Þróun vinnumarkaðarins á Íslandi í brennidepli Samiðnarþings á A

Þótt staðan á íslenskum vinnumarkaði hafi verið fyrirferðar- mest á 4. þingi Samiðnar voru fjölmörg önnur mál á dagskrá, svo sem kjaramál, menntunarmál, velferðarmál, vinnuvernd og starfshættir Samiðnar

Fjórða þing Samiðnar var haldið á Akureyri í byrjun maí og fögnuðu Samiðnarmenn þar 11 ára afmæli sambandsins sem stofnað var 8. maí 1993. Á þinginu nýttu menn tímann vel og ræddu ýmis mál sem varða hagsmuni félagsmanna en hæst bar alþjóðavæðinguna og áhrif hennar á íslenska vinnumarkaðinn. Þá voru menntamál iðnaðarmanna ofarlega á baugi, auk hefðbundinnar umræðu um kjara- og velferðarmálin sem stöðugt brenna á íslensku launafólki.
Finnbjörn Hermannsson formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur var endurkjörinn formaður Samiðnar á þinginu og Vignir Eyþórsson frá Félagi járniðnaðarmanna í Reykjavík varaformaður.
Eins og fyrr segir var umræðan um erlent vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði áberandi á þinginu og ljóst að þingfulltrúar telja nauðsynlegt að úrbætur verði gerðar á því lagaumhverfi sem gildir um komu erlendra verktaka til landsins. Einnig var ljóst að menn vilja skýrari ákvæði um viðurlög við brotum á þeim lögum sem um íslenska vinnumarkaðinn gilda. Í ályktun þingsins um þessi efni segir meðal annars:
„Samiðn skorar á stjórnvöld að þau móti, í samráði við Samiðn og önnur samtök launafólks, stefnu um málefni erlends launafólks og íslensks vinnumarkaðar í ljósi sífellt stækkandi sameiginlegs evrópsks vinnumarkaðar og áhrifa alþjóðavæðingarinnar hér á landi. Stjórnvöld bera ábyrgð á að lög sem gilda á vinnumarkaði hafi að geyma skýr viðurlagaákvæði vegna brota á efnisákvæðum þeirra og að jafnframt sé fyrir hendi skilvirkt eftirlit af hálfu opinberra stofnana með framkvæmd slíkra laga.“ Í ályktuninni er varað við því að opnun vinnumarkaðarins verði til þess að draga úr þeim ávinningum sem hlotist hafa í kjara- og réttindabaráttu launafólks á Íslandi.

Kjaramál

Umræður á þinginu um kjaramál endurspegluðu þá staðreynd að nýlega var búið að skrifa undir nýjan kjarasamning Samiðnar og sýndist mönnum sitthvað um þann samning. Í ályktun þingsins kemur fram að Samiðnarmenn telja nauðsynlegt að allir axli sameiginlega ábyrgð á stöðugleikanum í landinu. Í ályktuninni segir meðal annars:
„Ekki kemur til greina að launafólk á almennum vinnumarkaði sé eitt skilið eftir með þá ábyrgð. Gera verður þá kröfu til allra þeirra sem koma að verðmyndun, svo sem stjórnvalda, atvinnurekenda, fyrirtækja og þeirra hópa sem eiga eftir að semja, að þeir aðilar axli sömu ábyrgð og launafólk á almennum vinnumarkaði. Hlaupist einhverjir undan ábyrgðinni eru allar líkur á að kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum verði sagt upp og stöðugleikanum verði stefnt í voða. Slíkt þjónar engum hagsmunum.“

