kr. 10.000 eingreiðslu m.v. fullt starf í desember 2004, en hlutfallslega fyrir minna starfshlutfall.

Reykjavík, 7. janúar 2005