Væntanlegar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar draga úr tekjujöfn

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, skrifar um skattamál Segja má að tekjuskattskerfið hafi þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi að afla ríkissjóði tekna, í öðru lagi að jafna tekjur í þjóðfélaginu og í þriðja lagi að jafna út hagsveiflur. Ekki þarf að fara mörgum orðum um tekjuöflunarhlutverkið. Ríkisvaldið tekur einfaldlega til sín ákveðið hlutfall af laununum okkar til að standa undir samneyslunni og velferðarkerfinu. Tekjujöfnunarhlutverkið felst í því að þeir sem eru með hærri tekjur greiða hærri skatta en þeir sem eru með lægri tekjur, bæði í krónum talið og einnig hlutfallslega. Þetta skýrist af því að skattbyrðin ræðst annars vegar af skattprósentunni og hins vegar af skattleysismörkunum. Ekki er greiddur neinn skattur af tekjum undir skattleysismörkum en ákveðin prósenta af tekjum yfir skattleysismörkum. Nú eru skattleysismörkin 71.290 krónur og staðgreiðsluprósentan 38,58%. Einstaklingur með 100.000 kr. í mánaðarlaun greiðir 9.541 kr. í staðgreiðslu en einstaklingur með 200.000 kr. greiðir 46.578 kr. Sveiflujöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins felst í því að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti aukast hlutfallslega meira en tekjur einstaklinga þegar vel árar en dragast meira saman en tekjur einstaklinga þegar illa árar. Þetta gerist vegna þess að skattleysismörkin hafa almennt hækkað minna en laun. Hugsunin að baki þessu er sú að þegar vel árar sé heppilegra að ríkissjóður skili myndarlegum afgangi til að forðast ofþenslu í efnahagslífinu, en þegar illa árar þá sé það heppilegra að ríkissjóður verði af þessum tekjum til þess að örva efnahagslífið. Frá því að núverandi staðgreiðslukerfi var tekið upp árið 1988 hafa stjórnvöld margsinnis gripið inn í skattkerfið til þess að ná fram pólitískum markmiðum. Þetta gerist þannig að þegar illa árar er reynt að vinna gegn halla á ríkissjóði með því að auka skatttekjur. Þá hefur verið gripið inn í hækkun skattleysismarka eða skattprósentan hækkuð. Þegar vel árar og tekjuafgangur hefur verið hjá ríkissjóði hefur hið gagnstæða verið gert, þ.e. að dregið hefur verið úr skattbyrði og þá oftast með því að lækka skattprósentuna. Þannig má segja að skattkerfið hafi beinlínis verið notað til að ýkja hagsveiflur. Á undanförnum árum hefur kaupmáttur aukist umtalsvert. Þetta leiðir sjálfkrafa til þess að skattbyrði eykst og þar með tekjur ríkissjóðs. Ef við skoðum þróunina frá 1988 þegar núverandi staðgreiðslukerfi var tekið upp kemur í ljós að allir tekjuhópar eru að greiða hærri skatta. Hlutfallslega hafa skattgreiðslur á lágar tekjur og miðlungstekjur verið að hækka mest. Einstaklingur með 50.000 kr. í mánaðartekjur greiddi um 2.048 kr. í skatt árið 1988 sem svarar til þess að 4,1% af tekjunum fari í skatta. Ef tekjur viðkomandi hafa hækkað samkvæmt launavísitölu frá 1988 þá eru þær núna komnar í 129.413 kr. Skattgreiðslurnar hafa þá hækkað í 20.435 kr. Hlutfall tekna sem rennur til ríkis og sveitarfélaga hefur því hækkað í 15,3% eða tæplega fjórfaldast. Ef stjórnmálamenn hefðu ekkert átt við skattkerfið á þessu árabili hefði skattbyrði þessa einstaklings einungis hækkað í 8,1%. Einstaklingur sem var með 150.000 kr. tekjur 1988 greiddi 37.248 kr. í skatt. Þær tekjur framreiknaðar með launavísitölu gefa nú 388.240 kr. í mánaðartekjur. Skattgreiðslur