Menntamál

Eitt af meginviðfangsefnum fjórða þings Samiðnar voru menntamál enda brenna þau nú á iðnaðarmönnum sem aldrei fyrr. Aukin tæknivæðing og miklar framfarir á ýmsum sviðum tækni og þjónustu gera það að verkum að iðnaðarmenn verða að sinna endur- og símenntun í ríkara mæli en áður eigi þeir að geta staðið undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Annað sem veldur stétt iðnaðarmanna áhyggjum – í raun ættu þeir að deila þeim áhyggjum með öðrum landsmönnum – er það hvað allt verknám á undir högg að sækja hér á landi. Bóknámið hefur vinninginn hjá ungu fólki sem hefur verið talin trú um að í gegnum bóknámið liggi leiðin að öruggri atvinnu og mannvirðingum. Ef fer sem horfir verður skortur á vel menntuðu fólki með verknám að baki.
Í ályktun Samiðnarþings sem unnin var í menntamálanefnd þingsins segir meðal annars:
„Á síðustu áratugum hefur íslenskt atvinnulíf stigið mikilvæg skref, frá því að starfa í hagkerfi frumframleiðslu til hagkerfis iðnframleiðslu. Þjónustuiðnaður hefur aukist verulega. Byggingariðnaður hér er blómlegri. Hátæknifyrirtæki í málmiðnaði eru í öflugri sókn á heimsmarkaði. Iðnaðurinn í heild er orðinn ein af meginstoðum undir velmegun Íslendinga. Hér er engu fyrir að þakka nema aukinni menntun og þekkingu.“ Í ályktuninni kemur fram að frá því árið 1996 var aðilum vinnumarkaðarins gert kleift að hafa áhrif á skipulag náms á framhaldsskólastigi, meðal annars með því að gera tillögur til menntamálaráðuneytisins um fagáfanga aðalnámskrár. Framhaldsskólanum og yfirvöldum menntamála hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi að koma námskrártillögum frá starfsgreinaráðunum til framkvæmda. Innan framhaldsskólanna er borið við skorti á aðstöðu og búnaði, námsgögnum og þekkingu kennara.“
Þá segir í ályktuninni að hugmyndin um kjarnaskóla virðist að mestu hafa misst marks, en þó er ljóst að skólar halda áfram að sérhæfa sig á vissum sviðum. Því verður að gera nemendum fært að sækja nám í skóla utan heimabyggðar með styrkjum, námslánum eða aðgangi að nemendagörðum.
Samiðnarþingið fagnar stofnun Tækniháskóla Íslands. Sambandið lítur svo á að Tækniháskólinn sé öðrum fremur háskóli atvinnulífsins og ekki síst iðnaðarins. Því er mikilvægt að Tækniháskólinn hafi augun opin fyrir námsframboði og námskröfum starfsmenntabrauta framhaldsskólans og geri jafnframt skýra og rökstudda grein fyrir inntökuskilyrðum sínum. Það verður ekki látið óátalið ef Tækniháskólinn hyggst einskorða inntökuskilyrði sín við almennt menntaskólanám og stúdentspróf án hliðsjónar af þeim kröfum sem iðnaðurinn gerir til þekkingar þess fólks sem þangað kemur til starfa. Samiðn lítur svo á að efla beri starfsmenntabrautir til að útskrifa nemendur inn í Tækniháskólann án þess að óraunhæfar kröfur séu gerðar um viðbótarnám. Gildir það sama um garðyrkjumenntun á háskólastigi. Í ályktuninni um menntamál er fjallað sérstaklega um símenntun en þar segir meðal annars:
„Sá tími er að renna upp að verulegur hluti starfsmanna á vinnumarkaði stundar símenntun af einhverju tagi. Jafnframt mun það gerast æ algengara að fólk á öllum aldri stundi nám í opinbera skólakerfinu. Þeirri skoðun hefur verið varpað fram að í náinni framtíð skipti fólk starfsævi sinni í hluta með námshléum. Umræða um fjárhagslega ívilnun vegna endur- og símenntunar er þegar hafin. Ýmislegt hefur verið nefnt til sögunnar eins og t.d. menntareikningar. Samiðn telur brýnt að umræða fari fram um þessi málefni meðal aðila vinnumarkaðarins og við stjórnvöld með það fyrir augum að leita að, finna og koma til framkvæmdar þeim leiðum sem vænlegastar eru taldar.“
Í ályktun um menntamál er vakin athygli á Kaupmannahafnaryfirlýsingu menntamálaráðherra ESB og EES frá nóvember 2002 en í henni er lögð áhersla á að leita leiða til að koma á samræmdu kerfi viðurkenningar á starfsnámi og færni til að auðvelda mat á milli landa og milli kerfa. Þetta á ekki síst við nú þegar hingað streyma erlendir starfsmenn með alslags pappíra í farteskinu sem sýna eiga starfsréttindi þeirra. Menntamálaráðuneytið hefur lýst því yfir að Kaupmannahafnaryfirlýsingin falli að stefnu íslenskra stjórnvalda. Því skorar Samiðn á menntamálaráðherra að láta verkin tala og leggja fé og mannafla til þess að koma á slíku matskerfi hérlendis.

