Málmiðnaðarmenn og samtök iðnverkafólks í Svíþjóð hafa ákveðið að sameinast í eitt samband og tekur það til starfa 1. janúar 2006. Um 460 þúsund félagar verða í nýja sambandinu. – Meginorsök þess að þeir ákváðu að sameina samböndin er að með því verður til öflugri eining. Menn vilja ná hagkvæmni stærðarinnar, sameina skrifstofur sem víða eru í sama húsi, og spara í rekstri. Einnig sjá menn sér hag í að sameina krafta félaganna sem mörg hver vinna að sömu málum, en talið er að sænskum málmiðnaðarmönnum hafi fækkað um allt að 90 til 100 þúsund á síðustu tíu til tólf árum. Auk þess ætti að nást hagkvæmni í rekstri með samnýtingu á aðstöðu þar sem höfuðstöðvar beggja sambandanna eru í sama húsnæði, segir Vignir Eyþórsson, varaformaður Samiðnar, við Samiðnarblaðið, en Vignir hefur sótt þing norrænu málmiðnaðarsambandanna undanfarin ár og fylgst grannt með umræðu þar. Vignir segir að sameining hafi verið til umræðu um nokkurt skeið en nú hafi loks verið ákveðið að stíga skrefið. Í júní á næsta ári eiga vinnuhópar að vera tilbúnir með tillögur að starfsreglum og lögum hins nýja sambands á og reglum um það hvernig sameiningin á að fara fram. Innan málmiðnaðarsambandsins í Svíþjóð (Svensk Metall) eru nú um 110 félög og 22 í iðnaðarsambandinu (Industrifacket) en ætlunin er að þau verði ekki fleiri en 60 til 70 í allt eftir sameininguna. Þá eiga vinnuhóparnir að koma með tillögu að nýju nafni á sambandið og um það hve háan skatt samböndin skuli greiða til sambandsins. Einnig verður unnið að tillögum um það hverjir skipi forystu hins nýja sambands og í lok árs 2005 verða haldin þing í báðum samböndunum á sama stað en fundarsalnum skipt. Þar verða gömlu samböndin lögð formlega niður og í beinu framhaldi af því sameinast fulltrúar beggja sambandanna á einum fundi og hið nýja samband verður stofnað – í rauninni með sama hætti og þegar Samiðn var stofnuð. Hið nýja samband tekur svo formlega til starfa 1. janúar 2006.
Störf flytjast úr landi
Samtök málmiðnaðarmanna á Norðurlöndum hafa einnig rætt undanfarið um hinn opna markað, sérstaklega í Asíu og Kína, og áhrif hans á atvinnuástandið heimafyrir. – Þeir hafa eins og við áhyggjur af því að fyrirtæki flytji starfsemi sína í auknum mæli þangað sem launakjör eru mun lakari, og ekki síður að ódýrt vinnuafl streymir til Norðurlanda. Þeir láta líka í ljós áhyggjur af afleiðingum þess að austantjaldslöndin eru gengin í Evrópusambandið. Margir hafa beyg af því sem kann að gerast þegar þessi lönd opnast eftir þann aðlögunartíma sem gömlu Evrópusambandslöndin tóku sér og velta því fyrir sér hvað gerist þegar fólk fer að leita í stórauknum mæli inn á vinnumarkaðinn, hvort það muni geta haft þau áhrif að launakjör og önnur lífskjör lækki; þetta fólk sæki ekki rétt sinn eins stíft og við, sé vant bágari lífskjörum en fólk á Norðurlöndum.
Má ekki veikja félagslega kerfið
– Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar flutti ávarp á þingi málmiðnaðarmannanna og einkum tvennt í máli hans vakti athygli mína. Í umfjöllun hans um skattamál kom fram að hann mundi ekki leggja til að skattar yrðu lækkaðir í sinni tíð, því ekki mætti veikja félagslega kerfið, það ætti að standa vörð um það. Við höfum líka fjallað um það hér heima og okkur hefur þótt vegið að félagslega kerfinu með þjónustugjöldum af ýmsu tagi, hækkun lyfjaverðs og fleira. Persson fjallaði líka um mikilvægi þess að tengsl væru á milli stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingarinnar, eins og var hér á landi á árum áður. – Við verðum einnig að huga að þessu hér, segir Vignir. Við höfum þegar séð tilhneigingu í þá átt að fyrirtækin flytji starfsemi sína á láglaunasvæði, til dæmis netaframleiðslu og toghleraframleiðslu sem var hönnuð og þróuð hér heima og hefur fengið viðurkenningu um allan heim. Og allir þekkja síðan hvernig farið hefur fyrir íslenskum skipasmíðaiðnaði, en hann hefur nánast lagst af. Krafa okkar – eins og félaga okkar annars staðar á Norðurlöndum – hlýtur ávallt að vera sú að atvinnustarfsemi sé byggð upp hér heima og samkeppnisstöðu fyrirtækja séu sköpuð þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að unnt verði að leggja aukna áherslu á mikilvægi iðn-, verk- og tækn. Það verður að vera unnt að búa skóla nýjustu tækjum og búnaði sem þarf til að ávallt sé til staðar vel menntað og hæft starfsfólk sem getur tekist á við örar tæknibreytingar á öllum sviðum. Þannig tel ég að við getum varðveitt þau störf og þekkingu sem hér hefur orðið til, segir Vignir Eyþórsson, varaformaður Félags járniðnaðarmanna.