af slíkum tekjum eru nú 123.844 kr. Hlutfallslegar skattgreiðslur þessa einstaklings hafa vaxið úr 24,8% árið 1988 í 31,9%. Ef skattkerfið væri sambærilegt og það var 1988 greiddi þessi einstaklingur nú 26,2% af tekjum sínum í skatt. Nú boðar ríkisstjórnin að lækka skuli skatta. Þegar hefur verið lögfest að hátekjuskatturinn verði afnuminn og að almenna skattprósentan verði lækkuð úr 25,75% í 21,75%. Áætla má að tekjutap ríkissjóðs verði um 23 milljarðar þegar skattalækkunaráformin verða að fullu komin til framkvæmda. Því hefur verið haldið fram að þegar boðaðar skattalækkanir verða að fullu komnar til framkvæmda þá verði skattkerfið svipað og það var árið 1988, þegar staðgreiðslukerfinu var komið á. En er það raunin? Skoðum fjögur dæmi: Einstakling með lágar tekjur, miðlungstekjur, tekjur í hærri kantinum og háar tekjur. Taflan hér að neðan sýnir annars vegar hvað einstaklingar hefðu greitt í skatt ef skattkerfið væri eins og það var 1988 og hins vegar hvernig skattgreiðslur verða þegar skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar verða að fullu komin til framkvæmda. Í ljós kemur að lágtekjumaðurinn greiðir mun hærri skatt samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en hann hefði gert samkvæmt þeim reglum sem giltu 1988, og það sama á við um þann sem er með miðlungstekjur. Hátekjumennirnir greiða lægri skatt. Í gegnum tíðina hefur a.m.k. í orði kveðnu verið sátt í þjóðfélaginu um að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar. En þegar þróunin er skoðuð kemur í ljós að dregið hefur mjög úr tekjujöfnunarhlutanum á liðnum árum. Þetta hefur annars vegar gerst með auknum kaupmætti flestra tekjuhópa en einnig með pólitískum inngripum stjórnmálamanna. Þessum pólitísku inngripum má að sumu leyti líkja við hljóðláta byltingu. Stjórnmálamenn hafa aldrei staðið upp og sagt: „Nú er það einlægur ásetningur okkar að auka sérstaklega skattbyrðar láglaunafólks, draga úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins og auka þar með ójöfnuð í þjóðfélaginu.“ Þvert á móti hafa stjórnmálamenn alltaf beitt sér fyrir skattkerfisbreytingum á öðrum forsendum. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það er einmitt það sem hefur gerst á þeim 16 árum sem liðin eru frá því að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp. Tekjujöfnun skattkerfisins núna er einfaldlega mun minni en hún var fyrir 16 árum. Væntanlegar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar draga enn frekar úr tekjujöfnun ef þær verða útfærðar eins og kynnt hefur verið. Það er enn tími til að snúa af þessari braut. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að kaupmáttarauki þeirra sem eru með lágar tekjur eða miðlungstekjur renni í vaxandi mæli í ríkissjóð á sama tíma og sérstaklega er hugað að því að draga úr skattbyrði þeirra tekjuhæstu. Nú þegar ríkisstjórnin boðar skattalækkanir er lag til að bæta frekar hag lágtekjufólks. Slíkt gerist best með því að lækka virðisaukaskatt af matvöru, hækka skattleysismörk frekar, taka upp lægra skattþrep á lægri tekjur og að efla barnabótakerfið með því að draga úr tekjuskerðingum kerfisins og hækka barnabæturnar.

Tekjur á M.v. kerfið frá Skattalækkanir
mánuði 1988* ríkisstjórnarinnar Mismunur

100.000  0  4.876  4.876 
200.000  34.372  38.073  3.701
400.000  104.776  104.466  –310
800.000  245.572  237.254  –8.318

        
*Persónuafsláttur framreiknaður m.v. verðlag