Vinnuumhverfismálin

Í ályktun þingsins í vinnuumhverfismálum er lýst ánægju með það samstarf sem á er komið milli Samiðnar, Samtaka iðnaðarins og Vinnueftirlits ríkisins í vinnuumhverfismálum. Sérstaklega er því fagnað að nú er í gangi í samstarfi þessara aðila tilraunaverkefni sem ætlað er að bæta vinnuumhverfi í byggingar- og málmiðnaði.
„Þingið leggur áherslu á að tryggt verði að framhald verði á samstarfinu þegar núverandi samningur rennur út. Þingfulltrúar telja að með öflugu samstarfi fyrirtækjanna, samtaka launamanna, samtaka avinnurekenda og opinberra aðila við uppbyggingu innra starfs í fyrirtækjunum megi vænta meiri árangurs í vinnuverndarmálum í framtíðinni. Þetta á ekki bara við um fyrirtæki í byggingar- og málmiðnaði heldur er þörfin ekki minni í öðrum starfsgreinum.“

Velferðarmál

„Í aðdraganda nýafstaðinna kjarasamninga settu landssambönd innan ASÍ fram sameiginlegar kröfur á hendur stjórnvöldum í velferðarmálum. Samningar einstakra félaga og landssambanda voru lausir á misjöfnum tíma og mismunandi áherslur við kjarasamningsgerðina gerðu það að verkum að ekki tókst að leggja nægilega áherslu á velferðarkröfurnar.“ Þannig hljómar inngangurinn að ályktun um velferðarmál sem samþykkt var á þinginu.
Þingið lýsti yfir vonbrigðum með að verkalýðshreyfingunni skyldi ekki takast að skapa þá samstöðu sem nauðsynleg var til að leiða þessi mál til lykta gagnvart ríkisstjórninni.
Þingið telur brýnt að velferðarkerfið verði styrkt og vill meðal annars að dregið verði úr hlut almennings í lyfjakostnaði. Biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði verði eytt og niðurgreiðsla húsaleigu í félagslegu leiguhúsnæði verði aukin. Krafist var endurskoðunar á atvinnuleysisbótakerfinu, bæði hvað varðar upphæð bóta og virkar vinnumarkaðsgerðir.
Þingið vill að gripið verði til aðgerða til að bæta stöðu barnafólks, meðal annars með því að gera leikskóla að fyrsta stigi grunnskólans án gjaldtöku. Efla ber barnabótakerfið. Þá vill þingið að bætt verði staða foreldra langveikra barna sem þurfa að hverfa af vinnumarkaði. Jafnframt vill þingið bæta launarétt foreldra sem þurfa að sinna veikum börnum sínum enn frekar.
Um almannatryggingakerfið segir í ályktun þingsins að nauðsynlegt sé að hækka sjúkradagpeninga launafólks hjá almannatryggingum og að endurskoða lífeyriskerfið þannig að tekið verði á verkaskiptingu almannatrygginga og lífeyrissjóða, afkomuvanda eldri borgara og jöfnun lífeyrisréttinda.

Starfshættir Samiðnar

Samþykkt var á þinginu ályktun um að þingið kysi fimm manna nefnd sem hefði það hlutverk að koma með tillögu til næsta sambandsstjórnarfundar um hvernig verkaskipting eigi að vera milli aðildarfélaganna og Samiðnar, og hvaða verkefni Samiðn verði falin í framtíðinni. Komist nefndin að því að þeir starfshættir sem hún leggur til rúmist ekki innan núverandi skipulags skal hún koma með tillögu að öðru skipulagi.

Samiðn er á réttri leið

Þurfum að tryggja stöðugleikann, bætta ímynd verkmenntunar og iðnarmanna, standa vörð um vinnumarkaðinn, segir Finnbjörn Hermannsson sem er að hefja þriðja kjörtímabil sitt sem formaður Samiðnar

Finnbjörn Hermannsson var endurkjörinn formaður Samiðnar næstu þrjú árin á nýafstöðnu Samiðnarþingi. Finnbjörn er nú að hefja þriðja kjörtímabil sitt sem formaður Samiðnar.
„Þetta er búinn að vera góður tími. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að starfa innan vébanda Samiðnar. Þetta er gott samband og hér ríkir einhugur og samstaða. Nýliðið þing staðfesti að Samiðn, sem núna er komin á tvítugsaldurinn, er á réttri leið,“ segir Finnbjörn. Hann fagnar því sérstaklega að samstaða var á þinginu um að setja starfshætti Samiðnar í nefnd þar sem athugað verður starf sambandsins og tengsl þess við félögin sem mynda Samiðn.
„Hugmyndin með þessari fimm manna nefnd er að skoða hvernig við viljum sjá starf Samiðnar þróast. Það er fjölmargt í starfi félaganna sem þau eiga sameiginlegt og spurning hvort betur færi á því að einhverjir af þeim þáttum væru á könnu sambandsins. Rekstur sjúkrasjóða og orlofshúsa eru til dæmis mál sem taka mikinn tíma frá öðrum félagsstörfum og menn hafa velt því fyrir sér hvort létta mætti þessum rekstri af félögunum og sameina hann undir hatti Samiðnar. Ég er ekki síður að hugsa um hag félagsmannanna í þessu sambandi, því með sameiginlegum sjóðum getum við boðið öflugri tryggingu fyrir félagsmenn og fjölbreyttari orlofsmöguleika. Ég nefni þetta sem dæmi en hér hangir margt fleira á spýtunni. Grunnhugmyndin er sú að gera hvort tveggja í senn, styrkja starf Samiðnar og auka jafnframt möguleika félaganna til að sinna sínum sértæku málum, leggja meira í þjónustu við félagsmenn sína á þeim sviðum og hafa reksturinn eins hagkvæman og hugsast getur. Sambandið, Samiðn, þarf að geta sinnt stóru málunum sem við eigum sameiginleg. Okkur veitir ekki af sterku sambandi til að taka á þeim. Þar er ég auðvitað fyrst og fremst að hugsa um mál sem snerta áhrif okkar út á við gagnvart stjórnvöldum og innan Alþýðusambandsins. Það má jafnvel hugsa sér að með auknu fjármagni til Samiðnar yrðum við með ákveðna lykilmenn sem eru í starfi hjá einstökum félögum í hlutastarfi hjá Samiðn og þannig gætu þeir unnið fyrir heildina að sameiginlegum málum iðnaðarmanna. Við höfum eitt ár til að semja tillögur sem síðan verða lagðar fyrir sambandsstjórn,“ segir Finnbjörn sem telur nauðsynlegt að skipulagið sé í stöðugri endurskoðun.
Finnbjörn segir góða reynslu komna á samstarf félaganna innan Samiðnar. Sambandið hefur staðið fyrir gerð miðlægs kjarasamnings fyrir félögin og einnig komið fram fyrir hönd félaganna í ýmsu samhengi, bæði á vettvangi menntamála og í alþjóðastarfi.

Kjaramálin

„Okkar starf næstu misserin er að fylgja eftir þeim samþykktum sem gerðar voru á þinginu. Þar er af nógu að taka. Efst á þeim lista er að sjálfsögðu að standa vörð um kjör okkar fólks. Þar er mikilvægt fyrir okkur sem hluta af verkalýðshreyfingunni að standa vaktina gagnvart afkomu heimilanna í landinu. Því miður fór það nú svo við gerð síðustu kjarasamninga að ekki tókst að semja um miklar launahækkanir. Þær hækkanir sem samið var um eiga þó að halda í við verðbólguþróunina eins og Seðalbankinn spáir henni. Útgangspunktur okkar var að gera samning sem tryggði áframhaldandi stöðugleika. Á meðan heimilin í landinu skulda að meðaltali nærri tvöföld árslaun sín er mikið á sig leggjandi til að koma í veg fyrir að verðbólgan fari af stað. Launahækkanir eru fljótar að hverfa, og gott betur ef skriða verðhækkana færi af stað. Lánardrottnar þessa lands hafa gengið þannig frá að þeir eru bæði með belti og axlabönd. Útlán þeirra eru verðtryggð eða bera breytilega vexti eða hvort tveggja. Kjaramálin snúast ekki síst um þetta á okkar tímum, að verja kaupmáttinn– koma í veg fyrir að afborganir lána taki sífellt stærri hluta af launum vinnandi fólks. Skuldir heimilanna eru ærnar fyrir en mundu vaxa hratt ef verðbólgan kæmist á skrið. Því er stöðugleikinn líklega besta kjarabótin í boði eins og staðan er núna,“ segir Finnbjörn og bætir við að nauðsynlegt sé að taka útlánakerfið til endurskoðunar. Þá hljóti að vera komið að því að stjórnvöld fari að taka mark á kröfum um afnám verðtrygginga á lánum, segir hann. „Ef ég er að kaupa einhvern hlut vil ég vita í upphafi hvað hann kostar. En í tilfelli bankanna geta þeir sífellt verið að breyta verðinu.“

Vinnumarkaðurinn

Finnbjörn segir að eitt af stóru málunum sem Samiðn stendur frammi fyrir sé aukinn innflutningur á erlendu vinnuafli til landsins.
„Við höfum að sjálfsögðu ekkert á móti því að hingað til lands komi fólk erlendis frá til starfa. Það sem við höfum lagt höfuðáherslu á er að tryggja að þetta fólk njóti þeirra kjara sem við höfum samið um fyrir okkar menn. Það er ekki ásættanlegt að atvinnurekendur komist upp með það að flytja hingað til lands fólk sem er látið ganga í störf Samiðnarmanna og greiða þeim smánarlaun fyrir. Til að koma í veg fyrir slík undirboð tókst okkur að fá atvinnurekendur til að samþykkja verulegar hækkanir á kauptöxtum Samiðnar. Eftir þá hækkun er ekki eins hagkvæmt og var fyrir atvinnurekendur að flytja inn erlent vinnuafl. Við höfum á undanförnum árum þurft að eyða ómældri orku í að koma í veg fyrir þessi félagslegu undirboð. Stærsta dæmið eru auðvitað framkvæmdirnar við Kárahnjúka þar sem ítalski verktakinn Impregilo ætlaði greinilega að skjóta sér undan því að borga mannsæmandi laun fyrir þau störf sem unnin eru á virkjunarsvæðinu. Það hefur reynt á þolrifin að koma Ítölunum í skilning um að slíkt er ekki liðið hér á landi. Nú fá allir starfsmennirnir við Kárahnjúka greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum, að því við best vitum,“ segir Finnbjörn og leynir ekki óánægju sinni með hvernig Landsvirkjun hefur staðið að málum á Vesturöræfum. Ekki bara með því að velja verktaka sem taldi sig vera að koma til þriðjaheimsríkis og ætlaði að haga sér samkvæmt því, heldur einnig með því að sinna ekki undirbúningi þessara framkvæmda og gefa verktakanum í raun ekki færi á að koma sér almennilega fyrir áður en hafist var handa við sjálft verkið.
Finnbjörn segir mikilvægt í því róti alþjóðavæðingar sem nú fer um veröldina að Íslendingar átti sig á mikilvægi þess að viðhalda hér mannvinsamlegum vinnumarkaði þar sem í heiðri eru höfð þau manngildi sem hafa ráðið för á íslenskum vinnustöðum á síðari tímum.

Menntir og ímynd

Finnbjörn segir menntamálin og ímynd iðnaðarmanna vera eitt af málunum á borði forystu Samiðnar á komandi misserum.
„Við sem höfum fylgst með íslenskum vinnumarkaði erum fyrir löngu búin að átta okkur á því að nauðsynlegt er að fara í saumana á menntun iðnaðarmanna hér. Verkmenntun hefur farið halloka fyrir bóknámi. Aðsókn í verknám hefur ekki verið sem skyldi og ljóst að ef fer fram sem horfir verður skortur á iðnaðarmönnum á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Ástæður þess má meðal annars rekja til þess hvað stjórnvöld hafa verið treg til að leggja fram fjármagn til að byggja upp verkmenntun í landinu. Það er ábyrgðarhlutur að að láta verkmenntun í landinu drabbast niður, og við verðum að taka höndum saman til að snúa við þeirri öfugþróun,“ segir Finnbjörn og leggur áherslu á að breyta þeim viðhorfum sem ríkja bæði hjá stjórnvöldum og stórum hópi almennings, að leiðin til mannvirðinga liggi í gegnum bóknámið eitt.
„Það er eitt af okkar hlutverkum, sem erum í forystu fyrir samtök iðnaðarmanna, að verknámið fái þá ímynd sem það á skilið. Það verður að tryggja að verknáminu sé gert jafnhátt undir höfði og bóknámi í skólum landsins. Ungt fólk sem kýs að leggja fyrir sig verknám á þá skýlausu kröfu að nám þeirra sé metið jafnmikils virði og þeirra sem leggja fyrir sig bóknám. Hér þurfa allir að leggjast á árarnar við að knýja stjórnvöld til þess að sinna verkmenntun í landinu af alvöru,“ segir Finnbjörn og bætir við að á þinginu hafi verið samþykkt ýtarleg tillaga um menntamál sem miðstjórn Samiðnar ætli sér að fylgja eftir. Hann sagði jafnframt að samþykkt hafi verið að að hleypa af stokkunum átaki á vegum Samiðnar sem miðast að því að bæta ímynd iðnaðarmanna og verkmenntunar í landinu.
„Við teljum enga vanþörf á því að rétta við ímynd iðnaðarmanna, sem hefur skaðast af ýmsum ástæðum á umliðnum árum,“ segir Finnbjörn og telur það vera eitt af stórum málunum á komandi kjörtímabili forystu Samiðnar.
Finnbjörn segist vera bjartsýnn á framtíð verkalýðshreyfingarinnar. „Mér finnst að hreyfingin sé mun sterkari nú en hún hefur verið lengi. Það hefur verið sótt að henni úr ýmsum áttum en sem betur fer hefur hún borið gæfu til að verjast þeim árásum. Það eru fjölmörg mál sem hreyfingin hefur barist fyrir og komið í gegn. Heildarsamtök launafólks hafa tekið virkan þátt í ýmsum þjóðþrifamálum og lagt sitt af mörkum til að tryggja hag félagsmanna sinna. Þörfin fyrir öfluga verkalýðshreyfingu hefur ekkert minnkað. Við getum séð fyrir okkur hvernig ástandið væri við Kárahnjúka – og áhrif þess á vinnumarkaðinn annars staðar – ef við hefðum ekki hér öfluga hreyfingu sem kom í veg fyrir ósómann sem þar var í uppsiglingu,“ segir Finnbjörn.
„Hreyfingin hefur sýnt ábyrgð þegar þjóðin hefur staðið frammi fyrir efnahagsörðugleikum og tekið forystu um að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum,“ segir hinn ný-endurkjörni formaður Samiðnar, og er ekki í vafa um að verkalýðshreyfingin gegni mikilvægu hlutverki í framtíðinni eins og hún hefur gert þau rúm hundrað ár sem liðin eru frá því að íslenskt launafólk tók að mynda með sér stéttarsamtök.